20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

88. mál, kalrannsóknir

Frsm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá atvmn. um till. til þál. um áætlanagerð og sérstakt átak í kalrannsóknum á Íslandi. Nefndin hefur fjallað um till. og mælir með samþykkt hennar með svofelldum breytingum:

„1. Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að efla kalrannsóknir.

2. Fyrirsögnin orðist svo:

Till. til þál. um eflingu kalrannsókna.“

Till. er mjög stytt frá því sem hún var upphaflega lögð fram, og til rökstuðnings þessari breytingu vil ég vitna í álit Rannsóknastofnunar landbúnaðarins þar sem m.a. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt hluti af kalrannsóknum geti farið fram norðanlands fer þó meginhluti þeirra fram á aðalstöðvum stofnunarinnar á Keldnaholti og á Korpu, enda er þar fyrir hendi besti tækjakostur til rannsókna. Rannsóknasvæði hafa hins vegar verið víða um Norður- og Suðurland og að nokkru leyti annars staðar á landinu. Aukinn stuðningur við stofnunina vegna kalrannsókna, bæði norðanlands og í aðalstöðvunum, er líklegur til að skila mikilsverðum árangri í baráttunni við skaða af völdum kals.“