19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (3393)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að reita hv. stjórnarandstæðinga til reiði rétt fyrir kvöldmatinn. Ég ætlaði bara að benda á nokkur atriði í stöðu þessara mála og á það, að stjórnarandstöðunni og stjórnarliðum gefst kostur á að ræða um þessi mál á miðvikudaginn kemur. Ég vona að það teljist ekki derringur að benda á að það verður fundur hér í deildinni á miðvikudag, deildarfundur að venju trúi ég, og ég vona að húsnæðismálin verði rædd þar. Ég vona að stjórnarandstaðan hafi ekkert við það að athuga að við ræðum um húsnæðismálin þá, og mér finnst engin ástæða til þess fyrir menn að stökkva upp á nef sér yfir slíku. Ég sé ekki að það sé þörf á því.

Það er auðvitað eitt og annað í sambandi við húsnæðismál sem er eðlilegt að ræða hér. Ég var ekki að kvarta yfir því, að það var verið að ræða um húsnæðismál. Það, sem ég var að segja, var að margt af því, sem sagt hefur verið hér í umr. um húsnæðismál í dag, er með þeim hætti að það fellur a.m.k. ekki að þeim staðreyndum, tölum, upplýsingum og öðru, sem ég hef undir höndum. Það gerir það engan veginn.

Ég vil minna ykkur á eitt atriði. Það er að árið 1976 voru svokölluð G-lán tekin upp í fyrsta sinn, lán út á eldra húsnæði. Þau tóku þá 10% af öllum útlánum Byggingarsjóðs ríkisins. Hvað gera þau hugsanlega á þessu ári? Samkv. upphaflegum tillögum húsnæðismálastjórnar hefðu G-lánin tekið álíka mikið fjármagn og öll nýbyggingarlánin. Þetta segir auðvitað þá sögu, að staða Byggingarsjóðs ríkisins og þjónusta hans hefur verið að breytast mikið á undanförnum árum frá því að hann sé eingöngu nýbyggingarsjóður yfir í það að vera alhliða lánasjóður, eins og við samþykktum á sínum tíma.

Ég vil benda hér á annað atriði sem hv. talsmenn Sjálfstfl. gera aldrei neitt úr, gera eins litið úr og þeir mögulega geta. Það er að nú hefur verið ákveðið samkv. lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins að verja til Byggingarsjóðs verkamanna 1% launaskatti á ári hverju. Það er tekjustofn sem þangað fer. Ef menn ætla sér hins vegar á sama tíma að auka við umsvif Byggingarsjóðs ríkisins þýðir það aukna tekjuöflun með einhverjum hætti: frá lífeyrissjóðunum, með skattlagningu eða með skyldusparnaði eins og þeim sem hér er gerð till. um. Auðvitað er alveg greinilegt að það er útilokað að auka umsvif Byggingarsjóðs ríkisins, m.a. gagnvart ungum lántakendum, öðruvísi en að grípa um leið til sérstakra ráðstafana. Það er útilokað annað. Menn geta sagt: Skilið þið aftur þeim peningum sem renna nú í ríkissjóð af launaskatti. — En þar er ekki nema hálf sagan sögð vegna þess að verulegur hluti af þessum peningum rennur annars vegar í Byggingarsjóð verkamanna og hins vegar í Byggingarsjóð ríkisins. Menn tala alltaf hér eins og ríkið láti ekkert í Byggingarsjóð ríkisins. Það er rangt. Þar er um að ræða upphæð sem samsvarar um það bil 1/2% í launaskatti. Um það bil 1% í launaskatti fer í Byggingarsjóð verkamanna. Þetta liggur hér fyrir, og þó mönnum sé mikið í mun að gera mikið úr þeim vanda, sem hér er uppi, skulum við þó ekki gleyma því, að hér hefur verið gert verulegt átak til að koma af stað félagslegum íbúðarbyggingum í þessu landi. Ég skil vel að mörgum sé nokkuð í mun að gera litið úr slíku, en við skulum samt sem áður ekki gleyma þar ákveðnum staðreyndum.

Auðvitað geri ég mér ljóst, og ég vona að hv. þingheimur geri sér það ljóst svo og landsmenn allir, að það er ekki einfalt mál að halda uppi góðu húsnæðislánakerfi í landinu. Til þess þarf mjög víðtækt átak, til þess þarf ríkisvaldið að koma til, til þess þurfa bankarnir að koma til í skipulögðum mæli og til þess þurfa lífeyrissjóðirnir að koma inn í myndina. Þegar allt þetta er tekið saman, þessir þrír meginþættir lána í landinu, kemur í ljós að þeir lána milli 70 og 80% af kostnaði við íbúðir í landinu. Þess vegna er von að menn spyrji, eins og ég og margir fleiri: Hvernig í ósköpunum stendur þá á því, að þetta er ekki fellt inn í einn samfelldan farveg? Um það þyrfti að nást samstaða þannig að unnt væri að byggja hér upp verulega myndarlegt húsnæðislánakerfi sem kæmi til móts við húsbyggjendur og þá sérstaklega þá af yngstu kynslóðinni og þá sem búa við knöpp efni. En gott húsnæðislánakerfi verður ekki byggt upp öðruvísi en fjármunirnir séu teknir einhvers staðar. Það gerist ekki öðruvísi. Það þarf að sækja þessa fjármuni með einhverjum hætti, og til þess að unnt sé að sækja fjármuni verður að ná samstöðu. Það er kjarni málsins.

Ég vona að hv. þm. misvirði ekki þessar athugasemdir mínar, sem eru fluttar í tilefni af orðum hv. þm. Lárusar Jónssonar, og vænti ég þess, að við getum átt góða umr. um húsnæðismál n.k. miðvikudag þegar frv. um húsnæðismál verður hér á dagskrá.