20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3981 í B-deild Alþingistíðinda. (3510)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Mér hefur að vísu ekki gefist kostur á að hlusta á þessa umr. frá byrjun, en ég hjó eftir því, að hv. þm. Sverrir Hermannsson gat þess, að það væri ekki síður nauðsynlegt að efla og auka þekkingu starfsfólks Ríkisútvarpsins á íslenskri tungu. Þar er ég honum hjartanlega sammála, því að ég tel það vera algjört grundvallaratriði í sjálfu sér, að starfsmenn Ríkisútvarpsins haldi sjálfir uppi látlausri íslenskukennslu með góðu fordæmi, frá morgni til kvölds, í Ríkisútvarpinu.

Á þessu eru ýmsir meinbugir eða hafa verið að undanförnu, en ég minnist þess, að annar háttur var á þessu hafður fyrr á árum. Nú veit ég ekki hvernig til hefur tekist á síðustu árum, en fyrrum var sú regla alfarið í gildi hjá Ríkisútvarpinu, að íslenskufræðingur hélt t.d. fund með fréttamönnum Ríkisútvarpsins, yfirfór fréttaefni, benti á það, sem miður fór, og gagnrýndi og benti á leiðir til bóta. Ég er þeirrar skoðunar, að einmitt á þessu sviði væri unnt að gera hvað mest til að bæta kunnáttu t.d. almennings í móðurmálinu og tryggja það að starfsmenn Ríkisútvarpsins flyttu fréttir og annað efni á góðu máli. Þarna er mjög nauðsynlegur þáttur á ferðinni, og ég vil beina þeim tilmælum t.d. til hæstv. menntmrh., hvort hann gæti ekki kannað hvernig þessum málum er háttað í dag, hvort íslenskufræðingur sé starfandi víð útvarpið — og þá ekki bara að nafninu til, heldur væri hann með starfsfólkinu í látlausri kennslu, í látlausum leiðbeiningum um betra og bætt mál.

Mér dettur í hug að ágætur íslenskumaður, sem var hjá Ríkisútvarpinu fyrr á árum, amaðist mjög við því, að tilteknir útvarpsmenn gátu ekki sagt æ. Þeir töluðu látlaust um „Granland“, „narri“ og „fjarri“ og þar fram eftir götunum. Einn þessara starfsmanna, sem ekki gat borið fram æ, datt og handleggsbraut sig. Þá sagði þessi áhugamaður um íslensk fræði: „Og gat hann þá sagt æ, helvítið á honum?“