20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3993 í B-deild Alþingistíðinda. (3546)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. okkar þm. Alþfl. um að kallað skuli saman aukaþing samkv. heimild í 22. gr. stjórnarskrárinnar í ágúst 1982 til að fjalla um og afgreiða nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Tilgangurinn með þessum tillöguflutningi er auðsær. Þegar lýðveldið var stofnað 1944 var notast við hina gömlu stjórnarskrá konungsríkisins með nauðsynlegum orðabreytingum, enda þótt hún væri að stofni til frá 19. öld. Hafa verið gerðar margar tilraunir til að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, en þær hafa allar runnið út í sandinn í þá nær fjóra áratugi sem liðnir eru síðan lýðveldið var stofnað. Það hafa einungis verið gerðar einstaka breytingar sem fyrst og fremst lúta að kjördæmaskipan, og þar við hefur setið.

Við Alþfl.-menn gerum nú till. um að sérstakt aukaþing, stjórnlagaþing, skuli kallað saman í ágústmánuði þessa árs til að fjalla um frv. frá stjórnarskrárnefnd sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar samkv. samþykkt Alþingis frá 6. maí 1978. Það virðist mun líklegra til árangurs að halda slíkt sérstaki stjórnlagaþing en að blanda þessu máli saman við önnur verkefni Alþingis. Það er nauðsynlegt að takist að fá afgreidda fyrir næstu kosningar nýja stjórnarskrá. Sú stjórnarskrá á ekki einungis að ná til ákvæða varðandi kjördæmaskipan og kosningar. heldur á að vera heildarendurskoðun, á að vera nútímaleg stjórnarskrá.

Við höfum fjölmörg dæmi um að það hefur dregist úr hömlu að afgreiða stjórnarskrármál. Við höfum meira að segja nýlegt dæmi þar sem fjallað var um 18 ára kosningaraldur. Það mál lenti í eindaga og vandræðum og var síðan frestað. Ég held að allir þm. hljóti að sjá að það eru mun skynsamlegri og betri vinnubrögð að ætla sér ákveðinn tíma til að sinna þessu mikilvæga verkefni, en um leið að setja sér ákveðin tímamörk um að ljúka þessu verkefni. Þannig er megintilgangur þessarar þáltill. að gefa Alþingi tóm og tíma til að fjalla vel um þessi mál og að Alþingi setji sér ákveðin tímamörk um hvenær þessu verkefni skuli lokið.

Ég gat um það áðan, að sérstök stjórnarskrárnefnd hefði verið kosin samkv. samþykkt Alþingis 6. maí 1978. Sú ályktun var á þessa lund;

„Alþingi ályktar, að þar sem 6 ár eru liðin síðan stjórnarskrárnefnd var kosin, og það er lengri tími en venjulegur kjörtími þingkjörinna nefnda og ráða, skuli að loknum kosningum til Alþingis tilnefna að nýju 9 menn í stjórnarskrárnefnd af hálfu þeirra stjórnmálaflokka, sem fulltrúa eiga á nýkjörnu Alþingi, og í hlutfalli við þingmannatölu þeirra. Skal hin nýja nefnd skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og taka sérstaklega til meðferðar kjördæmaskipan, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfshætti Alþingis og kosningalög.“

Af þessari samþykkt má ráða tvennt: Sú stjórnarskrárnefnd, sem setið hafði áður en sú sem nú situr, hafði setið í 6 ár án þess að niðurstaða fengist, og sú stjórnarskrárnefnd, sem nú er að störfum, átti að réttu lagi að ljúka af sér árið 1980, en nú er árið 1982. Með þessari till. er gefinn frestur til að ljúka störfum stjórnarskrárnefndar þar til í ágúst n.k. Ég er sannfærður um af þeim spurnum, sem ég hef haft af störfum stjórnarskrárnefndar, að það eigi að vera vel mögulegt.

En hin nýja stjórnarskrá á ekki einungis að fjalla um kosningalög og kjördæmaskipan að dómi okkar Alþfl.manna. Við teljum að hin nýja stjórnarskrá verði að fela í sér ný ákvæði um mannréttindi, um umhverfismál, um dómsmál, um þjóðareign á landi, um þjóðaratkvæði og um störf Alþingis. Alþfl. hefur mótað tillögur um þessi efni og m.a. gert sérstaklega drög að nýjum III. kafla stjórnarskrárinnar, sem fjallar um störf Alþingis. Þessar tillögur hafa verið kynntar öðrum þingflokkum og stjórnarskrárnefnd, og við leggjum vitaskuld áherslu á að sem flest af þeim hugmyndum verði tekið til athugunar og afgreiðslu í hinni nýju stjórnarskrá. En ég get sérstaklega um þetta vegna þess, hversu víðtæki við teljum að það verkefni sé að setja landinu nýja stjórnarskrá. Það hefur verið siður í undanförnum breytingum að láta við það eitt sitja að líta á kjördæmaskipun og kosningalög, en það er margt fleira sem vitaskuld á að vera í hinni nýju stjórnarskrá þannig að hún verði nútímaleg. Það má geta þess, að flest lönd í grennd við okkur hafa látið fara fram endurskoðun á stjórnarskrám sínum, og þar sjást mörg hinna nútímalegri viðhorfa, t.d. bæði varðandi mannréttindi og umhverfismál svo dæmi séu tekin.

Ég hef heyrt þær mótbárur við þessum tillöguflutningi okkar Alþfl.-manna, að á slíku stjórnlagaþingi, á slíku aukaþingi, gætu þm. tekið upp önnur mál til umfjöllunar og þannig yrði þetta ekki hreint stjórnlagaþing, það gæti tafið störfin. Ég vil hins vegar trúa því, að ef þingflokkarnir koma sér saman um að halda sérstakt stjórnlagaþing muni þeir standa við þá samþykkt sína og nota tímann í þetta mikilvæga verkefni. En að hinu leytinu hef ég heyrt að aukaþing þetta væri óþarft vegna þess að vitaskuld gæti Alþingi afgreitt þetta á reglulegu þingi. En þá vil ég spyrja: Er þá ekki enn fremur ástæða til að hafa áhyggjur af að einhver mál slæddust með ef menn ætla að þessu megi ljúka á venjulegu þingi? Reynslan kennir okkur vitaskuld að það hefur ekki tekist — ekki í þessa fjóra áratugi — að setja landinu nýja stjórnarskrá á venjulegum þingtíma á venjulegum þingum. Við höfum dæmin fyrir okkur, hvernig það getur dregist að afgreiða svo einfalt mál sem 18 ára kosningaraldur. Það mál lendir í eindaga og vandræðum og er síðan frestað.

Þingið hefur mörgum hnöppum að hneppa og þarf mörgum störfum að sinna; og að bæta stjórnarskrármálinu sérstaklega við á venjulegum þingtíma eykur auðvitað annir og erfiði þingsins og eykur á líkur þess, að málið fáist ekki afgreitt. Þess vegna mælir allt með því, að Alþingi taki sér ákveðinn tíma til að sinna þessu verkefni, haldi sérstakt stjórnlagaþing.

Ég hef líka heyrt í sambandi við þennan tillöguflutning okkar Alþfl.-manna að að loknu slíku aukaþingi og afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár yrði að efna til kosninga. Auðvitað höfum við Alþfl.-menn ekki á móti því, að kosningar séu haldnar. En ég lýsi því yfir að það mál stendur opið. Þinginu er vitaskuld í lófa lagið að fresta lokaafgreiðslu á slíku aukaþingi, eftir að umfjöllun hefur átt sér stað og niðurstaða fengist í þingflokkunum, og láta lokaafgreiðsluna vera næsta aðdraganda þeirra kosninga sem næstar yrðu. Það er sem sagt ekki meginmálið í þessu máli og óþarfi að gera það að ásteytingarsteini vegna þess að hvernig með þetta skuli fara, kosningarnar, hefur þingið gjörsamlega á valdi sínu, og um það erum við Alþfl:-menn vitaskuld opnir til viðræðna.

Ég tel að það sé nauðsynlegt og það sé í rauninni krafa flestra landsmanna, að loksins megi takast að setja lýðveldinu nútímalega stjórnarskrá — stjórnarskrá sem sé í samræmi við nútímaviðhorf. Ég geri mér vonir um, að stjórnarskrárnefnd geti skilað af sér fyrir þann tíma sem hér er tilgreindur, og þykist hafa um það allgóðar upplýsingar. Jafnframt er það svo, eins og þingheimi er kunnugt, að í gangi hafa verið s.l. 9 mánuði viðræður milli formanna stjórnmálaflokkanna sem fjalla sérstaklega um kjördæmaskipun og kosningamál. Það er ekki ástæða til að rekja þær viðræður í smáatriðum, en þar hafa margvíslegar hugmyndir verið reifaðar og ég treysti mér til að segja það af þeim viðræðum, að það þurfi ekki að vera til fyrirstöðu þess, að málið geti komið til afgreiðslu og umfjöllunar á aukaþingi í ágústmánuði. Þvert á móti hefur þessu miðað það vel að mér er ekki uggur í brjósti um að flokkarnir hafi ekki getað mótað afstöðu sína með nægilega glöggum hætti fyrir þann tíma til að taka málið til umfjöllunar.

Herra forseti. Ég hef hér reifað nokkrum orðum hugmyndir okkar Alþfl.-manna um sérstakt stjórnlagaþing, um aukaþing samkv. heimild 22: gr. stjórnarskrárinnar til að fjalla um og afgreiða nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Ég vil vænta þess, að þessi till. fái greiða afgreiðslu, vegna þess að hér er á ferðinni mál sem nauðsynlega þarf að afgreiða fyrir næstu kosningar og reynslan kennir okkur að ekki hefur tekist á undanförnum fjórum áratugum að finna tóm til að afgreiða, en það hefur ekki heldur áður verið staðið að málinu með þeim hætti sem hér er lagt til, að Alþingi ætli sér til þess sérstakan tíma og setji sér ákveðin tímamörk í þessu sambandi.