16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

168. mál, dýralæknar

Frsm. minni hl. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Afgreiðsla þessa máls í landbn. á sér nokkuð merkilegan aðdraganda og á stundum nokkuð skrautlegan. Þó verð ég að segja að ég tel ástæðu til að bera nokkurt lof á formann landbn., sem í þessu máli viðhafði vinnuaðferðir sem voru þess eðlis að hægt var að koma á samkomulagi milli tveggja hæstv. ráðherra um hvernig bæri að standa að afgreiðslu þessa máls. En það verður að segjast um leið, að það hefði ekki verið ástæðulaust að setja inn í þessi lög ákvæði um endurskoðun þeirra hið allra fyrsta, því að það gafst tiltölulega skammur tími til að kanna lögin og m.a. vegna athugasemda, sem bárust frá heilbr.- og trmrn. við lögin, væri fyllsta ástæða til að endurskoða þau við besta og fyrsta tækifæri.

Ég varð t.d. nokkuð klumsa þegar ég áttaði mig á því, að í lagafrv., eins og það kom fyrir nefndina, voru setningar eins og þær, sem fram koma í 9. gr., að skylt sé héraðsdýralækni að veita staðgengli aðgang að síma ef hann óski þess. Ég veit ekki hvaða erindi þetta á inn í lög. Í 17. gr. segir að heimilt sé að greiða héraðsdýralæknum símastyrki. Í 18. gr. segir að þegar dýralæknir hafi starfað sem héraðsdýralæknir sé heimilt að veita honum hagkvæm lán til kaupa á bifreið við starf sitt. Og í 19. gr. segir: „Þegar dýralæknir er kvaddur til vitjana á eigin farkosti á fleiri en einn stað í sömu akstursleið ber honum að aka sem beinasta og greiðasta leið til þeirra, sem vitjana hafa óskað.“

Þetta er kannske smávægileg atriði. Það eru grundvallaratriði frv. sem auðvitað skipta höfuðmáli.

Við höfum þrír nefndarmenn skilað séráliti að mjög gefnu tilefni. Það eru hv. þm. Pétur Sigurðsson, Steinþór Gestsson og ég. Við höfum þó ekki gert ágreining um afgreiðslu málsins einfaldlega vegna þess að við gerum okkur ljósa grein fyrir því, að það liggur mikið við að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. En ég vænti þess fastlega, að unnt reynist að taka það til endurskoðunar, helst á næsta þingi ef menn sæju sér það fært. Ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa orðrétt það nál. sem við látum fylgja við afgreiðslu þessa máls um frv. til laga um dýralækna. Þar segir:

„Þótt allir nm. landbn. Nd. standi sameinaðir að afgreiðslu frv. til laga um dýralækna telja undirritaðir nm. nauðsynlegt að vekja athygli á formgöllum og nánast óþinglegri afgreiðslu málsins í hendur nefndinni.

Frv. þetta er stjfrv. og því eðlilegt að ætla að það hefði verið afgreitt í ríkisstj. á formlegan hátt. Það kom nm. hins vegar í opna skjöldu er þeim bárust margar blaðsíður af athugasemdum um frv. frá nefnd sem heilbr.- og trmrh. hafði skipað Þar er ekkert gert með frv. og með óvenjulegu orðbragði, a.m.k. frá opinberum embættismönnum, er það skorið niður við trog, grein fyrir grein.

Þegar þessi afstaða heilbr.- og trmrn. til frv. varð ljós vildu undirritaðir nm. vísa málinu til ríkisstj. með eftirfarandi nál.:

„Landbn. Nd. Alþingis hefur fengið til meðferðar frv. til l. um dýralækna. Nefndinni hafa borist umsagnir nokkurra aðila um málið, sem flestar eru jákvæðar. Það vekur hins vegar mikla athygli að Svavar Gestsson heilbr.- og trmrh. hefur sent Pálma Jónssyni landbrh. viðamikla grg. með athugasemdum við frv. Þar kemur m.a. fram, að um síðustu áramót hefur heilbr.- og trmrh. falið fjórum mönnum, Ingimar Sigurðssyni deildarlögfræðingi í heilbr.- og trmrn., Ingolf Petersen deildarstjóra lyfjamáladeildar sama rn., Hrafni V. Friðrikssyni yfirlækni og forstöðumanni Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Sigurjóni Jónssyni yfirlyfjafræðingi, forstöðumanni Lyfjaeftirlits ríkisins, að gera athugasemdir við fyrrnefnt frv. Þessar athugasemdir voru sendar landbrh. hinn 9. mars s.l., en þeim hafði verið komið á framfæri við heilbr.- og trmrh. 29. janúar s.l. Landbn. Nd. hefur fengið þessar athugasemdir frá landbrh.

Höfundar þessara athugasemda finna frv. til laga um dýralækna flest til foráttu, og verður ekki önnur ályktun dregin en sú, að heilbr.- og trmrh. sé nm. sammála þar eð hann sendir landbrh. grg. athugasemdalaust.

Í aðfaraorðum nefndarinnar segir orðrétt:

„Um. s.l. áramót var okkur undirrituðum falið að gera athugasemdir við frv. til laga um dýralækna, sem litið hafi dagsins ljós þá fyrir skömmu í formi nál. á vegum landbrh. Hljótum við að harma slík vinnubrögð þar sem frv. þetta er alfarið unnið á vegum þriggja manna nefndar hvar í áttu sæti tveir dýralæknar. Engin samráð voru höfð við heilbrigðisyfirvöld þó að frv. snerti veigamikla þætti heilbrigðismála, og má þar helst nefna lyfjamál og heilbrigðiseftirlit. Skýtur þetta skökku við þegar haft er í huga að heilbrrn. hefur ávallt kappkostað að senda landbrn. til umsagnar þau frv. og þær meiri háttar reglugerðir er koma inn á málefni dýralækna, og er þar skemmst frá að segja, að mjólkurreglugerð var til meðferðar í landbrn. í tæpt ár. Er unnið var að lögum um hollustuhætti og heilbirgiseftirlit, svo dæmi sé tekið, var það sent til yfirdýralæknis svo og landbrn.

Það er skoðun okkar, að landbrh. hefði átt að senda heilbrn. frv. það, sem hér er til umfjöllunar, áður en það var sent í prentun. Slík vinnubrögð hljóta að teljast sjálfsögð.

Áður en einstakar greinar verða teknar til efnismeðferðar viljum við benda á, og það er skoðun okkar, að dýralæknalög eigi eingöngu að fjalla um réttindi og skyldur dýralækna sem slíkra, sbr. læknalög um lækna, en síðan eigi að vera sérlög um dýralæknahéruð og þá þjónustu sem hið opinbera á að veita, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu og um læknishéruð. Verður því að líta á allar athugasemdir okkar óháðar þessu meginsjónarmiði, þar sem frv. tekur yfir miklu fleiri þætti en réttindi og skyldur dýralækna.“

Af þessum aðfaraorðum má ljóst vera að grundvallarágreiningur er á milli landbrn. og heilbr.- og trmrn. um það frv. til laga um dýralækna, sem vísað hefur verið til landbn. Nd. Þessi ágreiningur gengur svo langt, að í athugasemdum heilbr.- og trmrn. er látið að því liggja, að eitt atriði frv. standist ekki gagnvart stjórnarskrárákvæðum um handhafa framkvæmdavalds.

Þá er og bent á það, að í frv. sé fjallað um Tilraunastöð Háskólans að Keldum og landbrn. hyggist setja lög um þá stofnun sem fellur undir menntmrn. og starfar samkvæmt sérlögum. Einnig sé í frv. fjallað um Lyfjaverslun ríkisins, sem a.m.k. enn falli algerlega undir fjmrn. Almennt eru athugasemdirnar þannig orðaðar, að ágreiningur rn. blasir við í hverri setningu.

Af lestri athugasemdanna er ljóst, að heilbr.- og trmrn. telur að stór hluti þess frv., sem landbrn. Nd. er nú að fjalla um, falli ekki undir landbrn., heldur heilbr.- og trmrn.

Frv. til laga um dýralækna er stjfrv. og er eðlilegt að ætla að um það hafi verið samkomulag í núv. ríkisstjórn. Eins og nú standa sakir eru greinilega miklir formgallar á allri umfjöllun málsins og nánast óþinglegt að landbn. Nd. haldi áfram umræðum um það. Af þessum ástæðum teljum við bæði eðlilegt og sjálfsagt að málinu verði vísað til ríkisstj. til umfjöllunar og ákvörðunar. Munum við ekki taka þátt í frekari athugun og könnun nefndarinnar á málinu. Af ofangreindum ástæðum leggjum við til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Öllum nm. var ljóst að mikið lá við að frv. þetta fengi afgreiðslu á þessu þingi. Varð því að samkomulagi að formaður nefndarinnar reyndi að sætta landbrh. og heilbr.- og trmrh. á einhverja lausn málsins. Í allan þennan málarekstur fór mikill tími og mikil vinna og lauk honum með smíði fjölmargra brtt. sem nefndin flytur nú við frv. Undirritaðir telja þetta vægast sagt óvenjulegar starfsaðferðir þegar þingnefnd verður að leysa ágreining ráðherra um stjfrv.

Margt fleira mætti um þessa makalausu málsmeðferð segja, en ugglaust gefst tækifæri til þess við umr. um málið.

Eins og áður er frá greint leggjum við til að frv. verði samþykkt með þeim brtt., sem nefndin í heild flytur á sérstöku þskj.

Við þetta er svo rétt að bæta, að eftir að þetta álit kom fram í nefndinni gerði formaður nefndarinnar sér allt far um að reyna að sætta þau að því er virtist óbrúanlegu sjónarmið er fram höfðu komið í máli þessu á milli tveggja rn., og tókst honum það með sóma og sann þannig að nm. allir gátu fallist á að ljá þessu nál. nöfn sín. Hins vegar er því ekki að leyna og er í huga okkar allra, að ég tel að það verði við fyrstu hentugleika að endurskoða þetta frv. og reyna að koma því í breytta og bætta mynd. Frv., eins og það liggur nú fyrir, er þess eðlis, að það er ekki verulegum vandkvæðum bundið að afgreiða það eða samþykkja það hér á þingi, en bæði væri eðlilegt og sjálfsagt að endurskoða frv., m.a. með tilliti til þeirra athugasemda, margra mjög réttmætra, sem fram komu frá heilbr.- og trmrn.

Það er nú einu sinni svo, að sá málaflokkur er býsna viðamikill sem þetta frv. tekur til. Það er bæði eðlilegt og væntanlega sjálfsagt að það verði skoðað vandlega, hvort stórir hlutar þessa frv., sem snerta heilbrigðismál, lyfjamál og fleira af þeim toga spunnið, heyri ekki frekar undir annað rn. en landbrn.

Herra forseti. Við, sem undirritum þetta nál. og erum minni hluti landbn., gerum ekki ágreining um flutning og afgreiðslu þessa frv. Við teljum að það sé í raun og veru í lagi, ef svo mætti orða það, að afgreiða þetta frv., enda liggur mjög á að það fái afgreiðslu, þó að við höfum hnotið um andkannalegt orðalag í frv., sem ég nefndi dæmi um áðan. Veigamesta atriðið er auðvitað það, að tvö rn., sem telja sig eiga hér hlut að máli, virðast ósammála um hvernig beri að haga veigamiklum efnisþáttum sem í þessu frv. eru.