20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3980 í B-deild Alþingistíðinda. (3508)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég lét það koma fram, að ég teldi fyrir mitt leyti að Ríkisútvarpið gæti og ætti að auka við þá fræðslu og þá dagskrá sem fjallar sérstaklega um íslenskt mál. Það er ekki endalaust hægt að skjóta sér bak við það, eins og hv. 5. þm. Vesturl. var nú að gera að nokkru leyti, að það vantaði fé til dagskrárgerðar. Auðvitað vantar alltaf nokkurt fé til dagskrárgerðar, ekki efa ég það. En það er stefnuatriði hvernig menn ráðstafa dagskrárfé. Ég held að það væri vel möguleiki á að útbúa fleiri þætti um íslenskt mál, bæði í sjónvarpi og útvarpi, heldur en reyndin er. Og það er alls ekki rétt, að ég hafi ekki átt um það tal við forráðamenn útvarpsins að þetta yrði gert. En hitt kann vel að vera, að það eigi — og ég sé það reyndar því betur sem ég hugsa meira um þetta mál — að auðvitað eigi að snúa sér meira til útvarpsráðs í þessu efni beinlínis, við skulum segja af minni hálfu, og þá ekki síður af hálfu annarra áhugamanna um þessi efni, að snúa sér beint til útvarpsráðs, vegna þess að í útvarpsráði sitja þó ekki embættismenn ríkisins sem sýna einhverja tregðu í því að fara að beinum fyrirmælum framkvæmdavalds eða löggjafarvaldsins. (SvH: Þetta eru umboðsmenn okkar.) Já, einmitt það sem er, þeir eru umboðsmenn þingsins og flokkanna í þinginu, þannig að auðvitað ætti að vera auðvelt að snúa sér beint til þeirra og það ætti að vera þeirra mál að taka þetta málefni upp. En hins vegar vil ég leggja ákaflega mikla áherslu á það, sem ég hef reyndar gert hér í dag og hef oft gert áður, að við eigum að virða þá „prinsip“ -afstöðu í Ríkisútvarpinu, að dagskrárstjórn þess og forráðamenn útvarpsins telji sig ekki skuldbundna af því að taka við beinum fyrirmælum um dagskrá, dagskrárefni, hvorki frá ráðherrum né frá löggjafarvaldi. Og reyndar veit ég að þeir hv. þm., sem hér hafa talað, gera sér fyllilega grein fyrir þessu og eru mér sammála um þetta. Ég hef lagt á það mjög mikla áherslu í sambandi við yfirstjórn mína á Ríkisútvarpinu að skipta mér þar ekkert af dagskrármálum, og er þó, má segja, alloft vikið með ýmsum hætti að mér þegar menn eru á einhvern hátt óánægðir með það sem fram fer í útvarpinu. Ég tel að yfirstjórn ráðh. á útvarpinu eigi að taka til allt annarra þátta í málefnum útvarpsins en dagskrárstjórnar, og reyndar ætti það að vera afstaða löggjafarvaldsins líka, og efa ég ekki að svo er í raun og veru.

En sem sagt, ég skal halda áfram að ræða þessi mál við Ríkisútvarpið, en ég kemst ekki hjá að endurtaka það sem ég hef þegar sagt, að þar ríkir ákveðin tregða gegn þessu. Það er eins og þeim finnist, sem þar ráða, — þ. á m. hygg ég útvarpsráði — eins og þarna sé um að ræða utanaðkomandi þrýsting og óþarfa afskiptasemi sem rétt sé að hafa alla gát á. Og vissulega er rétt af útvarpsráði og forráðamönnum útvarpsins að hafa fulla gát á slíkri afskiptasemi og þrýstingi sem kann að koma fram gagnvart starfsemi útvarpsins og sérstaklega þá gagnvart dagskrárefni útvarpsins. Það er útvarpsráð sem á þar að ráða og hafa síðasta orðið. En í sambandi við þetta sérstaka mál, sem hér er til umr. — ég veit að hv. þm., sem hér eru, vita vel um afstöðu mína í því efni, — gæti ég vel hugsað mér að meira af dagskrárfé útvarps og sjónvarps væri varið til þess að fræða almenning um málnotkun og málfar. Það skal ekki standa á því hjá mér. Hins vegar get ég ekki alveg fallist á það með hv. 5. þm. Vesturl. að svo litlu fé sé varið til dagkrárgerðar að það sé ekki rúm fyrir þætti af þessu tagi. Þarna er auðvitað spurning eins og oftar um val á milli þátta og dagskrárefnis fremur en að skortur sé á fé, og skal ég þó ekkert úr því draga að Ríkisútvarpið skortir fé í sjálfu sér. Ég er líka sammála hv. 5. þm. Vesturl. um að þær hömlur, sem eru á því að útvarpið ákveði sína gjaldskrá, eru mjög til óþurftar og auðvitað þyrfti að aflétta slíkum hömlum. En mér hefur reynst það efni miklu flóknara mál en svo, að ég hafi fengið við það ráðið, og svo mun reyndar hafa verið um fleiri ráðh. í mínum sporum, að það hefur verið erfitt að fá þeim reglum breytt, þannig að Ríkisútvarpið fengi nánast sjálfdæmi um að verðleggja afnotagjöld sín.

En þessar umr. út af fyrir sig eru góðar og gagnlegar, og ég vona að við getum rætt þetta frekar og fundið einhverja leið til þess að hafa frekari áhrif á það, að útvarpið hefði fleiri þætti um móðurmálið og málnotkun heldur en nú er, þó að það megi alls ekki vanmeta það sem gert er í því efni.