20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4003 í B-deild Alþingistíðinda. (3552)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er leitt að hafa ekki getað hlustað á allar þær umr. sem hér hafa farið fram, en vegna þeirra orða, sem ég hef hér hlýtt á, finnst mér nauðsynlegt að láta það koma fram, að ég tel að það sé allnokkru lengri tími, sem menn hafa til þess að ganga frá till. að nýrri stjórnarskrá, en hér hefur verið getið um. Kjörtímabil það, sem nú stendur yfir, rennur ekki út fyrr en í desembermánuði 1983. Þangað til er rúmlega eitt og hálft ár. Ég tel þess vegna að þingflokkarnir hafi ærinn tíma til þess að fjalla um þær till. sem hafa verið að mótast í stjórnarskrárnefnd og í viðræðum formanna þingflokkanna og það beri á engan hátt brýna nauðsyn til þess að fara að halda sérstakt aukaþing um stjórnarskrármál. Ef menn hins vegar telja að það væri æskilegt að halda slíkt þing, þá er ég þeirrar skoðunar að það eigi að halda sumarið 1983, en ekki sumarið 1982. Það væri miklu nær að efna til slíks þings undir lok þessa kjörtímabils, en alls ekki þegar kjörtímabilið er rétt rúmlega hálfnað. Það má vel vera að það væri æskilegt að þingið kæmi saman einhvern tíma, nokkrar vikur eða svo, síðla sumars 1983 eða þegar fer að hausta, til þess að fjalla um þær till. sem settar hafa verið fram um stjórnarskrárbreytingar, en ég tel á engan hátt tímabært að það verði gert í sumar.

Það verður því miður að játa, að þingflokkarnir hafa ekki vegna margvíslegra anna lagt nægilega vinnu í að ræða ýmsa þætti stjórnarskrármálsins aðra en kjördæmabreytinguna. Hins vegar hefur innan stjórnarskrárnefndar verið á síðustu mánuðum lögð allmikil vinna í að gera uppkast að orðalagi ýmissa nýrra greina í stjórnarskránni eða breytinga á öðrum greinum sem fjalla um ýmis önnur atriði en kjördæmaskipunina. Það er nú einu sinni svo, að íslenska stjórnarskráin hefur að mestu leyti verið óbreytt hvað þessi ákvæði snertir frá upphafi. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þingflokkarnir og þjóðin fái nokkuð góðan tíma til þess að athuga þau atriði. Mér fyndist þess vegna vel koma til greina að sá háttur yrði hafður á, að með haustinu eða fyrri hluta næsta vetrar lægi fyrir uppkast að breytingum á hinum ýmsu greinum og köflum stjórnarskrárinnar og þingflokkarnir hefðu það síðan til meðferðar næsta vetur. Menn gætu svo metið það, þegar færi að vora, hvort menn vildu geyma afgreiðslu þess til haustþingsins 1983 eða hvort menn vildu efna til sérstaks aukaþings þá um haustið. Mér fyndist við hæfi að menn afgreiddu þá stjórnarskrárbreytinguna í októbermánuði eða svo 1983, skömmu áður en næstu þingkosningar fara væntanlega fram. Síðan væri hægt að kalla þing saman fljótlega upp úr áramótum 1984 að nýju og láta fara fram aðrar kosningar í kjölfarið á því og nýtt þing samkv. nýrri stjórnarskrá tæki til starfa einhvern tíma í lok fyrsta misseris eða upphafi annars misseris árið 1984.

Ég var einn af þeim sem höfðu efasemdir um desemberkosningarnar 1979, en skal vissulega játa að framkvæmd þeirra kosninga tókst mun betur en ég óttaðist. Ég tel það þess vegna staðreynd í okkar þjóðfélagi nú á tímum að við getum, líkt og aðfar þjóðir, látið þingkosningar fara fram nánast á hvaða tíma ársins sem er, þótt það hafi e.t.v. ekki gilt fyrir nokkrum áratugum þegar samgönguhættir voru öðruvísi en nú. Mér finnst þess vegna gæta nokkurs bráðræðis að vilja fara að ákveða aukaþing um stjórnarskrána nú, en finnst koma til greina að við tökum það til athugunar að 12–15 mánuðum liðnum.