19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3947 í B-deild Alþingistíðinda. (3447)

168. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson óskaði eftir því, að landbn. athugaði í sambandi við 4. gr., 23. lið, hvort hún sæi sér ekki fært að taka inn svipað ákvæði og nefndin tók upp í sambandi við Bæjarhrepp í Strandasýslu. Það hefur ekki verið haldinn formlegur fundur í nefndinni, en ég hef rætt við flesta nm. og leyfi mér að flytja brtt. um það og enn fremur í sambandi við gildistöku laganna. Brtt., sem ég flyt, er í fyrsta lagi:

„Við 4. gr. Við 23. lið bætist:

Íbúar hreppanna sunnan Oddsskarðs geta þó vitjað héraðsdýralæknis í Austurlandsumdæmi nyrðra ef þeir óska þess.“

Og í öðru lagi:

Við 20. gr. Framan við greinina bætist svohljóðandi ný mgr.:

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í sambandi við skiptingu á dýralæknisumdæmunum kom ósk um það til nefndarinnar einnig, að íbúar í Kópavogi og Garðakaupstað gætu jafnhliða sótt til dýralæknis í Reykjavík. Ég vil taka það fram, að mér finnst alveg sjálfsagt mál að íbúar í þessum kaupstöðum geti sótt dýralækni hvort sem þeir vilji til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur enda þótt skiptingin sé eins og um getur í 4. gr.