20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3481)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera örstuttorður. Ástæðan fyrir því, að ég kem hér upp í ræðustól, er sú, að hér er til umr. efni sem varð upphaf þeirra miklu deilna sem hafa orðið um stefnuleysi hæstv. ríkisstj. í flugmálum. Vegna þess að hæstv. flugmálaráðh. var ekki viðstaddur alla umræðuna, sem fór fram hér um daginn um flugmálastefnu, vil ég gjarnan, þar sem það snertir þetta mál mjög náið, spyrja hann aftur spurningar sem hann var spurður um þar, en hafði ekki tækifæri til að svara vegna þess að hann var fjarstaddur. Hún var á þá leið, hvenær búast mætti við að hæstv. ráðh. legði fram stefnu sína í flugmálum í formi þáltill., eins og hann berlega gaf í skyn í umr. sem hér urðu utan dagskrár fyrr í vetur þegar hann sagðist geta þegar honum sýndist og þegar hann teldi henta — og nefndi þá morgundaginn sérstaklega í því, jafnvel á morgun sagði hann — lagt fram slíka stefnu og taldi afar heppilegt að slíkt gerðist. Ég spyr hvort búast megi við að á næstu dögum renni þessi morgundagur upp hjá hæstv. ráðh. og hvort megi búast við að íslenska þjóðin fái að kynnast því, hver sé stefna hæstv. ríkisstj. í flugmálum. Þetta mál er nátengt því að miklu veldur upphafið í þessu máli eins og öðrum. Flugrekstrarleyfi Iscargo til Amsterdam var upphafið að því að horfið var frá þeirri flugmálastefnu sem mörkuð var 1973 af þáv ráðh. Halldóri E: Sigurðssyni m.a., flokksbróður hæstv. samgrh.

Það má vel vera, herra forseti, að þetta sé ekki beinlínis það sem snýr að því máli sem hér er til umr., þessari fsp. En af því að mér þykir eðlilegt, að þessi mál séu tengd henni, og vil gefa hæstv. ráðh. tækifæri til að svara spurningu sem hann ekki gat gert um daginn vegna fjarveru sinnar, þá hef ég leyft mér að blanda þessu máli inn í þessa umr.