20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (3495)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara hér nokkrum orðum því sem til mín er beint frá hv. 10. þm. Reykv. í sambandi við fsp. sem hann lagði hér fram rétt fyrir jól og ekki hefur verið svarað enn þá skriflega. Ástæðan er nú ekki sú, að það sé neitt óþægilegt fyrir mig að leggja fram svör við þessari fsp., og ég vil upplýsa hv. þm. um að þess er að vænta, að svör liggi fyrir mjög fljótlega. Ég hef ýtt á eftir því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar innan míns rn., að það yrði gengið frá þessu máli, og var minntur á það af hv. þm. rétt fyrir páska að svör væru ekki komin fram við fsp.

Hv. fyrirspyrjandi telur að þetta sé lítil og saklaus fsp., og ég skal viðurkenna að hún er fullkomlega saklaus af hendi hv. þm. En hitt er matsatriði, hvort hún er lítil sem slík . Ljóst er að hún kallar á nokkra vinnu og fyrirhöfn innan rn., m.a. vegna þess að beðið er um tölulegar upplýsingar. Ég taldi rétt, vegna þess að fsp. kom fram við lok ársins 1981, að upplýsingar varðandi kostnað, sem beðið var um að væru áætlaðar, væru þá framreiddar á grundvelli rauntalna fyrir árið 1981. Er við það miðað í sambandi við svör sem eru fyrirliggjandi, má ég segja, hjá starfsmönnum míns rn„ en eftir er að ganga frá í prentun og til framlagningar hér eða framsenda til hv. þm., eins og þingsköp gera ráð fyrir.

Mér þykir í rauninni leitt, að það hefur dregist þetta lengi að svara þessari fsp., og tel það alls ekki til fyrirmyndar. Það vill kannske verða svo í sambandi við skriflegar fsp., að meiri dráttur getur orðið að svör berist við þeim vegna þess að þær minna ekki á sig eða á þær er ekki minnt með prentaðri dagskrá þingsins hverju sinni. Ég held að það væri kannske íhugunarefni í sambandi við fsp., þar sem óskað er skriflegra svara, að þær detti ekki út af dagskrá Alþingis, eins og er um hinar fsp., og minni þannig á sig og okkur ráðh., sem eigum að standa skil á svörum þar að lútandi.

Ég ætla ekki að fara að gantast neitt hér við hv. þm. um efni þessa máls eða það sem hann rifjaði upp með skemmtilegum hætti áðan í máli sínu um afrek mín á sviði nefndaskipana og starfshópa. Það eftirlæt ég honum að meta og hafa sér til gamans og þeim sem svo vilja viðhafa. Ég vil hins vegar geta þess í sambandi við þessa fsp., að hluti hennar var einmitt varðandi hvaða nefndir og starfshópa mitt rn. hefði stofnað til í tíð núverandi ríkisstj. til að vinna að málefnum og auk þess varðandi sérfræðinga sem til hafi verið kvaddir. Varðandi 1. liðinn vil ég geta þess, að árlega er gefin út bók eða skrá yfir nefndir og ráð á vegum ríkisins, sem eru starfandi á viðkomandi ári; og þar er greint frá þóknun til þeirra nefnda. Þannig kom út í fyrra, merkt í október 1981, yfirlit um stjórnir, nefndir og ráð ríkisins fyrir árið 1980, og það er þegar farið að safna upplýsingum í hliðstæða bók fyrir árið 1981 sem mun koma út í sumar og væntanlega liggja fyrir í þingbyrjun að hausti. Nú vil ég engan veginn draga í efa að hv. fyrirspyrjandi hefur áhuga á að fá upplýsingar um þetta fyrr en úr þessari bók, og þær verða honum veittar þegar svör verða veitt við þessari fsp. En hv. stjórnarandstæðinga munar í að fá upplýsingar um þetta fyrr en gerist með þessari reglulegu útgáfu á vegum hagsýslunnar um stjórnir, nefndir og ráð. Þannig var það í fyrra, að hv. 7: landsk. þm. beindi til mín fsp. sem var mjög svipaðs eðlis og þetta, og vor.u þá veitt skrifleg svör við því og útbýtt hér á Alþingi fyrir árið 1980, þannig að því var í rauninni svarað á þeim tíma. Það tók hins vegar yfir þrjú ár, ef ég man rétt, yfirlitið sem þar var óskað eftir. En ég vil sem sagt fullvissa hv. þm. um það, að svara er að vænta við þessari fsp. innan skamms, þannig að það mun liggja hér fyrir, og bið hann velvirðingar á að það hefur dregist lengur en skyldi og lengur en ég hafði ætlað mér að leggja fram svar við þessari fsp.