19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3927 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var tæpast ætlun mín að taka frekar til máls á þessu stigi um þetta mál, en ræða hæstv. félmrh. fannst mér gefa tilefni til þess þegar hann fór hér geyst og talaði um endileysur og óhæfilegan málflutning stjórnarandstöðunnar. Ég verð að segja að mér fannst endileysurnar eiginlega fyrst byrja þegar hæstv. félmrh. fór að tala. Að öðru leyti tel ég að þetta hafi verið allmálefnaleg umr. í dag og að hér hafi komið fram margar mjög athyglisverðar upplýsingar.

Hæstv. ráðh. talaði um að ekki væri einfalt mál að halda uppi góðu húsnæðislánakerfi. Ég er honum fyllilega sammála um það. En mér finnst að það hafi orðið honum allt of einfalt mál að eyðileggja þó það kerfi sem upp hafði verið byggt. Það er nefnilega oft langtum einfaldara að rífa niður en að byggja upp. Það er þetta sem við Alþfl.-menn höfum varað við allar götur síðan vorið 1980 þegar þessi mál voru til umfjöllunar. Má finna það í þingtíðindum og þskj. allar götur frá þeim tíma. Við höfum nefnilega gert okkur ljóst að til að halda þessu kerfi gangandi þyrfti peninga, en hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir því, að fjárframlög til þessara sjóða væru skorin niður.

Hæstv. ráðh. gerði mikið mál úr því áðan, að 1% af launaskatti rynni til Byggingarsjóðs verkamanna. En þó er það svo, að niðurskurðurinn á mörkuðum tekjustofnum samkv. eldri lögum og samkv. því, sem nú gildir, er 47%. Þá er auðvitað fullt tillit tekið til þess, að þetta 1% renni til Byggingarsjóðs verkamanna. En við skulum átta okkur á að hlutdeildin í launaskatti til Byggingarsjóðs ríkisins ætti að vera 222.6 millj. kr., en er ekki nema 53.7. Á móti kemur framlag í Byggingarsjóð verkamanna, sem er 111.3 í staðinn fyrir að það hefði samkv. eldri lögum verið 47.4. En það eru fleiri markaðir tekjustofnar sem hafa verið strikaðir út. Það var álag á tekjuskatt og eignarskatt sem nemur 28.9 millj. kr. Ef hæstv. félmrh. vildi láta svo lítið að leggja þetta saman fengi hann út að samkv. eldri lögum mundi þetta framlag bæði í Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna vera 346.3 millj., en eins og fyrirkomulagið er núna, eftir allar útstrikanir hæstv. félmrh., er framlagið 182.l. Það er auðvitað í þessum einföldu staðreyndum sem vandi húsnæðislánakerfisins liggur.

Ég tek hér fullt tillit til þess, að framlagið til Byggingarsjóðs verkamanna hefur vaxið. Það er húsnæðislánakerfið í heild sem hefur verið skorið niður með þessum hætti. Mér finnst þess vegna koma úr hörðustu átt þegar hæstv. félmrh. talaði um það núna að auðvitað þurfti að sæk ja peninga til að halda þessu kerfi gangandi, þegar hann hefur ekki gert neitt annað frá því að hann tók við þessum málaflokki en að ausa þessum peningum út úr kerfinu, láta þessa peninga af hendi.

Þetta finnst mér að sé meginkjarni málsins, og þetta er auðvitað mjög alvarlegt ástand. Ég er tilbúinn að ræða þetta frekar við hæstv. félmrh. á miðvikudag eða einhvern annan dag þegar hann er betur upplagður til að ræða málin. En þessi niðurskurður, þessi meðferð á húsbyggjendum og húsnæðislánakerfinu, gengur auðvitað ekki. Ég held að í staðinn fyrir að vera að rífast um þetta væri langeðlilegast að ríkissjóður, sem sýnir býsna góða afkomu og hæstv. fjmrh. er sífellt að hrósa sér af hversu góða afkomu sýni, skili einhverju aftur af þeim tekjustofnum sem hefur verið afsalað úr húsnæðislánakerfinu og hafa runnið í ríkissjóð að undanförnu. Ég held að það væri nærtækast í þessum efnum.

Í annan stað, úr því að hæstv. félmrh. sagði að auðvitað þyrftu bankarnir að koma til móts við það kerfi sem hér er um að ræða, þá legg ég til að við fáum stuðning við það frv. okkar Alþfl.-manna, að úr bankakerfinu komi viðbótarlán til húsbyggjenda upp á 200 þús. kr. svo að þeim sé í rauninni kleift að standa að þeim verkefnum sem þeir þurfa að sinna, að þeim sé í rauninni kleift að koma sér fyrir.