20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3981 í B-deild Alþingistíðinda. (3511)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er aðeins út af orðum hv. 5. þm. Vesturl. Það er náttúrlega óskaplegur misskilningur hjá honum að ég hafi verið að væna tiltekna eða nafngreinda menn hjá Ríkisútvarpinu um áhugaleysi á framgangi íslenskrar tungu. Það hef ég aldrei sagt. Og það þarf ekkert að brýna mig á því, að Andrés Björnsson og Hjörtur Pálsson og allir þessir ágætu menn, sem ég nauðaþekki og ekkert minna en hv. þm. sem hér var að tala, menn sem ég þekki vel og hef mikið samband við, þeir hafa mikinn áhuga á gengi íslenskrar tungu. Hins vegar var ég að lýsa almennri afstöðu forráðamanna útvarpsins um dagskrárgerð og um það, hvernig þeir litu á það hverjir skyldu ráða í þeim málum, og á þessu er náttúrlega stórkostlegur munur. Ég vil að það komi hér alveg skýrt fram, að ekkert af þessu var ég að gefa í skyn, ég var ekki að væna tiltekna og nafngreinda ágætismenn um einhvern slóðahátt og áhugaleysi um svo mikilvægt mál eins og framgang íslenskrar tungu. Ég hef aldrei látið mér koma til hugar að segja slíkt eða gefa í skyn.

Það, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var að segja hér síðast, er sjálfsagt að kanna, hvort það sé einhver sérstakur íslenskufræðingur sem fer höndum um skrif manna hjá útvarpinu, fréttaskrif og annað. Ég er ekki kunnugur því, hvort svo er. Ég skal kanna það. Það má vel vera að það sé ekki lengur gert, en ég skal verða við þeim tilmælum að kanna það.