20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4007 í B-deild Alþingistíðinda. (3554)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er till. um málsmeðferð en ekki um efnisatriði. Ég ætla því ekki að ræða um efnisatriði hugsanlegrar stjórnarskrárbreytingar eins og hv. síðasti ræðumaður gerði. Vissulega væri hægt að ræða mikið og langt mál um það, en það er ekki á dagskrá þegar rætt er um þessa till. sem aðeins fjallar um málsmeðferð, og ég tel það ekki líklegt til árangurs og til væntanlegs samkomulags hér í þinginu um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins að fara nú að ræða um efnisatriði þeirra breytinga þegar til umr. er hvernig á málinu skuli haldið.

Það er vissulega ánægjulegt fyrir okkur Alþfl.-menn að hlýða á ræðu hv. 11. þm. Reykv. þar sem hann lýsir yfir að illspár hans um framkvæmd kosninganna í desembermánuði 1979 hafi ekki gengið eftir, heldur þvert á móti hafi framkvæmd þeirra verið þess eðlis, að það hafi komið honum þægilega á óvart. Það vildi svo til að það vorum við Alþfl.-menn sem fórum með framkvæmd þeirra kosninga, og vissulega er ánægjulegt að hlýða á formann þingflokks Alþb. lýsa yfir að sú framkvæmd hafi farið vel úr hendi. En veldur hver á heldur. Sá, sem þá á hélt, var hv. þm. Vilmundur Gylfason og svo að sjálfsögðu forsrh. þeirrar ríkisstj. hv. þm. Benedikt Gröndal. Og það er ekki víst, þó að þessum tveimur hv. þm. hafi farið framkvæmdin vel úr hendi, að þeim ágætu mönnum, sem fara nú með þau embætti í ríkisstj., sem þessir tveir þm. fóru með haustið 1979, muni fara jafnvel úr hendi haustkosningar í lok síns kjörtímabils.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að þeim bar ekki saman, hv. í 1. þm. Reykv. og hæstv. forsrh., um hvenær bæri að stefna að því, að stjórnarskráin yrði afgreidd eða breytingar á henni. Hv. 11. þm. Reykv. óskaði einna helst eftir að sú afgreiðsla færi ekki fram fyrr en á síðasta degi kjörtímabilsins, ekki fyrr en í desember eða að hausti 1983. Hæstv. forsrh. lýsti því hins vegar yfir, að hann teldi rétt að stefna að því, að sú afgreiðsla færi fram vorið 1983. Þessi meiningarmunur er mjög vel skiljanlegur þegar til þess er litið, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er ekki aðeins 11. þm. Reykv., næstsíðasti þm. sem kjörinn er á þing af framboðslista í Reykjavík, heldur er hann einnig kjörinn á þing af framboðslista Alþb. Svo það er ósköp eðlilegt að sá hv. þm. vilji mjólka það sem mjólkað verður út úr þessu kjörtímabili. Allur er varinn góður.

Meginatriði þessa máls, herra forseti, er að með samþykkt Alþingis 6. maí 1978 voru stjórnarskrárnefnd, sem kjörin var í framhaldi af þeirri samþykkt, falin tiltekin verkefni. Samkv. þeirri samþykkt átti hm nýja nefnd að skila af sér álitsgerð innan tveggja ára. Sá tími er nú löngu liðinn. Það eru 11/2– 2 ár síðan þessi nefnd átti að skila af sér störfum samkv. samþykkt Alþingis. (ÓRG: Það er rangt.) Það er rangt, segir hv. 11. þm. Reykv. Samþykktin er gerð 6, maí 1978. Í samþykktinni segir, með leyfi forseta, orðrétt: „Skal hm nýja nefnd skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum“ o.s.frv. Það má að réttu lagi segja að hv. nefnd hafi fengið tveggja ára starfstíma samkv. þessari ályktun frá því að hún var skipuð í árslok 1978. Um það má deila, hvort heldur starfstíminn miðist við samþykkt Alþingis eða við þann tíma sem hv. nefnd hóf störf. En það er engu að síður staðreynd að nú eru liðin 11/2–2 ár fram yfir það að þessi hv. nefnd átti að skila af sér. Einnig segir í þessari till. hvernig nefndin átti að skila af sér störfum fyrir 11/2–2 árum. Hún átti ekki að skila af sér störfum með þeim hætti að óska eftir að þingflokkarnir gæfu henni einhverjar leiðbeiningar um hina viðkvæmustu þætti í verkefnum nefndarinnar. Þvert á móti stendur í samþykki Alþingis: „Skal hin nýja nefnd skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og taka sérstaklega til meðferðar kjördæmaskipun, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfshætti Alþingis og kosningalög.“

Alþingi felur umræddri nefnd sérstaklega að gera tillögur um þessi vandasömu og viðkvæmu mál og nú er liðið 11/2–2 ár frá því að nefndin átti að skila af sér þessum tillögum sínum. Það má út af fyrir sig víta gagnvart forsetum Alþingis að hafa ekki gengið eftir að nefndin skilaði af sér störfum, eins og tvímælalaust er lýst yfir í samþykkt Alþingis að hún eigi að gera. Alþingi fól nefndinni ekki að óska eftir því við þingflokkana, að þeir segðu álit sitt á þessum viðkvæmu og vandasömu málum áður en hún gerði sínar tillögur. Þvert á móti fól Alþingi nefndinni að gera tillögur um þessi mál svo að þingflokkarnir gætu tekið afstöðu til tillagna nefndarinnar, og þær tillögur áttu að liggja frammi, hæstv. forsrh., fyrir 11/2–2 árum. Það er því ekki að ástæðulausu að Alþingi telur sig knúið til þess að taka upp þau mál, hvernig að afgreiðslu þessarar breytingar skuli staðið, þar sem það liggur nú fyrir að þingheimur hefur beðið í 11/2–2 ár eftir tillögum stjórnarskrárnefndar undir forsæti hæstv. forsrh. (ÓRG: Farðu nú að setja bremsurnar á stóryrðin áður en þú segir meiri vitleysu.) Ég geri ekki annað, herra forseti, en að vitna orðrétt í samþykkt Alþingis um þessi efni. Sú samþykkt er allsendis ótvíræð. En látum nú svo vera.

Meginatriðið í till. er það, að Alþingi reyni að ná samstöðu um að gefa sér sérstakan tíma til að fjalla um breytingar á stjórnarskránni, til þess að það gerist nú ekki einu sinni enn, sem hvað eftir annað hefur gerst undir slík um kringumstæðum, að Alþingi heykist á því að afgreiða endurskoðun á stjórnarskránni vegna þess einfaldlega að þingið taki ekki til við það viðfangsefni fyrr en á elleftu stund. Menn þurfa engar áhyggjur að hafa af því, að Alþingi mun sjálfsagt gefa sér tíma, eins og jafnan áður undir slíkum kringumstæðum, til þess að afgreiða breytingar á þingmannafjölda eða skiptingu þingmanna milli kjördæma. Alþingi mun án efa gefa sér tíma til slíkrar afgreiðslu eins og það hefur ávallt áður gert undir slíkum kringumstæðum. En reynslan færir okkur heim sanninn um að hættan er ekki sú, að þetta viðfangsefni verði vanrækt, heldur hitt, að öll önnur nauðsynleg endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins verði látin sitja á hakanum. Þess vegna er ósköp eðlilegt að þingflokkur Alþfl. komi við þessar aðstæður fram með tillögu um að Alþingi Íslendinga gefi sér nú, þegar skammt lifir af kjörtímabilinu og liðið er 11/2–2 ár síðan þingið átti að fá tillögur frá umræddri nefnd, þá gefi það sér sérstakan tíma til þess að ná samkomulagi um hvernig að málsmeðferðinni skuli staðið.

Hæstv. forsrh. segir að hér sé um að ræða valdbrest hjá Alþingi, Alþingi geti ekki tekið ákvarðanir um mál eins og till. til þál. á þskj. 522 gerir ráð fyrir. Það er að sjálfsögðu ekkert meginatriði, heldur formsatriði. En skyldi það atriði vera með öllu fordæmalaust? Ég segi nei. Ég leyfi mér í því sambandi að vitna í ræðu forseta sameinaðs Alþingis, Eysteins Jónssonar, sem hann flutti á 87. fundi Sþ. fimmtudaginn 9. maí kl. 1.55 eftir miðnætti, eins og skráð er í Alþingistíðindum. Þetta var síðasta ræða forseta Sþ. rétt áður en þingrof fór fram þá um nóttina. Forseti sameinaðs Alþingis sagði þá, með leyfi forseta, orðrétt:

„Gjarnan má segja frá því nú þegar við skiljum, vegna þess að það er þáttur í störfum þingsins, sem almenningur þó ekki þekkir, að einmitt þessa sömu viku sem pólitískar sviptingar hafa staðið hér á Alþingi hafa forustumenn stjórnmálaflokkanna unnið að því sameiginlega með þingforsetum að undirbúa þátt Alþingis í hátíðahöldum þjóðhátíðarinnar 28. júlí í sumar á Þingvöllum við Öxará. Og einmitt á þessum vikum hafa stjórnmálaflokkarnir á Alþingi náð algerri samstöðu um stórmál, sem þeir telja sameiginlega verðugt að beita sér fyrir að afgreitt verði á þeirri fagnaðarhátíð, og sú samstaða mun ekki breytast hvað sem öðru líður.“

M.ö.o.: rétt fyrir þinglausnir vorið 1974 tilkynnir forseti Sþ. að þingflokkar Alþingis hafi náð samkomulagi í fyrsta lagi um að kallað verði saman aukaþing þá um sumarið eftir að kosningar hafa farið fram og nýtt þing verið kjörið. Þessi ákvörðun er ekki tekin af þm. sem verða væntanlega á þingi eftir þær kosningar. Og það er ekki aðeins að þingflokkarnir hafi tekið ákvörðun um það með þessum hætti að boða til aukaþings, þrátt fyrir öll formsatriði, eftir þær kosningar sem þá fóru fram um vorið, heldur hafa þingflokkarnir samkv. yfirlýsingum forseta sameinaðs Alþingis einnig gert samkomulag um dagskrá þess fundar sem halda á í Alþingi, á aukaþingi sem boða á til að loknum kosningum.

Herra forseti. Ég var þingfréttaritari um þetta leyti. Mér er það mætavel kunnugt, að einn af þeim mönnum, sem stóðu að því að umrætt samkomulag var gert, hvað sem öllum formsatriðum líður og öllum ákvæðum í stjórnarskrá, var þáv. formaður þingflokks sjálfstæðismanna, núv. hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen. Fordæmið fyrir umræddri afgreiðslu hefur því hæstv. forsrh. þegar sjálfur gefið. Og það er ekki aðeins að hæstv. núv. forsrh., þáv. formaður þingflokks Sjálfstfl.. hafi átt aðild að því að ákveða að efna til aukaþings sumarið eftir þær kosningar í fyrsta lagi, í öðru lagi hvaða mál skyldu vera á dagskrá þess aukaþings, heldur átti núv. hæstv. forsrh., þáv. formaður þingflokks Sjálfstfl., einnig hlut að ákvörðun um hver skyldi fylgja úr hlaði því máli sem vera ætti á dagskrá aukaþingsins þá um sumarið. Og hver skyldi sá aðili hafa verið sem ákveðið var fyrir þingrofið 1974 að fylgdi úr hlaði tiltekinni ályktun sem vera ætti aðaldagskrármálið á aukaþingi þá um sumarið? Það var hv. þm. Gunnar Thoroddsen.