19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3901 í B-deild Alþingistíðinda. (3379)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um verðtryggðan skyldusparnað á árinu 1982 í þágu Byggingarsjóðs ríkisins og vegna þess sjóðs.

Með þessu frv. er lagt til, eins og nafn frv. ber með sér, að lagður verði á sérstakur verðtryggður skyldusparnaður vegna Byggingarsjóðs ríkisins og er innheimtan bundin við þetta eina ár. Í frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður endurláni síðan Byggingarsjóði ríkisins innheimtan sparnað samkv. lögunum. Lánskjör verða þau sömu og hann sætir sjálfur, þ.e. lánið skal endurgreiðast 1. jan. 1986 og vera verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu og bera 1% vexti. Undanþegin þessum skyldusparnaði eru þó börn innan 16 ára aldurs og menn sem náð hafa 67 ára aldri fyrir 1. jan. 1982.

Ég vil leggja á það þunga áherslu um leið og ég geri grein fyrir þessu frv., að hér er að sjálfsögðu alls ekki um að ræða skattlagningu. Hér er um að ræða lánveitingu af hálfu þeirra skattgreiðenda sem hæstar hafa tekjurnar, og þetta lán veita þeir í tiltölulega mjög skamman tíma, þ.e. að lágmarki í þrjú ár, en vissulega getur hin sparaða upphæð staðið inni miklu lengur. Og reynslan er sú, að menn taka því með þökkum að láta skyldusparnaðinn liggja inni og geyma þannig fyrir sig nokkur verðmæti til síðari ára með verðtryggðum kjörum. Ég legg sérstaka áherslu á það líka, að það eru aðeins þeir, sem hæstar tekjurnar hafa, sem eiga að leggja fram þessi lán, og er talið samkv. tölvuútskriftum að einungis um 5% framteljenda muni leggja verðtryggðan skyldusparnað af mörkum. Meginreglan varðandi einstaklinga, sem veita lán af þessu tagi samkv. frv., er sú, að skyldusparnaðarupphæðin er 6% af tekjuskattsstofni yfir 135 þús. kr., en það er það þrep sem hæsta skattprósentan er einmitt miðuð við í núgildandi tekjuskattslögum, þannig að ekki fellur skyldusparnaðarkvöð á aðrar skattgjaldstekjur en þær sem eru yfir þessum mörkum. Hins vegar er rétt að vekja á því athygli, að tekjumörkin varðandi skyldusparnaðinn liggja að sjálfsögðu talsvert miklu hærra, þar sem til viðbótar þessu lágmarki, 135 þús. kr., kemur það sem er til frádráttar brúttótekjum á skattframtali, sem er annaðhvort ýmsir frádráttarliðir lögum samkv. ellegar að lágmarki 10% almennur frádráttur. Raunar gildir það um mjög stóran hluta þeirra sem skyldusparnað leggja fram, að þeir fá lánaðan afslátt frá maka sínum sem er tekjulægri. Að sjálfsögðu er það algengast að annar maki sé tekjulægri eða að bæði hjónin séu ekki með nákvæmlega sömu tekjurnar, og því er tilflutningur á afslætti mjög algengur. Er það ein aðalástæðan til þess, að einungis tuttugasti hver framteljandi verður að láta af hendi lán með lögbundnum skyldusparnaði.

Til þess að unnt sé að gera hjónum kleift að miðla ónýttum persónuafslætti yfir til hins hjóna er form skattsins á þann veg, að sparnaðarmarkið er formlega lækkað úr 135 þús. í 90 þús. kr., eins og fram kemur í a-lið 2. gr. frv., en síðan er veittur afsláttur frá reiknuðum skyldusparnaði að fjárhæð 2 700 kr. eða sem nemur 6% af mismuninum, þ.e. 45 þús. kr. Gagnvart einhleypingum breytir þessi formlega meðhöndlun engu að sjálfsögðu, en þar sem umræddan afslátt skal millifæra eftir þörfum milli hjóna, eins og ég hef þegar nefnt, þá hækkar skyldusparnaðarmark annars hvors hjónanna um allt að 45 þús. kr. miðað við að hitt hjóna hafi ekki haft tekjuskattsstofn yfir 90 þús. kr. Samkv. ákvæðum þessarar greinar verður skyldusparnaðarmark af samanlögðum tekjuskattsstofni barnlausra hjóna á bilinu 180 þús. kr. til 270 þús. kr., en hvar skyldusparnaðarmarkið lendir á þessu bili er að sjálfsögðu háð tekjuskiptingunni milli hjóna.

Þá er skyldusparnaðarmarkið hækkað vegna framfærslu barna og nemur sú hækkun 10 þús. kr. í tekjuskattsstofni fyrir hvert barn, en afsláttur þessi tvöfaldast fyrir hvert barn umfram þrjú. Þar sem þessi ívilnun er einnig í formi afsláttar kemur hún hjónum að fullu til góða óháð tekjuskiptingu þeirra.

Hvað þetta álagningaratriði snertir má að lokum benda á að í a-lið 2. gr. eru ákvæði til ívilnunar þeim framteljendum sem eiga maka sem orðinn er 67 ára eða eldri fyrir 1. jan. 1982. Þeim er sem sagt tryggð hlutdeild í skyldusparnaðarafslætti makans enda þótt hann sé undanþeginn ákvæðum um skyldusparnað. Er þetta auðvitað veruleg rýmkun á meginreglunni hvað varðar aldurshópa þá sem hér hafa verið nefndir. Ekki þykir eðlilegt að ætla öldruðu fólki að leggja fram skyldusparnað þar sem hætt er við að það njóti ekki skyldusparnaðarins í öllum tilvikum þegar hann kemur til endurgreiðslu.

Vissulega mætti hugsa sér að skyldusparnaður væri lagður á verulegar tekjur barna þótt yngri séu en 16 ára, en þó þykir rétt eftir atvikum að gera það ekki, enda heyrir það sjálfsagt til mikilla undantekninga að börn innan 16 ára aldurs hafi þær tekjur að þau hafi möguleika á að lenda í þessum skyldusparnaði.

Eins og ég hef þegar tekið fram er skyldusparnaðurinn bundinn til einungis þriggja ára. Er það eitt með öðru sem gerir það að verkum, að þessi skyldusparnaður er bersýnilega miklu hógværari og gengur skemmra en skyldusparnaður sá sem lagður var á í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar fyrir nokkrum árum. Það eru sem sagt ýmis dæmi þess, að skyldusparnaður af þessu tagi hafi verið lagður á, og sennilega oftast um að ræða að lengra sé gengið en í þetta sinn.

Ástæður fyrir innheimtu þessa sérstaka skyldusparnaðar eru m.a. þær, að á þessu ári er gert ráð fyrir að hækkuð verði lán til þeirra sem eru að eignast íbúð í fyrsta sinn, þ.e. lán frá Byggingarsjóði ríkisins, en hann fær allan innheimtan skyldusparnað til ráðstöfunar, eins og ég hef þegar tekið fram. Einnig er því ekki að neita, að Byggingarsjóður ríkisins á í nokkrum fjárhagsörðugleikum þessa stundina vegna þess að tekjur sjóðsins af skyldusparnaði ungmenna hafa farið lækkandi undanfarin ár af ýmsum ástæðum og einnig vegna þess að kaup lífeyrissjóða á skuldabréfum Byggingarsjóðs reyndust ekki á s.l. ári ná því marki sem reiknað var með og að var stefnt. Verði frv. þetta að lögum má gera ráð fyrir að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins aukist um sem næst 35 millj. kr. á þessu ári.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir meginatriðum þessa máls. Mér er fullkomlega ljóst að mál þetta mun sæta andmælum, og miðað við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið í fjölmiðlum, er ekki með öllu ljóst hvort mál þetta hefur þingfylgi til að ná fram að ganga eða ekki. Það verður þá að koma í ljós, ef svo er ekki, og verður það að sjálfsögðu til þess að auka þau vandamál sem við er að glíma hjá Byggingarsjóði ríkisins. Sennilega verður ekki unnt að hækka lán til þeirra sem eru að eignast íbúð í fyrsta sinn, ef svo færi að mál þetta næði ekki fram að ganga.

Ég vil sannarlega gera mér vonir um að hv. þm. líti ekki á þetta mál einungis í einhverju stórpólitísku ljósi eða með skjálfta í sér af völdum komandi sveitarstjórnarkosninga, heldur geri þeir sér grein fyrir að hér er um nauðsynjamál að ræða, — mál sem jafnframt verður að teljast fullkomið sanngirnismál að þeir, sem best eru stæðir í þjóðfélaginu, veiti lán af örlitlum hluta af tekjum sínum til aðeins þriggja ára til að greiða úr vanda þeirra sem standa frammi fyrir mestum erfiðleikum við að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.