20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3503)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég er hér með aðra fsp. til hæstv. menntmrh. Hinn 5. maí 1978, og það eru tæp fjögur ár liðin síðan, ályktaði Alþingi á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um, að kennsla og fræðsla í Ríkisútvarpinu í öllum greinum móðurmálsins verði efld.“

Á sínum tíma bárum við fram, þm. úr öllum flokkum, þáltill. í þessa veru. Aðeins var hún þó ítarlegri á þann veg, að þar var gerð tillaga um að 13 manna ráð, kosið hlutfallskosningu á Alþingi, skyldi hafa með höndum stjórn þessara mála. Og það sýnir sig, að ekki hafi verið vanþörf á að koma slíkri málakademíu á fót. En það er eins og vant er, menn draga hér oft lappirnar í mikilsverðustu málunum. Mig minnir að það hafi verið slök allshn. sem fékk þetta til meðferðar. Ég nenni ekki að lesa þau nöfn upp, þau eru til. Helmingurinn er horfinn af þingi, sem sýnir að hér hefur ekki verið um burðarása að tefla. Það er búið að skipta þeim út. Meiri hlutinn er horfinn af þingi, ég sé það, einn féll við síðustu kosningar. Þrír lifa enn. En að öllu gamni slepptu, þá ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að rifja upp örstutta greinargerð sem á sínum tíma fylgdi þessari þáltill. Hún hljóðaði svo:

„Engum dylst að íslensk tunga á nú í vök að verjast. Á þetta sérstaklega við um talað mál. framburð .og framsögn. Einnig fer orðaforði þorra fólks þverrandi og erlend áhrif hvers konar vaxandi. Engum orðum þarf að fara um lífsnauðsyn þess að stemma stigu við slíkri óheillaþróun og snúa við inn á þá braut íslenskrar málhefðar, sem ein verður farin, ef íslensk menning á að lifa og dafna.

Ríkisútvarpið hefur lagt nokkuð af mörkum til fræðslu og kennslu í íslenskum fræðum, tungu og bókmenntum. Er það góðra gjalda vert, en það er skoðun flm. að betur megi ef duga skal, og á það einnig við um meðferð tungunnar yfirleitt í munni þeirra sem í útvarp tala. Áhrifaríkasti fjölmiðillinn, sjónvarpið, hefur hins vegar í engu sinnt fræðslu í meðferð íslenskrar tungu. Virðist jafnvel ekki lögð sérstök rækt við orðfæri eða framburð þeirra sem þar starfa“— og skýt ég því inn í, að ekki þarf að vitna til annars en íþróttafréttaritaranna sem hafa mest rúmið í fjölmiðli þessum. „Á þessu þarf að verða gerbreyting. Langsterkasta áróðurstækið, sem flust hefur inn á gafl á hverju heimili landsins, þarf að taka tröllataki til eflingar íslenskri menningu, sérstaklega til viðreisnar íslenskri tungu, en það er brýnasta verkefnið nú.“ Og síðan er hér í lokin, sem ég þarf ekki að rifja upp: „Lagt er til að kosið verði 13 manna ráð sem hafi með höndum stjórn þessara mála í fjölmiðlunum. Verkefnið er viðamikið og þykir flm. því ástæða til að allmargir eigi hlut að máli, enda hefur þjóðin til þess arna á að skipa mörgum mjög hæfum mönnum.“

Svo mörg voru þau orð. En ég hef ekki orðið þess var, og er þó þetta tæki inni á gafli á mínu heimili, að neitt hafi verið aðhafst sem máli skiptir í framhaldi af þessari ákvörðun Alþingis. Og enn minni ég á það, sem ég hef þráfaldlega gert, að það er raunalegt og verður ekki á það sæst og við það unað, að framkvæmdamenn okkar, hæstv. ráðherrar, hafi að engu þær viljayfirlýsingar sem hið háa Alþingi gerir. Þess vegna er það, að ég hef leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. á þskj. 455 á þessa leið: „Hvernig hefur tekist til um framkvæmd þál. frá 5. maí 1978 um eflingu kennslu og fræðslu í Ríkisútvarpinu í öllum greinum móðurmálsins?“