20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3964 í B-deild Alþingistíðinda. (3488)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil andmæla því, að engin svör hafi komið. Ég nefndi tvær ástæður og ég virðist þurfa að endurtaka þær. Hann greiddi atkv. gegn því, að krafist yrði rannsókna á þessu máli eða mats. Ég greindi frá því, að hann taldi það geta spillt fyrir þeirri viðleitni, sem var og er, má segja, enn þá í gangi, að ná samstarfi milli þessara flugfélaga, og í öðru lagi, að það væri óþarft því að allar slíkar upplýsingar lægju fyrir fyrir hluthafa í Arnarflugi. Svo er það háttvirts þingmanns að meta hvort þetta eru fullnægjandi ástæður, en þetta eru tvímælalaust svör.

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði áðan, að ég er honum sammála. Vitanlega er ég ábyrgður fyrir því sem fulltrúi minn gerir. Ég hef ekki aths. við þetta að gera. Ég tel að þetta hafi verið á rökum reist, og svörin, sem hann hafi gefið, eru mér a.m.k. fullnægjandi.

Segja má að fleiri hafi ekki svarað hér spurningum. Hv. þm. Árni Gunnarsson hefur ekki svarað spurningu minni. Ég hef aldrei sagt að upplýsingarnar væru öllum frjálsar, en ég hef sagt að þær væru hluthöfum a.m.k. frjálsar og lægju á lausu. Það hefur mér verið tjáð. Ég er hins vegar ekki hluthafi í Arnarflugi og því síður í stjórn félagsins og ég hef ekki fengið aðgang að þessum upplýsingum. Þess vegna var mér forvitni á að fá að vita hvar hann hafi fengið svo ítarlegar upplýsingar sem hann rakti um daginn þegar málið var til umr.