19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3928 í B-deild Alþingistíðinda. (3396)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er komið fram í matartímann hvort eð er þannig að menn eru sjálfsagt tilbúnir að halda eitthvað áfram, hefur mér heyrst. En ég kom aðallega hingað til að svara fsp. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, en ekki til að skattyrðast við menn um húsnæðismál almennt. Ég hef gert grein fyrir því, að ég áskil mér rétt til að fjalla um þau síðar. Það er ekki vegna þess, að ég sé neitt sérstaklega illa upplagður, eins og hv. 2. þm. Reykn. gat sér til áðan. Ég er vanur að reyna að taka þátt í umr. og víkjast ekki undan þingstörfum af persónulegum ástæðum. Ég kannast ekki við, að ég hafi gert það, og tel að það sé ómaklegt að hafa uppi aðdróttanir af því tagi sem hv. 2. þm. Reykn. gerði áðan. Hins vegar geta önnur störf kallað að, bæði hjá mér og öðrum, og ég veit að hv. þm. átta sig á því og skilja slíkt. Ég kann ekki við aðdróttanir af þessum toga.

Varðandi fsp. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, 4. þm. Vestf., er málið þannig í pottinn búið að fyrir Alþingi hefur verið lögð fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og þar er gerð sundurliðuð grein fyrir útlánaáformum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna á þessu ári, bæði að því er varðar einstaka lánaflokka Byggingarsjóðs ríkisins og að því er varðar endursölu- og leiguíbúðir sveitarfélaga á vegum Byggingarsjóðs verkamanna. Nú hafa þessar áætlanir verið til athugunar og endurskoðunar og eru ekki frágengnar hjá húsnæðismálastjórn. Um þær hefur verið fjallað þar á fundum að undanförnu, og um þær verður fjallað á fundi sem stofnunin heldur á morgun. Ég get því ekki svarað því í einstökum atriðum hvernig þær áætlanir koma til með að líta út.

En ég vil segja það, að sú yfirdráttarskuld, sem stofnað var til á síðasta ári hjá Seðlabankanum, varð fyrst og fremst til vegna þess að skyldusparnaður ungmenna fór mjög illa sem tekjustofn á s.l. ári. Hann fór mjög illa og kom miklu lakar út fyrir Byggingarsjóð ríkisins en menn höfðu gert ráð fyrir, m.a. í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. sem lögð var fyrir þingið. Af þeirri ástæðu var óhjákvæmilegt að fá samþykktan yfirdrátt hjá Seðlabankanum á s.l. ári. Hann var ekki unnt að gera upp um áramót, eins og þó hafði verið stefnt að, því að slíkt uppgjör hefði þýtt niðurskurð á öllum útlánum byggingarsjóðanna á s.l. ári, sem var ekki hægt að efna til þar sem loforð um útlán úr byggingarsjóðunum eru gefin í upphafi árs eða framan af ári og ekki unnt, þegar komið er fram undir áramót eða lok árs, að skera niður útlánaáform. Þessi yfirdráttur stóð því yfir áramótin og um hann hefur verið samið við Seðlabankann.

Nú er það þannig að Byggingarsjóður ríkisins, eins og Byggingarsjóður verkamanna, er í raun og veru með tekjur úr þremur áttum. Það eru í fyrsta lagi ákveðnar tekjur sem greiddar eru beint úr ríkissjóði, það eru í öðru lagi tekjur sem koma í gegnum skuldabréfasölu frá lífeyrissjóðunum, og það eru í þriðja lagi tekjur í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð og síðan hugsanlega verðtryggðan skyldusparnað, eins og þann sem verið er að tala um hér. Hér er gert ráð fyrir að heildarumsvif Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári verði á bilinu 390–400 millj. kr. eða við skulum segja 380–400 millj. kr. Það eru þær tölur sem byggingarsjóðsstjórnin er að fjalla um núna, en niðurstaða í einstökum atriðum þar liggur ekki fyrir.

Það hefur verið gert ráð fyrir að auka útgjöld til nýbyggingarlána og jafnvel líka til lána út á gamalt húsnæði handa þeim sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn, og þar hafa menn talað um 20–25%. Talsverður hluti af þessu skyldusparnaðarfé hlýtur að fara í þetta. Einhver hluti fer í annað. En auðvitað eru ekki peningarnir nákvæmlega merktir þannig að það sé hægt að segja að skyldusparnaðarféð fari alls ekki undir neinum kringumstæðum í Seðlabankann. Auðvitað er hérna um að ræða heildarsjóð sem húsnæðismálastjórn ráðstafar með ýmsum hætti og aflar til fjár með ýmsum hætti.

Ég vona að þetta svar sé ekki orðið allt of langt, en ég vildi skýra þetta eins og kostur er. Það er auðvitað ekki hægt að segja: Ekkert af skyldusparnaðarfénu fer til Seðlabankans, núll krónur. Þannig er það ekki. Einhver hluti fer þangað, en hvaða peningar það eru nákvæmlega get ég ekki svarað. Það ræðast af útlána- og tekjuöflunaráætlun Byggingarsjóðs ríkisins og húsnæðismálastjórnar.

Hv. þm. Lárus Jónsson gat um það áðan að 130 millj. vantaði upp á hjá Byggingarsjóði ríkisins á þessu ári. Hann fékk þetta út með því að leggja saman annars vegar fjárvöntunartölur, sem hann hefur væntanlega séð í gögnum hjá fjvn., upp á 90 millj. kr. og hins vegar skuldatöluna gagnvart Seðlabankanum upp á 40 millj. kr. Ég vil að þessu gefna tilefni taka það fram, að hér er ekki um að ræða tölur, sem unnt er að leggja saman, vegna þess að í 90 millj. kr. tölunni er yfirdráttarlánið gagnvart Seðlabankanum.

Ég vænti þess að ég hafi svarað fsp. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar.