20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4014 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ræða sú, sem hv. 11. þm. Reykv. flutti áðan úr þessum ræðustól, vakti furðu mína. Í fyrsta lagi er það fremur óvenjulegt að heyra svo stórt tekið upp í sig sem hann gerði, og erum við þó ýmsu vanir frá honum úr þessum ræðustól. Hann gerist gjarnan vandlætingarsamur við samþm. sína. Hann talaði hér um skítkast og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er svo sem ekkert óvenjulegt. Ég veit að þessi still hans er ekki til sérstakrar fyrirmyndar. Við erum svo sem vanir því, að hann gerist hér fullyrðingasamur og fari töluvert á svig við sannleikann, ef honum þykir það henta, og hirðir þá ekki um að hafa það sem sannara reynist, því miður.

Í þessum umr. hefur nokkuð verið rætt um hvort, hvenær og hvernig stjórnarskrárnefnd skyldi af sér skila. En nú vill svo til, að í samþykkt Alþingis frá 6. maí 1978 er alveg skýrt til orða tekið um það, með hverjum hætti þetta skuli gerast. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, að þar sem sex ár eru liðin síðan stjórnarskrárnefnd var kosin, og það er lengri tími en venjulegur kjörtími þingkjörinna nefnda og ráða, skuli að loknum kosningum til Alþingis tilnefna að nýju níu menn í stjórnarskrárnefnd af hálfu þeirra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á nýkjörnu Alþingi, og í hlutfalli við þingmannatölu þeirra. Skal hin nýja nefnd skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og taka sérstaklega til meðferðar kjördæmaskipun, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfshætti Alþingis og kosningalög.“

Ég hef að vísu séð nokkur gögn frá þessari ágætu stjórnarskrárnefnd. Ég minnist þess hins vegar ekki, og brestur þar e.t.v. minni mitt, að hafa séð gögn um öll þau atriði sem hér eru skýrt og skilmerkilega upp talin. Hafi þau gögn ekki verið lögð fram eins og hér segir fyrir um, þá er auðvitað ljóst að ekki hefur verið farið að þessari samþykkt Alþingis. Nú skora ég á hv. 11. þm. Reykv. að leiða mig og þá okkur alla í allan sannleika um þetta, benda á tillögur og álitsgerð stjórnarskrárnefndar um öll þau atriði sem hér eru nákvæmlega upp talin. Það þýðir ekkert að koma hér aftur og aftur í þennan ræðustól og fara með hálfsannleika, fara á svig við sannleikann, láta vaða á súðum og taka það sem hentar hverju sinni. Þetta er alveg skýrt. Hér verður ekkert undan skotist ef menn vilja halda þessu til streitu.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. En þessi ályktun Alþingís er alveg ljós og ótvíræð, það hlýtur öllum að vera ljóst.