20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (3491)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Árna Gunnarssonar, 6. þm. Norðurl. e., vil ég fyrst nefna það, að ég tel ekki að Alþingi hafi samþykkt að mat færi fram á eignum Iscargo, eins og hann orðaði nú, kannske í fljótfærni. Hins vegar hefur verið beint þeim tilmælum til fjmrh., að hann láti fara fram mat af þessu tagi. Ég get þá upplýst að eftir að þessi tilmæli voru borin fram ritaði fjmrn. stjórn Flugleiða og óskaði eftir að stjórn Flugleiða, sem er fyrirtæki sem á aðild að Arnarflugi, beitti sér fyrir því sem hluthafi í því fyrirtæki, að þessara upplýsinga yrði aflað. Þetta hefur síðan gengið rétta boðleið og stjórn Flugleiða hefur samþykkt að fara fram á þessar upplýsingar og að þeim verði sem hluthafa veittar þær. En ég hef ekki fengið svör til baka og get því ekki veitt neinar frekari upplýsingar í málinu.