20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (3484)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í framhaldi af svörum hæstv. samgrh. áðan held ég að fullyrða megi að af einhverjum ástæðum stóðu hinir ungu og vösku stjórnendur og rekendur fyrirtækisins Arnarflugs í þeirri meiningu, að það flugleyfi, sem hér um ræðir og Iscargo hafði á Amsterdam, yrði ekki þeim veitt nema Iscargo skilaði því inn. Þetta kom glögglega í ljós í frásögn Morgunblaðsins af blaðamannafundi sem þeir efndu til til að útskýra sín mál. Það er engin furða að mennirnir hafi staðið í þessari meiningu.

Í Sþ. fór fram 11. mars s.l. umr. utan dagskrár um þessi efni í niðurlagi svarræðu sinnar segir þá hæstv. samgrh., Steingrímur Hermannsson, með leyfi forseta:

„Ég fékk í morgun bréf frá Iscargo, þar sem það afsalar sér flugleyfi á Amsterdam. Ég fékk líka bréf frá Arnarflugi, þar sem það sækir um það.“ um það hvað? Um flugleyfið væntanlega í þessum efnum.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að hæstv. samgrh. er orðinn þekktur að því að hafa látið plata sig í skuttogarakaupum og kaupum og sölum á fiskiskipum vítt og breitt. Það er skorið af þeim að framan, og komið er í ljós að þeir eiga ekki úreltu skipin. En þarna held ég að verði að segja ráðh. til hróss, ef menn vilja hafa það svo, að í þessu hefur hann platað. Þarna er það ekki að ráðh. hafi verið plataður. Þarna er það hann sem hefur platað rekstraraðila Arnarflugs. Það er glöggt að þeir stóðu í þeirri meiningu, það er glöggt af viðtölum sem við þá eru höfð, að þeir fengju ekki þetta flugleyfi nema Iscargo skilaði sínu leyfi inn. Það er alveg ljóst af fréttafrásögn í Morgunblaðinu að þeir töldu að Iscargo mundi ekki skila leyfinu inn nema það yrði keypt upp. Þetta segir ráðh. hér á þinginu. Hann segir um stjórnendur Iscargo að þeir hafi í morgun afsalað sér flugleyfi frá Amsterdam og hann hafi fengið bréf frá Arnarflugi þar sem Arnarflug sækir um flugleyfið. Þegar því er bætt við, að ráðh. hafði enga skyldu til að veita þetta daginn eftir að viðskiptin höfðu átt sér stað — hann gat veitt þau löngu fyrr, þá sýnist mér nokkuð augljóst hvað hefur gerst í þessum efnum.

Ég ítreka og kalla eftir skýrari svörum frá ráðh.: Af hverju fóru þessi viðskipti fram eftir að kaupin milli Iscargo og Arnarflugs höfðu átt sér stað? Fyrri svör hæstv. ráðh. hér í umr. eru engan veginn fullnægjandi og komi ekki frekari svör frá ráðh. verð ég að segja að hann hefur sjálfur lýst því í blaðaviðtölum, að hann hafi verið plataður, en þarna var hann ekki plataður. Þarna var hann aðilinn sem plataði. Fyrir hönd Arnarflugs og þeirra manna svíður mér að þeir skuli hafa lent í þessum ósköpum.