05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil eingöngu færa hæstv. samgrh. þakkir mínar fyrir að hafa ýtt rösklega á eftir þessu máli, þessari þál. sem hér var samþykkt á síðasta þingi. Ég get vel tekið undir það með honum, að ef tækist að koma þó ekki væri nema 10 stofnunum í samband við þetta kerfi, þannig að það kostaði dreifbýlismanninn jafnmikið að hringa í Tryggingastofnun eða í Stjórnarráð eða í Alþingi og það kostar þéttbýlismanninn, þá er talsverðu réttlæti náð fram. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta mál sé allt af hinu góða, og vænti þess, að unnt verði í mjög náinni framtíð að tengja fleiri stofnanir við kerfi af þessu tagi, vegna þess að undan fáu er eins mikið kvartað úti á landsbyggðinni — það þekkja hv. landsbyggðarþm. — og því, þegar einstaklingar þurfa að ná í opinberar stofnanir hér í Reykjavík og þeir menn, sem þeir þurfa að ná í, eru ekki við og þeir eru látnir bíða í síma langtímum saman án árangurs. Þetta er því algjört réttlætismál. Ég þakka ráðh. fyrir þær góðu undirtektir sem þetta mál hefur fengið hjá honum og væntanlega allri ríkisstj. þegar þar að kemur.