20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4015 í B-deild Alþingistíðinda. (3559)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. 11. þm. Reykv. hvarf úr salnum um leið og ég óskaði eftir að fá að svara rangfærslum hans. Það er hans mál. Þetta er ekki í fyrsta sinn, herra forseti, sem sá hv. þm. treystir á að hann geti við umr. hér á Alþingi haldið fram röngu máli í trausti þess að þm. annaðhvort hirði ekki um eða hafi ekki tíma til að ganga úr skugga um hvort fullyrðingar hv. þm. séu réttar eða rangar. Ég hef hins vegar tamið mér þá reglu, ef hv. þm. og ég lendum í deilu af þessu tagi, að ganga ávallt úr skugga um það, ef mér gefst tími til, hvort fullyrðingar hans séu réttar eða rangar. Og ég hef oftar en einu sinni staðið hv. þm. að því að skáka í því skjóli í fullyrðingum sínum, að þingbræðrum hans gefist ekki tími til að ganga úr skugga um hvort hann fari rétt eða rangt með. Hv. þm. fullyrti að í umræddri till. til þál., sem samþykkt var á Alþingi 6: maí 1978, hafi ekki verið kveðið á um starfstíma stjórnarskrárnefndinnar og lok hans. Mér gafst tími til þess að staðreyna réttmæti þeirra upplýsinga sem ég fór með gagnvart fullyrðingum hv. 11. þm. Reykv.

Upphaf málsins var það, að á þinginu 1978 lagði allshn. fram á þskj. 64 J till. til þál. um skipun nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá o.fl. Niðurlagsorð þeirrar till. allshn. hljóða svo, með leyfi forseta:

„Nefndin skili tillögum sínum í tæka tíð svo að unnt sé að leggja þær fyrir næsta þing“ — þingið sem átti að koma saman á haustdögum 1979. Þetta var till. til þál. frá allshn. Við þessa till, fluttu hv. þm. Geir Hallgrímsson, Ólafur Jóhannesson, Lúðvík Jósepsson, Benedikt Gröndal og Magnús Torfi Ólafsson brtt. á þskj. 892, sem samþykkt var óbreytt 6. maí 1978. Í stað þeirrar tilvitnuðu greinar um starfslok stjórnarskrárnefndar, sem ég las áðan, hafði verið sett inn í þessa brtt. sú grein sem hv. þm. Eiður Guðnason las orðrétt áðan og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skal hin nýja nefnd skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og taka sérstaklega til meðferðar kjördæmaskipun, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfshætti Alþingis og kosningalög.“

5. maí vorið 1978 mælti 1. flm. þessarar brtt., þáv. hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson, fyrir þeirri till. á fundi Sþ. Hann sagði í niðurlagi ræðu sinnar, með leyfi hæstv. forseta, og var þá að tala um upphaflega tillögu allshn.:

„Þá er og talinn of skammur tími að ætla stjórnarskrárnefnd að skila tillögum sínum svo fljótt að unnt sé að leggja þær fyrir næsta þing. Hins vegar er sett að hámarki til tveggja ára starfstími nefndarinnar eins og greinir frá í brtt.

Það er lágmarkskrafa, sem gera á til forustumanna nefndar af þessu tagi, sem skipuð er eða tilnefnd samkv. samþykki Alþingis, að þeir hefji störf sín á því að gera sér grein fyrir hvað í samþykkt Alþingis fólst. Í þessari samþykkt Alþingis, eins og nánar er útlistað í ræðu 1. flm. umræddrar brtt. sem mælti fyrir henni í nafni allra fokka þingsins, var svo fyrir mælt að stjórnarskrárnefnd, sem nýtur forsætis hæstv. forsrh., átti að skila af sér störfum fyrir 11/2–2 árum.