19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3943 í B-deild Alþingistíðinda. (3438)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. teljum við fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni að Alþingi standi hér frammi fyrir gerðum hlut. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 14. jan., eftir að fiskverð lá fyrir. Við stjórnarandstöðu var ekkert samráð haft um ráðstöfun þess gengishagnaðar sem myndast við gengisbreytinguna. Við erum andvígir þeim hringlandahætti sem verið hefur á inn- og útgreiðslum í flestum deildum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, og okkur er ljóst að eftir það, sem á undan er gengið, s.l. tvö ár, veitir Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins ekki af þessum gengishagnaði öllum. Hins vegar er ekki því að neita, að þegar líkt hefur verið ástatt á undanförnum árum hefur verið gripið til þess ráðs að láta hluta af gengishagnaði renna til eigenda fiskiskipa til þess að þeir fái nokkra hlutdeild í gengishagnaðinum á móti þeirri skuldahækkun sem þeir verða óhjákvæmilega fyrir af völdum gengislækkana, eða m.ö.o. hluta af þeim skuldahækkunum sem verða við gengisbreytingar.

Þá hefur sjómannasamtökunum jafnan verið sýndur nokkur skilningur með framlagi til félagarlegrar starfsemi, til lífeyrissjóða, orlofshúsa og þess háttar, en hjá þeirri hæstv. ríkisstj., sem nú situr, örlar ekki á því, að þessu sé sinnt á nokkurn hátt.

Okkur er ljóst að það er ekki hægt að vera andvígir þessu frv. vegna þess sem á undan er gengið. Það eru gerðar án samráðs við Alþingi ráðstafanir fram í tímann. En við teljum það ekki vera okkar hlutverk að greiða atkv. með þeim ráðstöfunum sem gerðar eru án samráðs við Alþingi. Því munum við ekki greiða atkv. með þessu frv. og ekki heldur á móti því, vegna þess að það mundi hafa í för með sér nýjar vinnudeilur og jafnvel stöðvun fiskiskipaflotans og þar með fiskvinnslunnar í landinu.