05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þykir undarlegt ef hv. þm. telur að við útræðum hér um skrefamálið í fyrirspurnartíma. Það þykir mér skrýtið, eins mikill hávaði og hefur verið í honum og fleirum um það mál. Ég hef aldrei nokkurn tíma sagt að ekki væri unnt að leysa málið eftir öðrum leiðum. En ég tel skrefatalningu réttlátasta og besta fyrir þéttbýlisbúa líka og skal rekja það hér við annað tækifæri.

Hins vegar mætti hv. þm. gera sér grein fyrir því, hvernig þróun þessa máls hefur verið. Það var enginn annar en samgrh. Ingólfur Jónsson sem byrjaði á þessu máli í maímánuði 1971. Þá ræddi Ingólfur Jónsson um það — ég hef það skjalfest frá póst- og símamálastjóra, hvernig væri unnt að jafna símakostnað milli dreifbýlis og þéttbýlis, og gaf honum fyrirmæli um að gera till. um hvernig mætti mæla slíkan símakostnað. Það er síðan í júlí 1971 að samgrh. samþykkir till. stofnunarinnar, sem tók gildi frá 1. ágúst, um verulega lækkun taxta á átta tilteknum langlínuleiðum. Síðan heldur þetta áfram stig af stigi án þess að ég sé að rekja það hér.

Samgrh. Halldór E. Sigurðsson ítrekar þessi fyrirmæli um að leita leiða til að jafna símakostnað og alveg sérstaklega með því að mæla lengd símtala. Hér liggur fyrir þáltill. 1974 og er samþykkt. Þá er leitað eftir áliti póst- og símamálastjóra. Þessi mál eru rædd hér þá. Ég get flett upp fyrir hv. þm. því sem ég sagði þá í ræðu um þessi mál og hann hefur ekki séð. Þá kemur greinilega fram sú till., að þetta skuli gert með skrefamælingu. Till. er samþykkt að þessum upplýsingum fyrirliggjandi. Síðan er það samgrh. Ragnars Arnalds, hygg ég, sem rekur smiðshöggið næst á undan mér á þetta mál með því að ákveða að tækin skuli keypt og veitt skuli fé í þessu skyni, ákveðin fjárveiting. Ég hef framkvæmt það sem — að því er mér sýnist — þrír samgrh. á undan mér hafa lagt drög að.