20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3991 í B-deild Alþingistíðinda. (3544)

261. mál, röðun jarða til tölvuvinnslu og upplýsingamiðlunar

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Agli Jónssyni. Till. er 26 1. mál Alþingis og er á þskj. 554. Hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd sjö manna til þess að gera tillögur um samræmt númerakerfi yfir bújarðir í landinu, með það að markmiði að gera tölvuvinnslu margs konar þátta landbúnaðarins og upplýsingamiðlun á því sviði fljótvirkari og öruggari.

Eftirgreindir aðilar skutu skipa fulltrúa í nefndina: Hagstofa Íslands, Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda, Fasteignamat ríkisins, Landnám ríkisins og Framleiðsluráð landbúnaðarins. Landbrh. skipar einn mann í nefndina og skal hann vera formaður hennar. Nefndin skal skila tillögum til landbrh. fyrir 1. jan. 1983.“

Um þessar mundir er notkun tölvu mjög á dagskrá, enda er margs konar vinnsla í tölvu til þess fallin að auka afköst við margs konar úrvinnslu gagna, við skipulagningu innan ýmissa starfsgreina og við miðlun og móttöku upplýsinga. Sá þáttur tölvuvinnslunnar er mjög þýðingarmikill, enda hafa einstaklingar og stofnanir hagnýtt sér slíka þjónustu aðallega erlendis frá þar sem samræming tölvukerfanna er svo skammt á veg komin hér á landi.

Landbúnaðurinn hefur nú þegar tekið upp tölvunotkun í ýmsum greinum atvinnuvegarins. Hjá Búnaðarfélagi Íslands hefur búfjárræktin verið unnin í tölvu mörg undangengin ár. Ég ætla að skýrslur nautgriparæktarfélaga og sauðfjárræktarfélaga hafi verið teknar í tölvuvinnslu nokkru áður en tölvunotkun var almennt í gangi. Tölvufræðingur búfjárræktarinnar mátti því setja upp sérstakt kerfi. Síðan hefur hliðstæð úrvinnsla orðið almenn, en ýmsir algengustu lyklar kerfanna hafa ekki verið samræmdir, enda hefur enginn opinber aðili beitt sér fyrir samræmingu svo mér sé vitanlegt.

Hér var verið rétt í þessu að fjalla um till. til þál. um þróunarhorfur og stefnumótun í upplýsinga- og tölvumálum. Hún hefur verið hér til umfjöllunar á Alþingi í vetur og til afgreiðslu nú í dag. Þess er því að vænta, að heildarúttekt verði gerð á stöðu þessara mála, og af þeirri úttekt má því móta framtíðarstefnu í tölvunotkun og tölvukerfum og ber að fagna því.

till., sem hér er til umr., varðar aðeins einn takmarkaðan þátt þessara mála, en engan veginn þýðingarlitinn þátt að mínum dómi. Ég gat þess áðan að búfjárrækt Búnaðarfélags Íslands hefði unnið í tölvu skýrslur bænda um allmörg undangengin ár — skýrslur þeirra bænda sem hafa haldið skýrslur yfir kynbótagripi sína. Fleiri og fleiri þættir eru teknir í vinnslu með sama hætti. Ég hef kosið að taka með þessari till. sérstaklega til umfjöllunar röðun bújarða í tölvukerfi til flýtisauka við upplýsingamiðlun sem allmargar stofnanir í landinu ættu að hafa í sem fyllstu samræmi. Má í því sambandi nefna Þjóðskrána, Fasteignamat ríkisins, Stéttarsamband bænda, Framleiðsluráð landbúnaðarins, Búnaðarfélag Íslands, Landnám ríkisins, veðbókarskráningu, markaskrár og merkingar stórgripa, svo nokkuð sé nefnt.

Þess er rétt að geta, að alllangt er síðan Þjóðskráin tók upp ákveðna merkingu sýslufélaga og sveitarfélaga, og hefur hún nú verið tekin til afnota í flestum þeim stofnunum sem þessar merkingar þurfa að hafa. Ef tekið er til Árnessýslu heitir hún í þjóðskránni 87, en mín heimasveit heitir 09. Þessi merking er gegnumgangandi víðast hvar í stofnunum. Þó er það eins og ég gat um áðan, að sá þáttur hjá Búnaðarfélagi Íslands, sem lengst hefur verið tölvuunninn, þ.e. sauðfjárræktin, er ekki fallinn inn í þetta kerfi og þar heitir þessi sami aðili 2109. Í markaskrá heitir þessi aðili Að. Ég tel að þetta m.a. þurfi að samræma. Ef við tökum til bæjanna aftur á móti er þar ekki jafnlangt komið um samræmingu, eins og er þó um sveitarfélög og sýslufélög. Einn ákveðinn bæ hef ég sem hefur einkennisstafina 3800 hjá Þjóðskránni. Hjá Fasteignamatinu, Stéttarsambandi, Framleiðsluráði og forðagæslu og jarðrækt hefur þessi sami bær stafina 38000. Það má segja að hann hafi stafina 38, en misjafnlega marga aukastafi á eftir. Hjá Landnámi ríkisins hefur þessi sami bær númerið 21, hjá nautgriparækt Búnaðarfélags Íslands hefur þessi bær stafina 22, í sauðfjárrækt hefur hann stafina 21 og í markaskránni hefur hann stafina 20.

Það er enginn vafi á að það væri mikið til hagræðis, bæði í vinnslu og upplýsingamiðlun til bænda, að þetta væri samræmt hjá öllum þessum stofnunum til þess að þær gætu leitað frekar hver til annarrar um vissa upplýsingaþætti ef þetta væri samræmt. Samræming á þessu sviði er að mínu viti algjör forsenda þess, að tölvunotkun verði hagnýtt til hlítar fyrir landbúnaðinn í heild. Fleiri aðilar munu hafa gagn af slíkri kerfisbindingu bújarða við tölvuvinnslu, svo sem skráning eigna við þinglýsingar, sem með þeim hætti tengdist fasteignaskrá til tryggingar því að eignir séu skráðar á rétta eigendur. Ég er sannfærður um að slík kerfisbinding gæti og leitt til hraðari afgreiðslu veðbókarvottorða til hins almenna notanda, og á því er fullkomin þörf.

Ég á von á að ýmsir séu þeir sem líta þetta mál smáum augum og telja ekki neina höfuðnauðsyn að flytja það fram eða vinna í því. Ég er á annarri skoðun. Ég viðurkenni að vísu að sú till., sem hér var afgreidd í dag um tölvunotkun, getur leitt til þess, að samræming verði einnig gerð á þessu. En mér er ljóst að það er aðkallandi verkefni, að gera hér samræmingu á, og þess vegna ástæða til að kippa því út úr og vinna það strax til frekari afnota fyrir tölvuvinnsluna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þessa till. mína öllu fleiri orð. Ég óska eftir því, að þegar hlé verður gert á þessari umr. verði till. vísað til allshn.