20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

21. mál, votheysverkun

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða hér málvöndunaratriði, enda hefur það þegar verið gert í dag í fyrirspurnatíma á mjög röggsaman hátt og ágætan. Ég vil aðeins upplýsa það í sambandi við þessa till., sem ég tók mjög undir á sínum tíma og einmitt varðandi afgreiðslu atvmn. á henni, að á fundi sínum nýlega samþykkti stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins hækkun á lánaprósentu stofnlána til votheyshlaðna um 10%, þ.e. úr 40% í 50%, þannig að ég hygg að það atriði, sem við ræddum um hvað mest, við hv. 1. flm. þessarar till. á sínum tíma, sé komið í höfn með þessum hætti og það gildi nokkurt jafnræði nú eftir hækkun þessara stofnlána, a.m.k. frá hálfu Stofnlánadeildarinnar, í sameiginlegum lánum og styrkjum til votheysgerðar á móti þurrheyshlöðunum.

Ég vil að þetta komi fram hér vegna þess að um þetta var sérstaklega rætt á okkar sameiginlega umræðufundi í vetur um þetta mál.