20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4010 í B-deild Alþingistíðinda. (3555)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég bjóst ekki við því að það yrði ástæða til þess að tala hér á nýjan leik. En sá furðulegi málflutningur, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., hafði hér um störf stjórnarskrárnefndar, gefur vissulega tilefni til að segja nokkur orð.

Ég tel það nokkuð alvarlegt og lít ekki á það sem hvert annað blaður, að formaður þingflokks Alþfl. skul lýsa því hér yfir, að forsetar þingsins hefðu átt að grípa inn í störf stjórnarskrárnefndar og það sé beinlínis vítavert, eins og hv. þm. orðaði það, að forsetar þingsins skuli ekki hafa skipað stjórnarskrárnefnd að skila af sér. Þingmaðurinn hafði mörg fleiri stóryrði um þetta. Kannske ber að skoða þessar yfirlýsingar sem kvöldskemmtun sem eigi ekki að taka alvarlega. En ef þessi orð eru mælt af fullri alvöru er alveg nauðsynlegt að mótmæla þeim hér. Það er mikill misskilningur að það standi í þeirri ályktun, sem Alþingi samþykkti á sínum tíma, að stjórnarskrárnefnd ætti að skila af sér, eins og þm. orðaði það, innan tveggja ára. Það stendur hvergi í þessari samþykkt — hvergi. Það, sem stendur í þessari samþykkt, er að stjórnarskrárnefnd skuli skila skýrslu og tillögum. Það gerði stjórnarskrárnefnd. Og fulltrúar allra þingflokka í stjórnarskrárnefnd voru algjörlega sammála um þau vinnubrögð sem nefndin ákvað að hafa. Það voru fulltrúar Alþfl., fyrrv. formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslasón, og núv. ritstjóri Alþýðublaðsins og núv. þm., Jón Baldvin Hannibalsson.

Fulltrúar þingflokkanna í stjórnarskrárnefnd gerðu sér fljótlega grein fyrir því, að þeir yrðu að vita skýran vilja þingflokkanna um hinar ýmsu hugmyndir að breytingum á stjórnarskránni sem fram höfðu komið, þeir gætu ekki einir og sér, þessir átta eða níu menn, setið sem sérskipaðir spekingar án umboðs frá þingflokkunum og kveðið upp úr með það, hvernig stjórnarskráin ætti að vera. Það væri nauðsynlegt að þessi vinna færi fram á þann hátt, að þingflokkarnir og fulltrúar þeirra ættu viðræður um afstöðu í einstökum málum. Þess vegna væri nauðsynlegt, áður en stjórnarskrárnefnd sendi frá sér endanlegar tillögur og lokaskýrslu, að fá fram umræður í þingflokkunum um þær frumhugmyndir að breytingum sem stjórnarskrárnefnd taldi að helst ætti að ræða. Það komu hvergi fram þau sjónarmið fyrr en nú frá formanni þingflokks Alþfl., að stjórnarskrárnefndin hefði að loknum þessum 24 mánuðum átt að skila af sér. Fulltrúar Alþfl. í stjórnarskrárnefnd voru ekki þeirrar skoðunar. Enginn fulltrúi annarra þingflokka var þeirrar skoðunar. Í viðræðum við formenn þingflokkanna kom alls ekki fram sú skoðun og ekki heldur frá þáv. og núv. formanni þingflokks Alþfl., Sighvati Björgvinssyni.

Við getum leyft okkur ýmislegt hér í þinginu í deilum á stjórn og stjórnarandstöðu og ásakað hver annan um ýmislegt í þeim efnum. En ég tel að þær ásakanir, sem hér komu fram í garð stjórnarskrárnefndar og í garð forseta Alþingis, um að þeir væru vítaverðir fyrir að hafa ekki gripið inn í þetta mál, séu gjörsamlega ósæmandi í þessum sal. Það er mjög leitt að þær skuli koma fram frá formanni þingflokks sem við höfum átt ágæt samskipti við. Þær varpa vissum skugga á það góða samstarf sem verið hefur innan stjórnarskrárnefndar og yfirleitt milli þingflokkanna um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið hingað til, þótt ýmsir hefðu kannske kosið að þau hefðu verið með öðrum hætti. En þess ber að geta hér, þótt ég hafi ekki talið æskilegt að fara að rifja hér upp og ræða sérstaklega þessa þætti, þessa hliðina í störfum stjórnarskrárnefndar, að það varð að bíða marga mánuði, mig minnir jafnvel upp undir 2–3 misseri, eftir að fulltrúar þingflokkanna í stjórnarskrárnefnd gætu skýrt frá því, hver væru viðhorf þingflokkanna eftir að þessi fyrsta skýrsla barst. Það var alveg ljóst að með verkum sínum sýndu þingflokkarnir, bæði þingflokkur Alþb., þingflokkur Alþfl. og aðrir þingflokkar, að þeir töldu ekki mikla nauðsyn að hraða málinu. Þessar skýrslur voru í umfjöllun á vegum þingflokkanna mánuðum saman. Það var ekki nokkur maður, síst af öllu formenn þingflokkanna, sem þá voru að standa upp og segja að nú væri bara vikuspursmál að stjórnarskrárnefnd sendi frá sér endanlegar tillögur og að víta bæri forseta þingsins fyrir að hafá ekki gripið inn í það mál. Það er fyrst í kvöld sem þær raddir heyrast.

Það er hægt að rökstyðja nauðsyn þessa aukaþings og ræða það mál hér án þess að beita röksemdafærslum af þessu tagi. Ég útilokaði ekkert í minni ræðu að til greina kæmi að halda aukaþing um stjórnarskrármálið. Ég taldi einfaldlega ekki tímabært að gera það í sumar. Það getur vel komið til greina að gera það seinna. Ég get séð ýmis rök fyrir því, að það væri æskilegt að þingið hefði einhverjar vikur eða jafnvel einn eða tvo mánuði þar sem það ynni ekki að neinu öðru en þessu. Ég get séð ákveðin rök fyrir því. En svona skítkast, ómerkilegt skítkast frá formanni þingflokks Alþfl. í garð formanni stjórnarskrárnefndar og allra þeirra manna sem í stjórnarskrárnefnd sitja, þar með taldir fyrrv. formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, og núv. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, er gjörsamlega ósæmandi, vegna þess að við berum allir, sem í stjórnarskrárnefnd sitjum, jafna ábyrgð á þeim vinnubrögðum sem þar hafa verið, vegna þess að mér vitanlega hafa aldrei komið fram innan nefndarinnar ágreiningsraddir um þau vinnubrögð — aldrei. Þeim málflutningi, sem hér var hafður uppi, er þá fyrst og fremst og a.m.k. jafnhliða beint til Gylfa Þ. Gíslasonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar, Matthíasar Bjarnasonar og annarra þeirra sem í stjórnarskrárnefnd sitja, þar með talins þess sem hér stendur.

Ég er alveg reiðubúinn að ræða við hv. þm. Sighvat Björgvinsson um þessi vinnubrögð. En ég tel það ómerkilegt að koma nú fyrst og setja fram þær skoðanir sem hann gerði hér, það sé ekki vel til fallið gagnvart þingflokkunum, stjórnarskrárnefnd og formönnum stjórnmálaflokkanna. Verið er að vinna að breytingum á stjórnarskránni á öllum þessum vettvöngum af formönnum flokkanna, stjórnarskrárnefnd og þingflokkunum í sameiningu og ekki vænlegt til árangurs að vera með stóryrði og ásakanir af þessu tagi.

Ef þingflokkur Alþfl. er þeirrar skoðunar, að breyta þurfi vinnubrögðum stjórnarskrárnefndar, hefði ég talið réttari vinnubrögð að fulltrúar þingflokksins í þessari sömu stjórnarskrárnefnd kæmu þar fram með þau sjónarmið. Ég hef að vísu ekki setið alveg alla fundi nefndarinnar, en ég hef aldrei heyrt þessi sjónarmið frá fulltrúum Alþfl. né nokkrum öðrum í stjórnarskrárnefnd.

Ég tel þess vegna að við eigum ekki að ganga miklu lengra eftir þessum umræðustíl — svo ég noti nú orð sem einn þm. Alþfl. notaði hér í kvöld, en hefur ekki heyrst lengi hér í salnum, ekki mánuðum eða misserum saman, en gott og gaman að heyra það á nýjan leik. Sú ræða, sem formaður þingflokks Alþfl. flutti hér, er ekki sá stíll sem er vænlegur til árangurs um samstöðu þingflokkanna varðandi breytingar á stjórnarskrá Íslands.