05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

39. mál, sjálfvirkur sími

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég vil sérstaklega þakka hve hratt hefur verið unnið að þessari áætlanagerð og að hún liggur nú fyrir. En ég ítreka það, að áður en ráðh. staðfestir áætlunina væri áreiðanlega til bóta varðandi framkvæmdir innan hvers kjördæmis — trúlega er ekki um meira að ræða í því efni — að fulltrúar eða þm. hvers kjördæmis litu nokkuð á framkvæmdaröðina og gætu þá, ef þeim sýndist svo, í samráði við póst- og símamálastjórn hnikað þar einhverju til ef þeim þætti sérstök ástæða vera til þess.