20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (3493)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það fer ekki hjá því að þessar umr. leiði í ljós enn betur en áður hve óhöndulega og klaufalega, svo sterkari orð séu ekki höfð, hæstv. samgrh. hefur farið að í sambandi við þau flugmál sem hér eru til umr., og er það því miður í ætt við meðferð hans á Steindórsmálinu svokallaða og skipakaupamálum.

Ég kveð mér hljóðs af því að hæstv. samgrh. hefur æ ofan í æ í umr. um þetta mál látið að því liggja, að Alþingi hafi ákveðið, að hér skuli starfa tvö flugfélög, og þess vegna væri honum skylt að veita þeim báðum áætlunarleyfi. Alþingi ákvað, þegar til umr. og ákvörðunar var hvort styrkja ætti Flugleiðir til að halda uppi ferðum á Norður-Atlantshafsleiðinni, að setja Flugleiðum þá skilmála að þær seldu meirihlutaeign sína í Arnarflugi, þrátt fyrir fyrri afskipti stjórnvalda af því máli sem knúðu Flugleiðir til að kaupa meiri hluta í Arnarflugi þegar það var illa sett. En meiri hl. þm. féllst á þetta, hygg ég, vegna þess að stjórnvöld, hæstv. samgrh., raunverulega sögðu það skilyrði fyrir því að samþykkja styrk til Flugleiða til að halda áfram á Norður-Atlantshafsleiðinni, að þessum skilmálum yrði fullnægt, að Flugleiðir seldu meiri hl. í Arnarflugi.

Nú skal ég láta liggja á milli hluta hvort stefna hæstv. flugmálaráðh. er rétt, að tvö flugfélög skuli hér starfa, annað stórt og hitt litið, en hvort tveggja með leyfi á áætlunarleiðum. Það er ekki tími til að fara nánar út í það mál, þó að vakin sé athygli á að það er öndvert að styrkja eitt flugfélag með peningum skattborgaranna úr ríkissjóði og hins vegar að gera því illmögulegt að stunda sinn rekstur þannig að ekki sé þörf slíks styrks til langframa. En hvað sem segja má um þetta er það algjörlega út í hött, þegar Alþingi hefur gengið frá styrk til Flugleiða til að halda uppi flugleiðinni um Norður-Atlantshaf og jafnvel þótt hæstv. samgrh. telji að í þeirri ákvörðun hafi falist að Arnarflug ætti að fá flugleyfi á áætlunarleiðum, að fara þá að veita þriðja flugfélaginu, Iscargo, áætlunarleyfi til Amsterdam, en ganga á því stigi fram hjá Arnarflugi.

Nú hefur verið upplýst að Arnarflug hafði rekstrarmöguleika og ágæta rekstrarafkomu áður en það fékk áætlunarleyfi, og er það vel, enda eru þar duglegir og framtakssamir menn við stýri. En hitt var algjörlega út í hött: að veita Iscargo, sem öll ástæða var til að ætla að stæði á barmi gjaldþrots, leyfi til að fljúga til Amsterdam þegar svo var ástatt um fjárhagslega afkomu félagsins sem raun bar vitni og þegar svo var ástatt að það félag þurfti að fá erlendar flugvélar til að reka þetta áætlunarflug. Það fer ekki hjá því, að menn fari að ætla að þetta hafi allt verið liður í þeirri ráðagerð hæstv. samgrh. að bjarga Iscargo frá gjaldþroti og plata Arnarflug, eins og hér hefur verið bent á.