19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3918 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Vegna þessa frv., sem hér er til umræðu, frv. til l. um verðtryggðan skyldusparnað á árinu 1982, kemur mér í hug að það hefur margsinnis komið fram hjá hæstv: ríkisstj., að hagur sparifjáreigenda í landinu sé góður og sparifé einstaklinga hafi aukist í stjórnartíð hennar. Hæstv. ríkisstj. hefur nælt rósir í eigin hnappagöt fyrir þetta og í ljúfum orðum upplýst þegna sína um að nú sé góðæri í landi voru. Aðgerðirnar fyrir aukningu sparifjár voru hækkaðir sparifjárvextir og verðtrygging á sparifjárreikningum, og vissulega var þörf á þó fyrr hefði verið að gæta hagsmuna sparifjáreigenda í landinu og þá sérstaklega vegna þeirra sem ekki kærðu sig um að taka þátt í verðbólgukapphlaupinu, höfðu ekki aðstöðu til eða hreinlega kunnu ekki að spila á kerfið með því að reyna að halda í við verðbólguna sem hefur verið nauðvörn landsmanna í gegnum tíðina. Nú geta menn lagt sparifé sitt, ef eitthvað er, inn í bankann sinn og fengið af því nokkuð góða vexti og verðtryggingu.

En bankarnir eru að sjálfsögðu ekki aðeins geymslustofnanir fyrir sparifé landsmanna. Þeir eru líka þær stofnanir sem við eigum að, ef í harðbakkann slær, til að hjálpa upp á sakirnar og lána til lengri eða skemmri tíma, og því meira sem inn kemur, því meiri fyrirgreiðslu verður hægt að veita einstaklingunum og atvinnurekstrinum sem berst nú í bökkum eins og allir vita. Og hver er svo helsti keppinautur bankanna um sparifé okkar landsmanna? Jú, það er sjálfur ríkissjóðurinn. Stjórnarherrarnir höfðu ekki fyrr nælt rósirnar í barm sér en þeir fóru að hugleiða hvernig væri hægt að næla í þessa sömu peninga. Og eftir mikið hviss og pískur í hornum og gluggakistum var ákveðið að taka að láni spariféð með því að yfirbjóða bankana og gefa út verðtryggð spariskírteini með betri kjörum en áður.

Nú má vel vera að stjórnarherrarnir hafi orðið fyrir einhverjum vonbrigðum með sölu á spariskírteinunum sinum. Ef til vill hafa ekki allir hlaupið upp til handa og fóta og staðið í biðröðum til að kaupa. Peningatankur hæstv. fjmrh. hefur ekki verið eins fljótur að fyllast og til var ætlast. Og þá er á ný stungið saman nefjum, hvískrað og pískrað í hornum og gluggakistum og niðurstaðan verður sú að leggja á einn skattinn enn. Þetta skyldi gert til að ræna sparifjáreigendur þessu sparifé. Það verður auðvitað að finna göfugt heiti á nýju skattheimtuna. (Gripið fram í.) Jú, að spara er dyggð, ekki satt, og græddur er geymdur eyrir, stendur væntanlega aftur undir nafni því nú er búið að verðtryggja eyrinn. Og hver verður svo niðurstaðan? Jú, við skulum skella á lögum um skyldusparnað, segja landsfeðurnir við þegna sína. Menn geta ekkert sagt við því. Við skilum því aftur sem við ætlum að taka okkur að láni. En þá eru það þessir árans spariskírteinisvextir sem voru allt of háir, 3.53% ofan á allt hitt, og það kemur að sjálfsögðu ekki til greina að lögfesta slíkt. 1% vextir eru alveg nóg og ekki eyri meira, og lög eru lög. Og nú kemur hæstv. fjmrh. fyrir fólkið og segir í landsföðurlegum tón: Við ætlum að hjálpa ykkur að spara. Þið eyðið allt of miklu. Þið eruð alltaf að kaupa og kaupa, byggja, kaupið ísskápa og þvottavélar og bíla, barnavagna og jafnvel reiðhjól fyrir spariféð ykkar. Þetta gengur ekki lengur. Og svo allar þessar sólarlandaferðir.

Landsfaðirinn, hæstv. fjmrh., heyrir einhverjar raddir sem eru að mótmæla: En við höfum unnið myrkranna á milli fyrir þessum peningum. Við héldum að við mættum sjálf ráða hvað við gerðum við þá ef við eigum einhvern afgang. Við héldum að við mættum ráða því sjálf, hvort við notuðum þá til að fara í sólarlandaferð eða jafnvel að endurnýja bílinn eða jafnvel að leggja það í húsið sem er hálfbyggt, eða kaupa hreinlætistæki í húsið, nú eða bara leggja það inn í bankann á sparireikninginn, að ég tali nú ekki um að okkur dytti kannske í hug að vilja kaupa ríkistryggð spariskírteini af fúsum og frjálsum vilja. (Gripið fram í.) Hv. 11. þm. Reykv. hefur fengið svör við þessari spurningu fyrr hér úr ræðustól í dag og ég þarf ekki að endurtaka það. Ég vitna í þær ræður sem hafa verið fluttar hér og svara þessari spurningu hv. þm. En landsfaðirinn, hæstv. fjmrh., segir: Þið skuluð ekki ráða þessu. Við ætlum að hafa vit fyrir ykkur. Ef þið eruð þreytt og ykkur dettur í hug að þið þurfið að hvíla ykkur eftir alla þessa vinnu skuluð þið bara fara upp í rúm. Þið þurfið ekkert að fara í sólarlandaferð. Svona er nú boðskapurinn frá heimilinu því.

Það er sannarlega kominn tími til að einhver stöðvi óbilgirni hæstv. ríkisstj. með flutningi þessa frv. Það hafa verið færð ítarleg rök fyrir því, að þetta frv. geri ekkert til að leysa þann vanda sem því er ætlað að leysa, vanda Byggingarsjóðs ríkisins. Það, sem þetta frv. hljóðar upp á, er að nú á einu sinni enn að seilast í vasa skattborgaranna og reyta með lagaboði af þeim spariféð, ef eitthvað er aflögu umfram brýnustu nauðþurftir sem þarf að nota peningana til.

Það hefur verið minnst á það hér, að hátekjumennirnir eigi að greiða þennan skyldusparnað. Hverjir eru hátekjumenn í þessu landi og hvernig aflar obbinn af því fólki sinna tekna? Ég býst við að flestir viti, a.m.k. í hjarta sínu, að það gerist með þeim hætti að unnið er myrkranna á milli, að menn leggja á sig mikla vinnu, og ekki bara einn fjölskyldumeðlimur, heldur fleiri þegar um slíkt er að ræða. Það er einmitt þetta unga fólk, sem leggur á sig mikla vinnu og þarf á öllu sínu að halda, sem mundi lenda illa í þessum skyldusparnaði. (ÓRG: Það er alrangt.) Það er ekki alrangt. Hér er fullyrðing gegn fullyrðingu.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., ef ég man rétt, að ráðherrar mundu lenda í þessum skatti. (Gripið fram í: Ekki þingmenn.) En ekki þingmenn. En ég er ekki viss um að allir ráðherrar lendi í þessum skatti; ekki samkvæmt 1. gr., ef menn vildu hugleiða það. Og ég er ekki viss um að hæstv. ráðh. í ríkisstj., sem eru undanþegnir þessum skatti, kæri sig um það. Það er miðað við 67 ára aldur. Það er ekki víst að menn hafi áttað sig á að ekki er alltaf einhlítt að miða við aldur. Guði sé lof fyrir að fjöldinn allur af þegnum þessa lands 67 ára og eldri er í fullu fjöri og aflar sér jafnvel dágóðra tekna. Það mætti kannske aðeins staldra þarna við og hugleiða hvort þetta sé alveg einhlít regla.

Það er svo sannarlega komið nóg af skattheimtu hæstv. ríkisstj. þegar ríkið er farið að taka 70 aura af hverri krónu eða 70 krónur af hverjum 100, hvort sem við viljum hafa það. Þá tökum við ekki með inn í myndina óbeinu skattana, ekki fasteignaskattana eða eignarskattinn og ekki það sem við greiðum í lífeyrissjóð, og þannig mætti lengi telja. Þetta eru aðeins beinir skattar. Við greiðum söluskatt af þeim 30 krónum sem eftir eru, og hann hefur verið dável hækkaður í tíð hæstv. ríkisstj.

Ég get látið staðar numið að sinni. En ég vildi aðeins láta heyra frá mér. Úr því að umræðurnar urðu meiri við 1. umr. en ég hefði reyndar gert ráð fyrir fannst mér full ástæða til að koma upp og gera örfáar athugasemdir á þessu stigi málsins, þó að sjálfsögðu gefist annað tækifæri síðar.