19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3391)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í dag hefur farið fram mikil umræða um húsnæðismál. Það hefur mikið verið sagt af endileysum um stöðu þeirra mála í þessu landi. Það er svo sem ekkert skrýtið þó að menn reyni að finna eitthvað til að þrengja að þessari ríkisstj. Stjórnarandstaðan verður auðvitað að reyna að finna eitthvað í þeim efnum. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt og kemur mér a.m.k. ekkert á óvart. Þeim er vissulega vorkunn þar. En ég hefði talið að heppilegra væri að taka þau mál til meðferðar undir umræðunni um frv. til l. um breytingu á lögum um húsnæðismál, sem verður hér rætt n.k. miðvikudag, og þá gefst tækifæri til að svara ýmsu því sem hefur vaðið uppi í málflutningi, t.d. hjá hv. næstsíðasta ræðumanni sem talaði um að Byggingarsjóður ríkisins hefði verið eyðilagður, sviptur sínum tekjustofnum, og öðrum vitleysum af þessu tagi í hverri ræðunni á eftir annarri. Við skulum ræða nánar á miðvikudaginn kemur hvernig þessu hefur verið háttað, í umr. um húsnæðismál. Við skulum ræða stöðu byggingarsjóðanna, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, við skulum bera stöðu þeirra saman við tíðin ár þegar aðrir fóru með stjórn þeirra mála í þessu landi, og við skulum að þeim loknum bera okkur saman um, hvernig staðan er í heild, og meta þetta málefnalega. Ég er viss um að við getum öll komist að niðurstöðu eftir að við höfum farið yfir málin lið fyrir lið og látum ekkert hafa áhrif á niðurstöður okkar annað en málefnið sjálft.

Ég vildi koma þessu hér að, herra forseti, núna vegna þess að hér hefur margt verið sagt um húsnæðismálin. Þó að ég svari engu af því á þessum fundi, ber ekki að lita svo á að ég hafi samþykkt þá „speki“ marga sem flutt hefur verið úr þessum stól í dag. Sumt samþykki ég að sjálfsögðu.