19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3953 í B-deild Alþingistíðinda. (3460)

216. mál, ábúðarlög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, enda er klukkan að verða 7.

Ég vil fyrst lýsa yfir stuðningi við málflutning síðasta hv. ræðumanns. Það er ekki með nokkrum hætti hægt að sjá að gengið sé á svig við þann samning, sem hér er verið að vitna til á milli ríkisstj. og launþegahreyfingarinnar, þótt þetta ákvæði nái til fleiri aðila en stéttarfélaganna. Það er alveg ljóst eftir sem áður, að það eru jarðanefndirnar sem hafa heimild — ég undirstrika: þær geta, þeim er ekki skylt, undanþegið o.s.frv., eins og stendur í 1. gr. frv.

Hér er verið að gegna samningi, sem gerður er án þess að Alþingi komi nærri, með þeim hætti að koma í veg fyrir að jarðanefndir geti látið jafnræði ná til allra landsmanna. Ég trúi því ekki fyrr en hæstv. landbrh. staðfestir það hér, að hann telji að með því að tefla niður orðið stéttarfélag sé verið að ganga á svig við samninga við stéttarfélögin í landinu, þó að þetta ákvæði sé gert aðeins rýmra en gert er ráð fyrir í þessu frv. Það geta verið fullkomin rök fyrir því, að aðilar utan stéttarfélaga, ekki eingöngu vinnuveitendur heldur aðilar utan stéttarfélaga, vilji kom upp orlofsbúðum, orlofsheimilum eða nota jarðir til útilífs, e.t.v. húsmæður eða félög áhugamanna, jafnvel um náttúruskoðun o.s.frv. Ég trúi því ekki, að hæstv. landbrh. og hv. formanni landbn. Nd. gangi það til að koma í veg fyrir að slíkir aðilar geti átt þess kost, ef jarðanefnd samþykkir að þeir séu undanþegnir byggingarskyldu á jörð. Sá fyrirvari er í frv., að það þarf samþykki jarðanefndar. Þetta er aðeins heimildarákvæði og ég kann ákaflega illa við það, að menn komi hér í pontu á hinu háa Alþingi og beiti sé.r fyrir þessari mismunun þegnanna. Og að hlusta á hv. þm. Skúla Alexandersson, atvinnurekanda, koma hér í ræðustól og gera það með þeim hætti, sem hann gerði í sinni ræðu finnst mér vera Alþingi til stórskammar. Ég legg að að hæstv, ráðh. komi hér í ræðustól og staðfesti hvort það geti verið að honum hafi gengið þetta til eða hvort það er, sem ég held að sé öllu fremur, að hér sé um misskilning að ræða, hér sé um fljótfærni að ræða sem hafi verið gripið til vegna þess að menn hafi ekki hugsað málið ofan í kjölinn.

Ég hef þess vegna, herra forseti, leyft mér að skrifa hér á blað brtt. þess efnis að orðið „stéttarfélag“ falli á brott úr 1. gr. laganna, og óska eftir að leitað verði afbrigða um þessa till. og atkv. látin ganga um það, hvort við erum hér saman komnir til þess að mismuna íbúum þessa lands. Og ég ítreka það enn og aftur, að samkv. orðanna hljóðan er það alveg greinilegt, að jarðanefndir sýslnanna hafa um þetta síðasta orðið. Til hvers á að gera mun á þeim, sem eru að byggja á vegum stéttarfélaga, og hinum, sem byggja á vegum annars konar félagasamtaka? Engin haldbær skýring hefur komið fram. Hér ræður ríkjum greinilega gífurleg íhaldssemi einstakra þm. sem koma hér upp og þykjast vera að tala fyrir hönd stéttarfélaganna í landinu. Á ég þá við hv. þm. Skúla Alexandersson sem virðist hafa slæma samvisku í þessu máli.

Ég vil þess vegna, herra forseti, fara þess á leit, að leitað verði afbrigða í þessu máli og Alþingi fái sjálft að taka ákvörðun um, hvernig það vilt breyta lögum, án þess að þurfa að taka tillit til samninga einhverra manna úti í bæ.