19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3952 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

216. mál, ábúðarlög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar umr., sem hér hefur farið fram, tel ég nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram, að þau frv., sem hér eru nú á dagskrá, þ.e. frv. til l. um breytingu á jarðalögum og frv. til l. um breytingu á ábúðarlögum, eru flutt í framhaldi af samkomulagi sem ríkisstj. gerði við verkalýðshreyfinguna. Ég vil að þetta komi skýrt fram hér.

Við undirritun kjarasamninga 27. oki. 1980 var lagt fram bréf frá stjórnvöldum þar sem segir m.a.:

„Hr. forseti Alþýðusambands Íslands, Snorri Jónsson.

Ríkisstjórn Íslands mun beita sér fyrir afgreiðslu mála í samræmi við þær yfirlýsingar sem hér birtast og eru í framhaldi af viðræðum við Alþýðusamband Íslands að undanförnu.“

Þetta er undirritað af hæstv. forsrh., félmrh. og sjútvrh.

Síðan í þessu samkomulagi kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Ábúðarlög, jarðalög. Vegna endurskoðunar ábúðar- og jarðalaga með tilliti til hagsmuna orlofsbyggða verkalýðsfélaganna verður skipuð þriggja manna nefnd fulltrúa ASÍ, bændasamtakanna og landbrn.“

Þessa nefnd skipaði síðan hæstv. landbrh. með bréfi dags. 14. jan. 1981 og hún vann að þeim breytingum og þeirri frumvarpsgerð sem hér um ræðir.

Ég vil, með leyfi forseta, svo að ekkert fari nú á milli mála, fá að lesa bréf sem þessi nefnd ritar hæstv. landbrh. 2. febr. s.l. Þar segir:

„Með bréfi, dags. 14. jan. 1981, voru undirritaðir skipaðir í nefnd til að endurskoða ábúðar- og jarðalög með tilliti til hagsmuna orlofsbyggða verkalýðsfélaga. Nefndin hefur haldið átta fundi um viðfangsefnið og aflað gagna, m.a. um jarðir í eigu launþegasamtaka, staðsetningu orlofshúsa verkalýðsfélaga innan ASÍ og fleiri félagssamtaka. Þá hefur nefndin nokkuð kynnst afstöðu sveitarstjórna til orlofsbyggða félagasamtaka. Samkomulag er í nefndinni um að gera tillögur um svofelldar breytingar á ábúðar- og jarðalögum.“ Síðan eru taldar upp þessar breytingar, sem koma fram í þeim frumvörpum sem hér er verið að fjalla um.

Það kom fram hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að raunverulega var nefndinni ekki kunnugt um þetta samkomulag — og getur sjálfri sér um kennt auðvitað vegna þess að þetta mun hafa komið fram í ræðu hæstv. landbrh. þegar hann mælti fyrir þessum tveimur frumvörpum, en er því miður ekki getið í grg. frumvarpanna. Ég segi það þess vegna sem mína skoðun, að þegar ég frétti af þessu samkomulagi ríkisstj. við verkalýðshreyfinguna þótti mér algerlega ófært að ganga á svig við þær óskir sem höfðu komið fram frá verkalýðshreyfingunni um afgreiðslu á þessu máli. Af þeim sökum styð ég það meirihlutaálit, sem nú hefur komið fram frá landbn., og það., að frv. þessi tvö, sem hér eru til umr., um breytingu á jarðalögum og ábúðarlögum, nái fram að ganga óbreytt. Ég tel að annað sé ekki sómasamlegt vegna þessa samkomulags. Það getur hver séð sjálfan sig í því máli, að ríkisstj. gerir samkomulag við verkalýðshreyfingu, ef það samkomulag yrði síðan brotið á bak aftur hér í sölum Alþingis. Ég held að það væri hvorki heiðarlegt né réttmætt á nokkurn hátt að standa þannig að málum.