05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað bæta við spurningu hv. fyrirspyrjanda sem hann var að láta fara frá sér nú er hann gekk úr ræðustól, breyta henni og spyrja hæstv. ráðh. hvort hann hafi nokkuð hugsað sér að fella niður öll gjöld af ekki aðeins þessum búnaði, heldur og öðrum búnaði til spítala, sjúkrahúsa, elliheimila og annarra slíkra stofnana, meðfram vegna þess að það eru margir hér á landi sem vilja koma á móti og hjálpa til við að kaupa þetta, en þessum aðilum hreinlega blöskrar þegar þeir horfa upp á að þeir eru í sveita síns andlits að safna fjármunum sem svo fara allt að 72% í ríkissjóðshítina. Ég held að þarna væri verk að vinna fyrir hæstv. heilbrmrh.

Vegna þeirra orða, sem hann lét fara frá sér þegar hann hafði svarað fsp., að Borgarspítalinn hefði ekki haft samráð við heilbrmrn. um kaupin á sínu sneiðmyndatæki, langar mig til að spyrja hæstv. ráðh.: Hafði hann samband við heilbrigðisráð Reykjavíkur áður en ákveðið var að gefa þessa gjöf sem Landspítalanum var gefin og sumir álíta að hafi verið gripið til á síðustu stundu vegna þessa merka afmælis Landspítalans? Ég spyr vegna þess að í heilbrigðisráði var búið að eyða miklum tíma, halda fjölda funda mánuðum saman til að ná samstöðu á milli þessara tveggja spítala um kaup á einu tæki. En þá er allt í einu skorið úr og ekkert tillit tekið til ráðlegginga sérfræðinga um hvar þetta tæki ætti að staðsetja eða hvernig ætti að nota það þannig að allir gætu nýtt það. Við hefðum vel getað nýtt sameiginlega eitt tæki. Allt í einu sker hæstv. heilbrmrh. úr um það, að tækið skuli vera á Landspítalanum. Hann hefur kannske haft í huga að þar er húsnæði til undir þetta tæki. Mér er tjáð að ekki alls fyrir löngu hafi byggingarnefnd Reykjavíkurborgar fundið út að það væri allt í einu komin stór bygging á lóð Landspítalans sem hún vissi ekki um. Hún hafði ekki hugmynd um að búið var að reisa þar nýtt hús. Það getur vel verið að þetta hús sé ein af afmælisgjöfum hæstv. ráðh. til Landspítalans.