19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3916 í B-deild Alþingistíðinda. (3387)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vék nokkuð að því, þegar hann ræddi þetta mál, verðtryggðan skyldusparnað, að það ætti sér nokkra hliðstæðu og væri víðs fjarri að þetta frv. gengi lengra en fordæmi væru fyrir á þessu sviði. Ég vil vekja athygli á því, að þegar skyldusparnaður var lagður á með líkum hætti og gert er ráð fyrir í þessu frv. fóru skattar til ríkisins aldrei yfir 40% af tekjum og jaðarskattur til ríkis og sveitarfélaga var ekki nema örlitið yfir 50%. Ef þetta frv. yrði að lögum mundi ríkið ráðstafa með skattheimtu og álagningu skyldusparnaðar yfir 70 kr. af hverjum 100 þeirra króna sem maður með meðaltekjur og yfir það vann fyrir á s.l. ári. Alþingi og ríkisstj. mundu ráðstafa yfir 70 kr. af síðustu 100 kr. sem hver maður með rúmlega meðaltekjur á s.l. ári vann fyrir t.d. í desembermánuði eða sem sagt af hans síðustu tekjum. Það gefur náttúrlega auga leið, að þegar ríkið er farið að seilast svo í tekjur manna og ráðstafa 70 kr. af hverjum 100 sem síðustu tekjur manna nema, þá fara menn að hugsa sig um, þegar fer að líða á ár, hvort það sé ómaksins vert að fara á sjó eða vinna einhverja erfiða útivinnu til að vinna fyrir 100 kr. sem fara svo 70 af til hins opinbera. Það er þetta sem ég lít á sem megingalla þessa frv. því það kemur fram, — þó þarna sé ekki um að ræða beina skattheimtu og undir það get ég tekið með hæstv. fjmrh. — að þetta tengist að sjálfsögðu annarri skattheimtu af tekjum. Með þessu er farið út á þá braut að hið opinbera tekur og ráðstafar yfir 70% af síðustu tekjum s.l. árs hjá mönnum sem eru yfir meðaltekjum.

Það er að sjálfsögðu allt of langt gengið í þessum efnum og hlýtur að koma niður á vinnuframlagi manna. Að vísu gerir það það ekki á þessu ári vegna þess að hæstv. ríkisstj. bætir gráu ofan á svart. Hún kemur aftan að mönnum og ætlar sér að ákveða með löggjöf fjórum til fimm mánuðum seinna en menn hafa haft þessar tekjur að ráðstafa þeim á allt annan hátt en menn gátu átt von á þegar þeir unnu fyrir þessum tekjum. Ég er þeirrar skoðunar, ásamt öðrum hv. þm. ýmsum, að í raun ætti að setja skorður við slíkri lagasetningu í stjórnarskrá, ekki verði hægt að láta löggjafann ákveða skatta af tekjum manna, sem þeir eru búnir að hafa og ráðstafa í góðri trú, löngu eftir að þeir eru búnir að afla þessara tekna. Slík lagasetning er í hæsta máta óeðlileg og ætti ekki að teljast þingleg.-Þessi tvö meginatriði vildi ég leggja áherslu á í sambandi við þetta mál.

Það er sagt, og á það er lögð nokkur áhersla af þeim sem flytja þetta mál, að það eigi að bjarga með því Byggingarsjóði ríkisins, hann skorti peninga. Ég verð að segja að það er nokkuð merkilegt að allt í einu skuli uppgötvast núna að Byggingarsjóð ríkisins skorti peninga. Eins og hér hefur komið fram tók hann bráðabirgðalán í fyrra, 40 millj. kr., til að standa við skuldbindingar sínar. Í ár er gert ráð fyrir, að Byggingarsjóður ríkisins láni einungis til 1100 nýrra íbúða, og samt sem áður skortir hann 90 millj. kr. til að lána einungis þessi lán, án þess að sé tekið tillit til þeirrar hækkunar sem menn eru að tala um núna að þeir fái sem í fyrsta sinn byggja eða kaupa. Það skortir hvorki meira né minna en 90 millj. kr. til þess að almenni byggingarsjóðurinn geti staðið undir því að lána 1100 frumlán á þessu ári. En hvað voru þessi lán mörg fyrir ekki mörgum árum? Árið 1978 lánaði almenni byggingarsjóðurinn tæplega 1900 frumlán. Núna skortir 90 millj. kr. til þess að hægt sé að lána út á 1100 íbúðir. Þetta er nú hin mikla reisn sem er yfir stjórn hæstv. ríkisstj. á húsnæðismálum undir forræði Alþb., bæði í fjmrh.-stöðu og félmrh. Samdrátturinn er orðinn slíkur sem ég hef sagt, enda eru nýkomnar fram upplýsingar um það frá Þjóðhagsstofnun, að það var hvorki meira né minna en 10% samdráttur í búðabyggingum í fyrra. Og hvað sögðu hæstv. ráðh. þegar var verið að fjalla um áætlanir fyrir árið 1981? Þá sögðu þeir að það ætti að stórauka íbúðabyggingar í landinu, þær mundu stóraukast. Að vísu sýndu opinberar skýrslur einvörðungu að íbúðarbyggingar yrðu svipaðar og árið áður. En niðurstaðan varð sú sem við ýmsir stjórnarandstæðingar höfum sýnt fram á með ljósum rökum að yrði. Það kemur því úr hörðustu átt þegar verið er að reyna að tengja þetta mál því, að það eigi að fara að auka lán til þeirra sem byrja að byggja. Fyrst er að finna einhvern grunn fyrir því, að hægt sé að reka Byggingarsjóð ríkisins á eðlilegan hátt, jafnvel þó að hann láni ekki nema 1100 lán á þessu ári í samanburði við 1900 lán 1978.

Það má sjálfsagt margt um þetta mál segja. Ég hjó eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði að hann teldi að Byggingarsjóður ríkisins ætti eitthvað upp í þessa skuld, 40 millj. kr. í Seðlabankanum, þegar færi að líða á árið. Það eru ekki meiri peningar til en svo að það skortir 90 millj. upp á að lána þessi 1100 lán. Þetta er það sem við erum búnir að hamra á æ ofan í æ á hinu háa Alþingi, hvernig komið er í húsnæðismálunum. Þess vegna er það heldur „billegt“ þegar hæstv. ráðh. er spurður beint um það: Fara þessir peningar, 35 millj. sem þessu frv. er ætlað að afla, ekki bara til að greiða þessa skuld í Seðlabankanum? — sem þeir að sjálfsögðu gera ef ekki kemur neitt annað fé, þá segir hann: Ég tel að Byggingarsjóður muni eiga fyrir þessari skuld í Seðlabankanum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh., fyrst hann er kominn hérna og lætur svo litið að vera við, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að það skorti 40 millj. kr. sem almenni byggingarsjóðurinn fékk að láni í Seðlabankanum í fyrra, það skorti peninga til að borga það lán og síðan skorti 90 millj. kr. til að standa við áætlun sjóðsins á þessu ári, sem einungis gerir þó ráð fyrir að lána 1100 frumlán á þessu ári. Það skortir þetta fé í Byggingarsjóð ríkisins samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið bæði í fjvn. og fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Um þetta eru borðleggjandi gögn, hæstv. ráðh. Fjárþörfin, vöntunin, er sem sagt 130 millj. í Byggingarsjóð ríkisins til að geta staðið við slíka áætlun. Ég sagði það áðan, en best er ég endurtaki það fyrir hæstv. ráðh., að gert er ráð fyrir að lána einungis 1100 frumlán á þessu ári, en til samanburðar voru lánuð næstum því 1900 frumlán fyrir nokkrum árum, eða 1978. Þetta er nú ástand fjármála Byggingarsjóðs ríkisins og við höfum gögn í höndum frá stjórn sjóðsins um það. Það eru því heldur álappaleg rök fyrir þessu frv. að það eigi að verða til þess að menn geti fengið heldur meira lán eftir samþykkt þess, þeir sem eru að byrja að byggja. Auðvitað þarf að útvega það fé sem á skortir að auki, ef menn ætla að auka byrðar sjóðsins.

Ég skal svo, herra forseti, ekki lengja þessa umr. úr hófi fram. Það hefði verið freistandi að ræða stefnu hæstv. ríkisstj. í húsnæðismálum yfirleitt, en þess gefst kostur við aðrar umr. þar sem hér er komið á dagskrá sérstakt frv. um húsnæðismál. Að sjálfsögðu tengist þessari bágu stöðu Byggingarsjóðs ríkisins sú furðulega afstaða núv. hæstv. ríkisstj., að hún hefur svipt þennan byggingarsjóð nánast öllum sínum tekjustofnum, m.a. tekið launaskatt að fullu frá þessum sjóði. 2% launaskattur, sem þessi sjóður hafði einu sinni, hefði gefið sjóðnum 220 millj. kr. tekjur á yfirstandandi ári. Hún hefur einnig svipt sjóðinn byggingarsjóðsgjaldi, innifalið það í tekjuskatti og fært þessa skattstofna yfir til hinna almennu þarfa ríkissjóðs. Þetta er að sjálfsögðu ein grundvallarskýringin á því, hvers vegna almenni byggingarsjóðurinn er kominn í fjárþrot.

Ég geri ráð fyrir, að það gefist kostur á að ræða þessi mál, eins og ég sagði áður, við umfjöllun á frv. hæstv. ríkisstj. um húsnæðismál, og sé ekki ástæðu til að lengja mitt mál frekar að sinni.