20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3964 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, 11. þm. Reykv., sagði réttilega áðan að hæstv. samgrh. bæri að sjálfsögðu ábyrgð sem ráðh. á þeim fulltrúa sem hann skipar í stjórn Flugleiða. Það hefur verið mikill misbrestur á því í íslensku stjórnkerfi, að ráðherrar og aðrir valdsmenn, sem fara með almannavald, séu reiðubúnir að taka ábyrgð á sínum gerðum eða mistökum. Það fannst t.d. enginn sem vildi gangast við því að hafa verið ábyrgður fyrir fjárhagslegu mistökunum sem voru unnin við Kröflu: Með sama hætti segist nú hæstv. samgrh. ekki vera ábyrgður fyrir þeirri afstöðu sem fulltrúi, sem hann skipar, tekur í stjórn Flugleiða.

Ég tel að það sé mjög alvarlegt af hæstv. ráðh., eftir þær umr. sem fram hafa farið hér um þessi Arnarflugsmál, áður en umrædd till. um mat á eignum Arnarflugs kom til umr. í stjórn Flugleiða, að beita sér ekki fyrir því sjálfur að hafa að eigin frumkvæði samráð við þann fulltrúa, sem hann skipar í stjórn Flugleiða, um hvernig hann eigi að greiða atkv. Ég lít svo á, eftir yfirlýsingu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að þetta hafi fjmrh. gert, sem einnig skipar fulltrúa í stjórn Flugleiða. Ég veit ekki betur en fulltrúinn, sem hæstv. fjmrh. skipaði í stjórn Flugleiða, hafi greitt atkv. með því, að þetta mat yrði látið fara fram. Ég vil túlka það mál þannig, að hann hafi haft samráð við hæstv. fjmrh. um afstöðu sína, eins og honum bar skylda til að gera og eins og hæstv. fjmrh. bar einnig siðferðileg skylda til að hafa frumkvæði um eftir þær umr. og þá gagnrýni sem fram hafði komið á Alþingi um þetta mál. Ég vil því ítreka þá fsp. til hæstv. fjmrh., sem hér hefur komið fram, hvort hann muni ekki verða við beiðni um þá skýrslugjöf um þetta mál sem Alþingi hefur samþykkt að beina til hans.