19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3945 í B-deild Alþingistíðinda. (3441)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Meginatriðið í þessu frv. er fjórþætt. Í fyrsta lagi að fella niður þau afskipti ríkisstj. af verðlagsmálum, sem sett hafa svip sinn á verðákvarðanir undanfarnar vikur og mánuði þegar meginviðfangsefni ríkisstj. hefur verið að greiða atkv. á ríkisstjórnarfundum, ef svo má segja, um verð á svo til hverri einustu neysluvöru í landinu. Við Alþfl.menn styðjum þetta atriði, að ríkisstj. verði ekki verðlagsyfirvald eins og hún hefur verið.

Í annan stað er í frv. lögð áhersla á að hvetja til frjálsrar verðmyndunar þó svo það sé ekki með sama hætti gert og í lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, nr. 13 frá 1979. Við þm. Alþfl. teljum það einnig vera spor í rétta átt og getum stutt þá breytingu.

Þriðja og fjórða atriðið í frv. orka tvímælis, í fyrsta lagi og þá sérstaklega það atriði frv. að fella niður viðfangsefni samkeppnisnefndar og raunar nefndina sjálfa, en samkeppnisnefnd hafði því hlutverki að gegna að úrskurða á hvaða sviðum væri nægileg samkeppni til þess að frjáls verðmyndun gæti þrifist þar. Í samkeppnisnefnd áttu sæti þrír fulltrúar, tveir tilkvaddir af Hæstarétti auk verðlagsstjóra. Þetta var sem sé hlutlaus nefnd, skipuð að meiri hluta til af Hæstarétti, sem átti að fella úrskurð um þetta vandasama og viðkvæma mál. Nú á að leiða úrskurðarvaldið inn á borð hagsmunasamtaka og aðila að verðlagsráði, þar sem m.a. aðilar vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambandið annars vegar og Alþýðusambandið hins vegar, fá mjög mikil völd, m.a. til þess að fjalla um slík mál. Við þm. Alþfl. teljum það vera spor í ranga átt að fara að gera svo viðkvæm og vandasöm mál að samningsatriði milli aðila vinnumarkaðarins.

Í samræmi við það, herra forseti, hef ég leyft mér að flytja á sérstöku þskj. ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni brtt. um að breyta þessu ákvæði frv. Brtt. eru þrjár. Í fyrsta lagi sú, að 1. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að samkeppnisnefnd falli niður og önnur nefnd með aðilum vinnumarkaðarins m.a. taki við hennar viðfangsefni að nokkru leyti, falli niður. Í öðru lagi gerum við ráð fyrir því í 2. brtt. okkar, að vissulega geti verðlagsráð falið sérstakri þriggja manna nefnd að undirbúa mál fyrir fundi sína, en það sé þá háð ákvörðun verðlagsráðs alfarið og þá um leið hvaða viðfangsefni og valdsvið slík nefnd hefur. Þriðja brtt. okkar er einnig aðeins breyting á frv. til samræmis við það að samkeppnisnefnd og viðfangsefni hennar verði varðveitt.

Kjarninn í þessari brtt. er m.ö.o. sá, að áfram verði það óhlutdrægur aðili, sem að mestu leyti er skipaður fulltrúum Hæstaréttar, sem úrskurði það vandasama mál hvort samkeppni sé nægjanleg í tilteknum atvinnu- eða þjónustugreinum til þess að frjáls verðmyndun geti þrifist þar. Það er meginkjarninn í okkar brtt. sem við flytjum skriflega. Ég vil vinsamlega fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þeirri till. svo að hún geti komið til umr. og afgreiðslu.