19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3904 í B-deild Alþingistíðinda. (3380)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem við nú ræðum, fjallar um skyldusparnað. Hæstv. fjmrh. ræddi í miklum afsökunartón um frv. Hann vildi í fyrsta lagi leggja mikla áherslu á að í frv. fælist ekki skattlagning, frv. næði aðeins til þeirra sem hefðu hæstar tekjur, eins og ráðh. sagði, skyldusparnaðurinn væri miklu hógværari en við hefðum áður þekkt, og vitnaði þá til þess sem gerðist í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar. Á þennan veg féllu orð hæstv. ráðh. ítrekað í ræðu hans í nokkurs konar afsökunartón fyrir þessu frv. Hvað er hæstv. fjmrh. að afsaka? Mér þykir vera ástæða til þess að víkja nokkuð að því. Ég minnist ekki á þetta vegna þess að mér komi það á óvart, að hæstv. ráðh, vilji afsaka þetta frv., því að það og allur málatilbúnaður þess er þannig að það er að sjálfsögðu mikil þörf á slíku. En annað mál er það, hvort það nægir til þess að gefa frv. nokkurt gildi.

Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að þetta er ekki í fyrsta sinn sem lögleiddur er skyldusparnaður. Og vegna þess að þessi skyldusparnaður er tengdur fjáröflun til Byggingarsjóðs ríkisins liggur næst að minna á það, að um langt árabil hefur verið í gildi skyldusparnaður til fjáröflunar fyrir Byggingarsjóð ríkisins, þ.e. skyldusparnaður ungs fólks, og þarf ekki að skýra það hér fyrir hv. þm. Hæstv. ráðh. talaði um það eins og það væri eitthvað nýtt og óvænt, að skyldusparnaður sá, sem nú er í gildi, gefi litið ráðstöfunarfé til Byggingarsjóðs ríkisins. Það hefur svo oft verið rætt um skyldusparnað unglinga til fjáröflunar fyrir Byggingarsjóð ríkisins og það kerfi sem sett var upp þegar skyldusparnaður var lögleiddur, að það ætti að vera óþarfi að gerast fjölorður um það mál. En ég leyfi mér samt að vekja athygli á því, að samkv. eðli málsins hlaut það að vera svo, að skyldusparnaður þessi gaf mest fyrstu árin og komst svo að nokkrum tíma raunar eftir fyrstu árin í hámark, vegna þess að þá var fyrst og fremst um innborganir að ræða en ekki útborganir til þess fólks sem þessum lögum átti að hlíta, eftir því sem það óx upp og náði þeim aldri þegar til útborgunar kom. Þannig hlaut það að vera, að þessi skyldusparnaður stefndi smám saman í það að minnka stöðugt bilið á milli þess sem var innborgað og sem var útborgað, þannig að það var alltaf minna og minna aukið fé sem kem til ráðstöfunar fyrir Byggingarsjóð ríkisins. Það, sem hæstv. fjmrh. er nú að segja, eru engar fréttir fyrir okkur hv. þm. um þetta efni. Það eru alls engar fréttir. Hins vegar, til þess að fyrirbyggja misskilning, skulum við hafa það í huga, að þó að það sé alltaf minna og minna nýtt fé — eða aukið fé, skulum við kalla það, til ráðstöfunar í Byggingarsjóði ríkisins í gegnum þetta kerfi, þá hefur þetta kerfi mjög mikla þýðingu fyrir fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins vegna þess að í því er bundið mikið fjármagn sem fer í þessar þarfir.

Þegar talað er um skyldusparnað felur það í sér að það er verið að leggja vissar skyldur á tiltekna þegna þjóðfélagsins. Það var mikið rætt um þessi mál á sínum tíma og oft síðan eftir að lög voru fyrst sett um skyldusparnað unglinga. Eitt af því, sem þótti réttlæta það að leggja þessar skyldur á unglinga, var að með þeim hætti væri verið að stuðla að því, að þeir ráðstöfuðu sem best sjálfsaflafé sínu til þess að koma sér upp íbúðarhúsnæði þegar þeir hefðu aldur til. Þetta þóttu rök fyrir skyldusparnaði þessum á sínum tíma og eru vissulega enn.

Hæstv. fjmrh. sagði að sá skyldusparnaður, sem við erum hér að ræða, varði það mál að auðvelda ungu fólki að koma sér upp íbúð í fyrsta sinn. Ég kem nánar að því atriði og við þá fullyrðingu er ýmislegt að athuga því miður. En þetta frv. varðar skyldusparnað og hæstv. ráðh. vitnaði í því sambandi, eins og ég sagði áðan, til þess skyldusparnaðar sem lögfestur var 1977 af ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. sé að minna á þetta vegna þess að hann telji þann skyldusparnað, sem hann hér leggur til, á þann veg að leggja megi til jafns við það sem gert var 1977. (Félmrh.: Hann gengur skemmra þessi.) Já, gengur skemmra, segir hæstv. félmrh. En það er ekki það sem skiptir hér máli. Það, sem skiptir máli, er hvaða almenn skilyrði og tilgangur þarf að vera fyrir hendi til þess að skyldusparnaður sé yfirleitt réttlætanlegur. Frá mínu sjónarmiði hlýtur það að vera algert undantekningartilfelli þegar gripið er til þess ráðs að afla fjár í ríkissjóð eða fjárfestingarsjóði ríkisins á þennan hátt. Það hlýtur að vera algert undantekningartilvik.

Hvernig lágu þessi mál fyrir árið 1977? Þá var verið að gera víðtækar efnahagsráðstafanir og skyldusparnaðurinn þá var þáttur í þeim ráðstöfunum og stefnumörkun í efnahagsmálunum í heild. (ÓRG: Ekki skilaði hún miklum árangri.) Hv. 11. þm. Reykv. segir að það hafi ekki skilað miklum árangri. Það er ekki rétt. En þó er það rétt að því leyti, að flokkur hans og aðrir slíkir gerðu sitt til þess með óspektum og ólöglegum hætti að hindra eðlilegan framgang efnahagsráðstafana ríkisstj: Geirs Hallgrímssonar og draga lokur frá flóðdyrum verðbólgunnar sem við enn þá súpum seyðið af.

Ég ætla ekki að gerast fjölorður um þau almennu skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að réttlætanlegt sé að grípa til slíkra ráðstafana sem skyldusparnaður er. En ég hef vikið að því.

Hvað stendur þá eftir í því máli sem við nú ræðum? Það er sú fullyrðing hæstv. fjmrh., að skyldusparnaður sá, sem frv. þetta gerir ráð fyrir og við nú ræðum, sé til þess að efla Byggingarsjóð ríkisins og auka ráðstöfunarfé hans. Ég verð að segja það, að það er furðuleg óskammfeilni þegar ráðherrar núv. ríkisstj. koma nú með þetta sýndarfrv. og þykjast vera að efla og auka ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að þessir herrar hafa í hvert sinn sem mál þessi hefur borið á góma, mál Byggingarsjóðs ríkisins, hér á Alþingi haldið því fram, að núv. ríkisstj. hefði séð sérlega vel fyrir stöðu Byggingarsjóðs ríkisins og ráðstöfunarfé hans. Ég hef rætt þetta úr ræðustól hér á Alþingi á undanförnum árum fjölmörgum sinnum og sagt: Þetta er ekki rétt sem þið eruð að segja, þetta er argasta blekking. Þið eruð ekki að efla Byggingarsjóð ríkisins, þið eru ekki að bæta stöðu hans, auka ráðstöfunarfé hans, heldur þvert á móti. Verkin tala. Núv. ríkisstj. með hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. í broddi fylkingar hafa svipt Byggingarsjóð ríkisins langmikilvægasta tekjustofni hans, launaskattinum. Þeir hafa á ársgrundvelli svipt Byggingarsjóð ríkisins um 220 millj. kr. á þessu ári, 220 millj. sem svarar 2% launaskatts. Það munar um minna.

Nú koma þessir herrar og segjast vera að bæta úr þessu með skyldusparnaðarfrv. því sem við hér ræðum, þar sem gert er ráð fyrir fjáröflun um 40 millj. Það þarf að athuga nánar hvort raunar nokkuð er bætt úr stöðu Byggingarsjóðs ríkisins með þessu. Hverju hafa ráðherrar Alþb. svarað þegar þeir hafa verið minntir á þetta óhæfuverk: að svipta Byggingarsjóð ríkisins 220 millj. á ári? Hverju hafa þeir svarað? Þeir hafa svarað því, að þeir hafi séð fyrir tekjum Byggingarsjóðs á annan hátt, með lánum frá lífeyrissjóðum m.a., og lagt mesta áherslu á það. Þeir hafa aldrei þreyst á því að leggja áherslu á lífeyrissjóðina. Þó er vitað að allar hugmyndir og fyrirætlanir um fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins með fjármagni frá lífeyrissjóðunum hafa meira og minna brenglast. Þessi fjármögnun er miklu minni en allir hafa gert ráð fyrir, enda heyrðum við hljóðið í hæstv. fjmrh. núna. Hann sagði að það hefði komið minna fjármagn frá lífeyrissjóðunum en gert hefði verið ráð fyrir. Já, við getum víst áreiðanlega slegið því föstu.

En af því að við erum að tala um stöðu Byggingarsjóðs ríkisins, þá er það ekki einungis að það séu slíkar brigður á öllum fyrirætlunum og loforðum um fjármögnun úr lífeyrissjóðunum sem ég benti á, heldur verðum við og að hafa í huga að með þessu úrræði, sem hæstv. ríkisstj. hefur hælt sér af, er beinlínis verið að vega að stöðu Byggingarsjóðs ríkisins til frambúðar. Hvers vegna? Vegna þess að það fjármagn, sem Byggingarsjóði ríkisins er ætlað á þennan veg, er með 3.5% vöxtum til 15 ára, en sjóðnum er fyrirskipað að lána þetta fjármagn til 25 ára með 2% vöxtum, og sjá allir í hvað slíkt stefnir.

Það væri rík ástæða til að ræða þessa hörmungarsögu miklu ítarlegar en ég hef nú gert. En bæði er það að ég hef, eins og ég sagði áðan, oft vikið að þessari sögu og ég vil stilla máli mínu í hóf hvað tímalengd snertir svo sem kostur er. Ég skal því ekki ræða frekar um þetta.

En þá er það frv. sem hér er til umr. og er lagt fram til þess að bæta stöðu Byggingarsjóðs ríkisins, efla starfsemi hans, auka ráðstöfunarfé hans. Í því sambandi er sérstaklega talað um, eins og hæstv.ráðh. gerði, að þetta ætti að miða að því að geta hækkað lán til nýbygginga til þeirra sem byggðu í fyrsta sinn, eins og vikið er að í grg. með frv. Ég talaði um óskammfeilni áðan í öðru sambandi. Ég held að það væri óhætt að gera það líka í sambandi við þetta. Ég vil aðeins vekja athygli á örfáum staðreyndum til að skýra mál mitt.

Í des. 1981 tók Byggingarsjóður ríkisins 40 millj. kr. lán hjá Seðlabankanum til að geta staðið við skuldbindingar sjóðsins á árinu 1981. Þetta lán átti upphaflega að greiðast í febr. árið 1982, en í febr. voru engin tök til þess og greiðslunni var frestað og gert ráð fyrir að lániðverði endurgreitt í september n.k. Það hafa engin ráð verið til þess að færa Byggingarsjóði ríkisins fjármagn til að greiða þessa skuld — engir. Þetta mál er óleyst og ef ekkert er gert hlýtur það að hafa eina þýðingu, þ.e. að það fjármagn, sem ráðstafað er til íbúðarlána á árinu 1982, verður 40 millj. kr. minna en ella því að þessa skuld verður að greiða.

Nú er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram samkv. fjárlögum 63.2 millj. til Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári. Ef ekkert nýtt kemur hér til virðist þessi upphæð lækka niður í 23.2 millj. Geta menn þá séð hvaða þýðingu það hefur fyrir útlán sjóðsins á árinu 1982. Ég hef fyrir satt að þetta frv. sé fyrst og fremst fram komið til þess að afla fjár til að mæta greiðslu á þessari skuld frá árinu í fyrra, enda er gert ráð fyrir að þessi fjáröflun gefi 35 millj. kr., en skuldin er að vísu 40 millj. — Það er hart að hafa ekki hæstv. fjmrh. hér viðstaddan þegar verið er að ræða alvarleg mál við hann. (Forseti: Ég skal sjá til þess, að kallað verði í ráðh.) Já, ég vildi spyrja hann áríðandi spurningar varðandi þetta atriði. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann gæti gefið upplýsingar um hvort það væri rétt hugboð, ef ég má orða það þannig, að það fjármagn, sem skyldusparnaðurinn samkv. þessu frv. gefur, sé ætlað til þess að greiða lán sem Byggingarsjóður ríkisins tók hjá Seðlabankanum í des. s.l. og nemur 40 millj. Ég er búinn að tala dálítið um þetta og þarf ekki að gera það frekar, hæstv. ráðh. skilur hvað ég er að fara.

Ég var að ræða um þessa 40 millj. kr. skuld. Og hvers vegna er hún til komin? Hún er komin til vegna ársins 1981. Það er eftir að gera hreint fyrir dyrum sjóðsins hvað þetta varðar fyrir 1981. Ef það er gert með þessu fjármagni kemur ekkert til þess að leysa vandamál sjóðsins á árinu 1982 og eru þau þó ærin. Ég leyfi mér að segja að þau eru meiri en nokkru sinni fyrr og miklu stærri en á síðasta ári.

Ég er hér með fyrir framan mig áætlun yfir lánastarfsemi Byggingarsjóðs ríkisins árið 1982. Það eru margar tölur og margir liðir. Ég ætla ekki að fara að lesa þetta hér upp, en niðurstaðan á þessari áætlun er sú, að innstreymi til sjóðsins er áættað á árinu 1982 502 millj., en útstreymi 592 millj. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að það vanti 90 millj. kr. til þess að hægt sé að standa við útlánaáætlanir Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1982. Ég fullyrði að þær áætlanir eru í algeru lágmarki og helgast í raun og veru af því, hvernig málum er komið í byggingariðnaðinum, hvernig málum er komið hjá almenningi í þessu landi, að nú í fyrsta sinn um áratugaskeið horfa málin þannig að það eru engir venjulegir menn sem geta komið sér upp húsnæði með aðstoð Byggingarsjóðs ríkisins. Lánskjörin eru slík að hinn almenni launþegi er alltaf að verða meira og meira ófær um að njóta hinna almennu lánskjara, ég tala ekki um ungt fólk sem er að byggja í fyrsta sinn.

Það er að verða svo að ungt fólk, sem er að byggja í fyrsta sinn, er að hverfa út af húsamarkaðinum í þessu sambandi. Þetta er skelfilegt ástand og skelfilegar horfur. Hæstv. ráðh. sagði áðan að tekjuöflunin, sem þetta frv. gæfi, ætti að vera til þess að hækka lán til þeirra ungmenna sem væru að byggja í fyrsta sinn. Það er ódýrt að vera með slík gylliloforð til unga fólksins í landinu sem ekki sér sér lengur fært að leggja út í byggingu eigin íbúða, eins og var aðalreglan áður fyrr. Og svo er óskammfeilnin mikil, að á sama tíma sem menn þykjast vera sérstaklega að þjóna hagsmunum unga fólksins í sambandi við nýjar íbúðir eru tillögur frammi hjá stjórnvöldum um að lækka svokölluð G-lán á árinu 1982 um 25 millj., sem þýðir að ungt fólk, sem hefur verið að reyna að finna það ráð út úr vandanum að kaupa gamalt í staðinn fyrir að byggja, sér fram á að lán til þess verða lækkuð. Er þá hringnum lokað í þeirri ósvífni sem hæstv. stjórnvöld gera sig ber að í þessu máli.

Frv., sem hér er til umr., gerir ekkert til þess að leysa vanda Byggingarsjóðs ríkisins til frambúðar, í raun og veru ekkert til þess að leysa vanda Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári, hvað þá meira. Frv. ber vott um að hæstv. ríkisstj. er orðin gersamlega ráðþrota í húsnæðismálunum, — gersamlega ráðþrota. Í örvinglan sinni grípur hún til skyldusparnaðar til þess að aura saman krónum til að bjarga sér út úr klípu vegna bráðabirgðaláns á síðasta ári. Þessi skyldusparnaður á ekkert skylt við neitt sem heitir uppbygging á íbúðarlánakerfinu, t.d. sem væri hægt að skoða sem einhverja hliðstæðu við þann skyldusparnað sem settur var á fyrir mörgum árum og enn þá stendur, — skyldusparnað ungs fólks til þess að efla byggingarkerfið.