20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

13. mál, orlofsbúðir fyrir almenning

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herraforseti. Allshn. hefur haft till. til þál. um orlofsbúðir fyrir almenning til umfjöllunar, en meginefni hennar er að Alþingi kjósi sjö manna nefnd til að gera tillögur um hvernig nota skuli jarðeignir í eigu ríkissjóðs og stofnana ríkisins undir skipulögð orlofsbúða- og útivistarsvæði fyrir almenning.

Nefndin fékk umsagnir m.a. frá Alþýðusambandi Íslands og Búnaðarfélagi Íslands og Náttúruverndarráði, landbrn. og fjmrn., og er meginniðurstaða umsagnaraðila að rétt og eðlilegt sé, að land í eigu ríkisins sé nýtt í ríkara mæli en nú er fyrir almenning, og það sé rétt að kanna frekari möguleika á að koma upp orlofsbúðum fyrir almenning.

Í umsögn landbrn. kemur t.d. fram að ráðuneytið telji mikinn ávinning að samþykkt till., og lýsir ráðuneytið eindregnum vilja til að stuðla að greiðum aðgangi að ríkislandi í því skyni sem í till. felst. Kemur þar einnig fram að ráðuneytið muni veita nefndinni stuðning í því skyni að starf hennar leiði til þeirrar niðurstöðu sem að er stefnt.

Eins og fram kemur á þskj. 510 hefur allshn. gert nokkra breytingu á tillgr. Þó ég sem einn af flm. þessarar till. hefði kosið að till. hefði verið afgreidd óbreytt frá nefndinni, því ég tel hana markvissari í upphaflegri mynd, get ég fallist á þessa breytingu þar sem samstaða varð í nefndinni um það meginefni sem í till. felst. Brtt. á þskj. 510 hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa sjö manna nefnd til þess að kanna og gera tillögur um hvaða jarðeignir í eigu ríkisins megi nýta undir orlofsbúðir félagasamtaka og sumarhúsabyggingar einstaklinga.

Nefndin skal skila skýrslu um niðurstöður til Alþingis.“

Mælir nefndin með samþykki till. á þskj. 13 um orlofsbúðir fyrir almenning með þeirri breytingu sem ég hef hér greint frá.