19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3390)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er greinilegt að það hefur verið haldinn fundur í þingflokki Sjálfstfl. á milli fyrti ræðu síðasta ræðumanns og hinnar síðari. Ég ætlaði hins vegar eingöngu að vekja athygli á því hér, að í nefndinni sem um þetta mál mun fjalla, verða væntanlega lagðar fram töflur og útreikningar sem sýna hvaða tekjuhópar það eru í landinu sem koma til með að leggja fram þennan skyldusparnað um nokkurra ára bil. Það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að vera að fullyrða hér eitthvað um að það sé fólk með meðaltekjum og venjulegt launafólk og aðrir slíkir sem komi til með að greiða þetta. Það er hægt að leggja fram í nefndinni mjög skýr gögn, sem sýna að það er eingöngu hátekjuhópur í landinu, 8 þúsund manns og fyrst og fremst í kringum 5–6 þúsund manns, sem að einhverju leyti kemur til með að bera þetta. Þau gögn munu verða lögð fram. Bæði nm. og aðrir þm. geta fengið að kynna sér þá útreikninga mjög rækilega því að þeir hafa verið gerðir af færustu sérfræðingum landsins, sem fengist hafa við slíka skattaútreikninga á undanförnum árum.