19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3931 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

168. mál, dýralæknar

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið í umr. um þetta frv. til l. um dýralækna varð um eitt skeið í vetur allharkalegur árekstur á milli landbrn. annars vegar, en á vegum þess er þetta frv. tekið saman, og heilbrmrn. hins vegar. Til þessa hefur verið vísað í framsöguræðum bæði meiri hl. og minni hl. hv. landbn. Nú þarf sumt í þessu frv. að fá afgreiðslu sem fyrst, þar með talin 4. gr. um hvernig dýralæknaumdæmum í landinu skuli vera skipt, en eftir stendur að mörgum spurningum sem frv. tekur til, er ósvarað og þá helst þeirri spurningu, undir hvaða geira í ríkiskerfinu þessi mál skuli heyra. Það er ljóst af því, sem nú hefur komið fram, og það er enn fremur ljóst af þeirri greinargerð, sem fjórir starfsmenn í heilbr.- og trmrn. tóku saman sem aths. við þetta frv. og hefur verið minnst á í umr. um frv. Það, sem helst gengur fram af því plaggi, er að stjórnskipulega er óljóst með hverjum hætti skuli með þessi mál fara, hvort ákveðnir þættir heilbrigðismála, sem dýralæknismál auðvitað eru, skuli vera undir stjórn landbrn. eða heilbrmrn. Ég hygg að menn geti verið sammála um að í þessum efnum verði að fara fram rækilegri úttekt en gerð hefur verið við samantekt þessa frv.

Því má svo bæta við, að eins og kannske gleggst kom fram hjá hv. 8. landsk. þm., Guðrúnu Helgadóttur, er margt í þessu frv. sem töluvert furðulegt getur talist. Ég vil bæta við það, sem hv. þm. gerði grein fyrir og las upp, sem ég held að flest hafi verið réttmætar ábendingar, því sem segir í 18. gr. þessa frv. um dýralækna, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar dýralæknir hefur starf sem héraðsdýralæknir, er heimilt að veita honum hagkvæmt lán til kaupa á bifreið við starf sitt, enda skuldbindi hann sig til að starfa sem héraðsdýralæknir næstu þrjú ár.“

Þarna segir enn fremur með leyfi hæstv. forseta: „Í þessu skyni skal gera ráð fyrir sérstakri upphæð á fjárlögum til bifreiðakaupa fyrir nýja héraðsdýralækna. Landbrh. setur reglur um fjárreiður sjóðs þessa.“

Ég held að kjarni málsins sé sá, að hér sé alls ekki um að ræða atriði sem eigi heima í lögum, heldur væri þetta kjarasamningaatriði í annan stað: Hvað þýða í lögum orðin „hagkvæm lán“? A.m.k. í gömlum skilningi þeirra orða var átt við lán sem mjög voru niðurgreidd. Hér held ég að sé farið út á mjög varhugaverðar brautir, svo að ekki sé meira sagt, að ráðh. hafi í sínum fórum sjóð sem hann má væntanlega nota til að greiða stórlega niður lánsfé í ákveðnum skilningi fyrir ákveðna stétt manna. Hvert halda menn að næsta skref í þessum efnum væri? 18. gr. er dæmi um það, sem aðrir hafa nefnt í sambandi við þetta frv., að hér er sullað saman í raun og veru úr mörgum áttum allsendis óskyldum þáttum. í þessari grein fullyrði ég að komið sé inn á kjarasamningaatriði sem alls ekki eigi heima í lögum undir nokkrum kringumstæðum. Réttast væri, held ég, að tveir fyrstu málsliðir 18. gr. yrðu felldir út.

En aðalatriðið er þó það, að ég held að það séu mjög réttmætar ábendingar sem fram koma frá starfshópi sem starfar á vegum heilbr.- og trmrn. um að heildarstjórn þessara mála, sem er víða, þetta snertir lyfjalöggjöf, þetta snertir rannsóknastofnunina á Keldum og svo dýralækna, sé í raun og veru eins og nú háttar eða angar þessarar starfsemi undir þremur ráðuneytum. Þetta mál er óuppgert. Það þarf lengri og ítarlegri vinnu. Þess vegna er flutt brtt. á þskj. 635, sem við flytjum undirritaðar og hv. þm. Albert Guðmundsson, 3. þm. Reykv. Hún gengur út á það, að þó svo að þessi lög taki gildi falli þau út gildi 1. jan. 1984. Þetta er aðeins til undirstrikunar á því, sem fram hefur komið hjá mörgum hv. ræðumönnum, þar með töldum hv. 6. þm. Norðurl. e., Árna Gunnarssyni, sem lagði á það þunga áherslu í framsöguræðu sinni, að þessi lög og allan grundvöll þessara laga þyrfti að endurskoða sem fyrst. Það held ég að sé nákvæmlega rétt. Með því að setja slík ákvæði inn; sem stundum eru þýdd úr amerísku og kölluð „sólarlagsákvæði“, er knúið á um að slík endurskoðun fari fram, þessi lög eins og þau standa detti dauð að ákveðnum tíma liðnum og löggjafinn verði þess vegna að setja ný lög og gerður sé upp sá grundvallarágreiningur, sem augljóslega og mjög skiljanlega og að réttu á sér stað í stjórnkerfinu, undir hvern þessi mál skuli heyra. Eru þetta landbúnaðarmál, eru þetta heilbrigðismál, sem ég hallast heldur að, eða eru þetta jafnvel menntamál, en eins og menn vita heyrir hluti þessara mála undir menntmrn.? Af þessum ástæðum er sem sagt á þskj 635 flutt um það brtt. að lög þessi, þegar þau hafa öðlast gildi, falla úr gildi 1. jan. 1984. Með því er aðeins sagt að endurskoðun þessara laga verði að halda áfram, en af máli margra hv. þm. er alveg ljóst að það er skoðun manna hér, að grundvallarspurningum um þessi efni sé ósvarað.