19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3911 í B-deild Alþingistíðinda. (3382)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. hefur gert ítarlega grein fyrir afstöðu Alþfl. til þessa endemismáls. Það verður ekki sagt að þeim, sem hlýddu á ræðu hæstv. fjmrh. áðan, hafi sérstaklega virst hugur fylgja máli þegar hann talaði fyrir þessu máli. A.m.k. heyrði ég engan sannfæringarkraft í máli hans. Raunar hefur hann ekki látið svo lítið að vera viðstaddur allar þær umræður, sem hér hafa átt sér stað núna um þetta mál, og raunar lengst af enginn af ráðh. hæstv. ríkisstj. verið hér í salnum við þessa umr. (Gripið fram í: Ég hef verið við atkvgr. í annarri deild.) Þá ber að haga vinnubrögðum hér með þeim hætti að ráðh. geti verið viðstaddur umr. sinna mála í þeirri deild þar sem þau eru lögð fram. Og raunar var það megintilefni þess, að ég stóð hér upp, að ræða um þau vinnubrögð sem okkur þm. er boðið upp á af núv. hæstv. ríkisstj. hvað eftir annað, þegar hverju stórmálinu á fætur öðru er slett hér inn í þingið þegar innan við 10 vinnudagar Alþingis eru eftir til þess tíma er ríkisstj. hefur tilkynnt að hún stefni að því að ljúka þingstörfum. Það er ekki bara þetta mál, heldur eru þau mörg fleiri. Þetta eru auðvitað óviðunandi vinnubrögð, ekki aðeins að einu leyti, heldur öllu leyti. Þetta eiga þm. hreinlega ekki að láta bjóða sér. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það ætti að breyta starfsreglum þingsins í þá veru að þegar þrjár, fjórar vikur eru til fyrirsjáanlegra þingloka — ríkisstj. hlýtur að geta mótað sér stefnu um hvenær ljúka skuli þingstörfum - þá séu ný mál ekki flutt, heldur kappkostað að afgreiða þau mál sem þegar hafa verið lögð fram. Þetta held ég að ætti að taka til athugunar því satt best að segja eru það gersamlega óverjandi vinnubrögð að slengja hér inn hverju stórmálinu á eftir öðru og ætlast til að þau séu afgreidd athugunarlítið.

Ég vildi aðeins segja örfá orð um efni þess frv. sem hér er til umr. Hér er um að ræða lánveitingu, sagði hæstv. fjmrh. Það er nú svo, að þegar um lánveitingar er að tefla þá er venjulegt að samþykki beggja aðila, lánveitanda og lántakanda, komi þar til. Hér er ekki um það að ræða. Þeir, sem veita eiga þetta lán, eru ekkert spurðir. Og ég hjó eftir því, að hæstv. ráðh. tók þannig til orða, að þarna væri um nokkra geymslu á verðmætum að ræða, og bað menn að líta ekki á þetta mál í stórpólitísku ljósi. Ég veit ekki hvernig þm. eiga að lita á þetta mál öðruvísi en eins og það er vaxið. Og ég dreg það stórlega í efa, eins og hér hefur raunar verið áður gert, að það séu aðeins 5% framteljenda sem hér eiga hlut að máli. Ég hjó eftir því, að haft var eftir hæstv. fjmrh. í sjónvarpi — ég held að það hafi verið á laugardagskvöld, að þetta kæmi á tekjur sem væru á bilinu 12–15 þús. kr. á mánuði. (Fjmrh.: Á seinasta ári.) Á seinasta ári, já.

Þetta kvöld, rétt eftir að lokið var við að segja þessa fregn í sjónvarpinu, hringdi til mín maður sem ég hafði ekki nein sérstök kynni af og þekki raunar ekki. Hann sagði: „Ég bý í blokk. Ég er að borga af húsnæðismálastjórnarláni, ég er að borga af lífeyrissjóðsláni og ég er með tvö vaxtaaukalán. Ég geri ráð fyrir að mínar aðstæður séu ósköp svipaðar og. þúsunda annarra. Ég er með fimm manna fjölskyldu og ég þarf að hafa 13 þús. kr. á mánuði til þess að standa í skilum með afborganir og til þess að geta fætt og klætt fjölskyldu mína.

Svo kemur hæstv. fjmrh. í sjónvarpið og kallar mig hátekjumann. Þessu get ég ekki unað,“ sagði þessi maður. Hann sagði enn fremur: „Ég varð að tala við einhvern vegna þess að þetta finnst mér hámark ósvífninnar. Ég held að hér hafi verið seilst einum of langt.“

Nógu langt hefur þessi ríkisstj. gengið í að skerða kjör launþega, svo sem menn geta mætavel séð ef þeir skoða síðasta rit Þjóðhagsstofnunar þar sem fjallað er um kaupmátt kauptaxta. Sé þar miðað við 100 árið 1979 er þessi kaupmáttur kominn núna niður í 94. Ég tel mig hafa orðið mjög áþreifanlega varan við það síðan þetta frv. var lagt fram og efni þess kynnt, þó ekki séu margir dagar síðan, að það hefur vakið mjög almenna reiði og almenna andúð. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hér er vissulega um nýja skattlagningu að ræða, — skattlagningu sem á að vera eins konar bráðabirgðabjörgun vegna þess að ríkisstj. er búin að forklúðra öllum fjármálum Byggingarsjóðs ríkisins.

Það hefur rækilega komið fram í þessum umræðum, að af hálfu Alþfl. hefur ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur langtum oftar verið varað við því, í hvert óefni stefndi í þessum efnum. Á þær aðvaranir hefur ekki verið hlustað og því er nú komið sem komið er. Það er talað um af hálfu hæstv. ráðh. og ríkisstj. að hér sé verið að skattleggja hátekjufólkið. Ég held að það sé rangt til orða tekið. Það er enn verið að vega í þann sama knérunn að leggja skatt á meðaltekjur. Og þar held ég að sé þegar of langt seilst og það fyrir löngu.

Við skulum ekki gleyma því, að það orð hefur lengi legið á, að hér á landi væru skattskil ekki sem skyldi og kannske einkum hjá þeim sem sjálfsagt hafa best tækifæri til þess og eru með sjálfstæðan atvinnurekstur að ýmsu leyti. Ég er alveg sannfærður um að það eru þúsundir manna í landinu sem hafa tekjur langt fyrir ofan þetta mark en samt munu sleppa. Það eru þeir sem geta skammtað sjálfum sér tekjur, því miður. Þetta er ein af staðreyndunum sem blasa hér við okkur. En hvað hefur núv. ríkisstjórn gert til að efla skatteftirlit, koma í veg fyrir skattsvik, efla eftirlit með skattskilum? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er ekki á hennar verkefnalista.

Eins og hér hafa þegar verið færð veigamikil rök fyrir á þetta frv. við núverandi aðstæður engan rétt á sér. Ríkisstj. getur farið ýmsar leiðir til að létta undir með þeim, sem eru að byggja, og þeim, sem eru að eignast íbúð í fyrsta sinn. M.a. gæti hún samþykkt frv. sem við Alþfl.-menn höfum flutt í þessari deild. Það eru ótal, ótal leiðir betri en sú sem hér er gert ráð fyrir, og þess vegna ber að fella það frv. sem hér er til umræðu.