20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá tækifæri til að fjalla aðeins um þingsköp að gefnu tilefni.

Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt líður senn að því, að þinglausnir fari fram, og heyrst hefur úr stjórnarherbúðunum að þess sé vænst, að hægt sé að ljúka störfum Alþingis fyrir mánaðamót jafnvel eða í síðasta lagi fyrstu dagana í maí. Samt sem áður hefur hvert stórmálið af öðru komið hér inn á Alþingi, og þess er vænst af hálfu stjórnarliðsins, að þessi mál séu öll afgreidd á tiltölulega skömmum tíma. Því hefur vakið furðu mína eitt mál sem ekki hefur fengist svar við og tilheyrir fsp., en eins og hv. alþm. þekkja segir í 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, með leyfi forseta:

„Ef óskað er skriflegs svars, “ — það er átt við svar við fsp. frá alþm„ — „sendir ráðh. forseta það eigi síðar en sex virkum dögum eftir að fsp. var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið. Skal prenta fsp. og svar í Alþingistíðindum.“

Meginreglan er sem sagt sú, að tiltölulega skammur tími á að líða frá því að fsp. kemur fram og þar til henni er svarað í þeim búningi sem lögin leggja til.

Ég leyfði mér að leggja fram mjög litla og saklausa fsp. til hæstv. iðnrh. og óskaði skriflegs svars hinn 10. des. s.l. eða fyrir meira en fimm mánuðum, og enn hefur svar ekki borist. Ég hafði fyrir mánuði samband við forseta Sþ. og bað um að fá að ræða málið í næsta fsp.-tíma, en það var ekki hægt vegna fjarveru hæstv. ráðh. Fyrir páska hafði ég samband við hæstv. ráðh. og sagði honum að ég mundi óska eftir af fá að ræða um þingsköp Alþingis ef svar kæmi ekki innan tíðar. Síðan er hálfu mánuður og svar hefur ekki borist, að því er mér er kunnugt. Hér er um að ræða; herra forseti, 147. mál þingsins, og það getur verið athyglisvert að lesa þær fsp. því að það má vel vera að einmitt efni málsins geri það að verkum að svar hefur ekki borist enn. Fsp. er í sex liðum, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hvaða nefndir og starfshópa hefur iðnrn. stofnað til í tíð núv. ríkisstj. til að vinna að sérstökum málefnum?

2. Hvaða sérfræðinga hefur rn. fengið til slíkra verkefna?

3. Hver eru verkefni þessara nefnda, starfshópa og sérfræðinga?

4. Hvaða menn eru í þessum nefndum og starfshópum?

5. Hver var kostnaðurinn við þessa starfsemi árið 1980 og hvað er áætlað að hann verði í ár?“ — Þetta var auðvitað á s.l. ári.

6. Hvernig hefur iðnrn. varið eftirfarandi tekjum fjárlagaársins 1981:

a) Aðlögunargjald ... 10.5 millj.

b) Efling iðnþróunar og tækninýjungar „. 400 þús.

c) Orkusparnaður ... 450 þús.

d) Ullar- og skinnaverkefni ... 180 þús.“

Þetta eru sakleysislegar spurningar. Hér er ekki verið að spyrja um hve mikið hafi fjölgað stöðugildum t.d. í ýmsum stofnunum sem heyra undir iðnrn. Hér er einungis verið að spyrja um hvaða menn hæstv. ráðh. hafi beðið að leysa ýmis svokölluð verkefni á sínum vegum.

Mér er sagt að það þurfi ekki mjög mikinn tíma til að leysa slíkt vernefni, sumir segja 10 mínútur, því að þessar upplýsingar séu til. Aðrir segja að þetta sé hálfs dags verk, en öllum ber saman um að þetta sé ekki hálfs árs verk. Ég er alveg yfir mig hissa á að í rn. hæstv. ráðh., þar sem afköstin eru mörg hundruð gígablaðsíður á ári, skuli ekki fást einhver maður til þess að setjast niður og telja þá sérfræðinga sem hæstv. ráðh. hefur beðið um að sinna ákveðnum verkefnum á sínum vegum að undanförnu. (Gripið fram í.) Þetta er skrifleg fsp. sem lögð var fram 10. des. á s.l. ári, árið 198 f, og umr. eru hér um þingsköp Alþingis.

Á sínum tíma, þegar hæstv. iðnrh. kom á Alþingi og gerðist ráðh. strax, höfðu margir orð á að nú hefði vaskur maður komið í iðnrn. sem léti hendur standa fram úr ermum. Um áramót, fjórum mánuðum eftir að hæstv. iðnrh. hafði tekið við störfum, kom fréttatilkynning fram í dagblaðinu Þjóðviljanum, sem er málgagn hæstv. ráðh., og var sagt á þessa leið í þessari fréttatilkynningu, með leyfi forseta:

„12 nefndir, sem um lengri eða skemmri tíma hafa starfað á vegum iðnrn., hafa verið lagðar niður á tímabilinu frá 1. sept. til áramóta. Hafa sumar þessara nefnda skilað niðurstöðum með álitsgerð til rn., en um árangur af starfi annarra er ekki getið í fréttatilkynningu rn., sem send var út í gær.“ Síðan eru þessar nefndir taldar upp.

Dagblaðið Þjóðviljinn, málgagn hæstv. ráðh.; helgaði að sjálfsögðu einn leiðara blaðsins þessum afkastamikla ráðh. og sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hjörleifur Guttormsson iðnrh. hefur tekið hressilega til í ráðuneyti sinu. Það heyrir til tíðinda þegar ráðh. tilkynnir á einu bretti að hann hafi lagt niður 12 nefndir á vegum rn. og leyst frá störfum 72 nefndarmenn og ritara. Er þessi tiltekt skýr vottur um stefnubreytingu í iðnrn.“

Eins og allir vita tók hæstv. iðnrh. við af hæstv. forsrh., sem þá hafði verið iðnrh. um fjögurra ára skeið. Auðvitað gat hæstv. forsrh. ekki sætt sig við þessi ósköp og svaraði hæstv. iðnrh. með snjallri grein, en eins og allir vita er hæstv. forsrh. einn orðhagasti maður þingsins, og hann sagði í grein, sem hann reit í Morgunblaðið hinn 10. jan. 1979 og kallaði „Áramótaskaup iðnaðarráðherratekið til í ráðuneyti “— á þessa leið, ég vitna orðrétt í grein hæstv. forsrh.:

„Margt er sér til gamans gert um áramót. Hjörleifur iðnrh. Guttormsson gerði sér afrekaskrá og kom á framfæri við fjölmiðla. Fréttamenn fögnuðu skrá þessari, enda eru íþróttafréttir vinsælar og hafa forgang í fjölmiðlum. Það hlaut að teljast til meiri háttar tíðinda í íþróttaheiminum, að einn maður hefði í einni lotu lagt að velli 12 nefndir með 6 tylftir manna innanborðs. Hefur margur orðið frægur af minna tilefni.“

Í lok þessarar ágætu greinar segir hæstv. forsrh. um þetta íþróttaafrek hæstv. iðnrh. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í auglýsingastarfsemi sinni hefur iðnrh. láðst að geta um eitt, þ.e. hverjar nefndir hann hefur sjálfur skipað. Um leið og gumað er af því ranglega að nefndir hafa verið lagðar niður hefur hann skipað nefnd um raforkumál, iðnþróunarnefnd, nefnd út af tollalækkunum vegna EFTA, nefnd til að athuga skipasmíðar og trúlega einhverjar fleiri. Það hafa menn fyrir satt, að í þessum nýju nefndum Hjörleifs sitji fleiri menn en voru í þeim eldri nefndum, sem hann hefur í reynd lagt að velli.“

Hér lýkur tilvitnun í grein hæstv. forsrh., þar sem hann hafði reyndar áður sýnt fram á að flestar þeirra nefnda, sem hæstv. iðnrh. hafði lagt niður, hefðu þegar lokið sinum störfum og voru í raun hættar að starfa.

Þannig tók hæstv. forsrh. hæstv. núv. iðnrh. á kné sér með þessum hætti. Nú held ég að svo kunni að vera, að hæstv. iðnrh. hafi kannske skipað eina eða tvær nefndir eða starfshópa til viðbótar frá því um áramótin 1978 eða 1979. Um það hef ég ekki skýrar heimildir, enda hef ég beðið eftir þeim í fimm mánuði rúma, og hélt ég að það væri lítill vandi fyrir hæstv. ráðh. að svara svo lítilfjörlegri spurningu, ekki síst vegna þess að hann þurfti ekki að telja til þá sérfræðinga, þá starfshópa, verkefni og aðra slíka nefndarmenn sem hann hafði haft í starfi hjá sér áður en núv. hæstv. ríkisstj. tók við.

Herra forseti. Af því að hæstv. ráðh. gat og hafði tíma til þess að svara fsp. á síðustu vikum finnst mér eðlilegt að ég fái tækifæri á grundvelli þingskapa Alþingis til að spyrja hæstv. ráðh. hvort von sé á að þessari fsp. verði svarað, og auðvitað eru sex dagarnir löngu liðnir, eða hvort þessari fsp. verði svarað í vor eða hvort verði beðið til hausts og þetta verði eins og þegar bændur rétta fé á haustin. Ég rifjaði upp, herra forseti, hverjar spurningarnar voru. Það getur verið að svörin séu óþægileg, ekki síst með tilliti til þess skeytis sem hæstv. iðnrh. sendi hæstv. forsrh. á sínum tíma þegar hann hætti störfum sem iðnrh. Er þá ekki kominn tími til að hæstv. forsrh. sendi sínum ágæta hæstv. iðnrh. nótur út af þessu og rifji upp fyrir honum hvað hann sjálfur sagði um þessar tiltektir í rn. undir heitinu „Áramótaskaup iðnaðarráðherra“, eins og hæstv. forsrh. kallaði sína ágætu grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið fyrir nokkrum árum?

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir að fá tækifæri til að vekja athygli á þessu máli og þakka umburðarlyndið.