05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal fúslega taka undir síðustu orð hæstv. ráðh. og vera honum innan handar um að spara í heilbrigðiskerfi okkar. Ekki veitir af. Ég vil líka taka undir það, að að sjálfsögðu ber honum að skera á hnút þegar hnútur kemur til hans.

Ég varpaði fram spurningu vegna heilbrigðisráðanna. Í 7. gr. heilbrigðislaganna segir að þau skuli fara með stjórn heilbrigðismála í héraði í umboði heilbrmrn. og landlæknis. En þessi ráð eiga jafnframt að gera tillögur og áætlanir um framgang og forgang verkefna á sviði heilbrigðismála í héraði.

Það er alveg hárrétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefur langtímum saman, skulum við segja, tekist að ná samkomulagi um það milli þessara tveggja spítala hvar ætti að staðsetja sneiðmyndatæki. Allir voru sammála um að það þyrfti á því að halda. Þeir, sem voru skynsamir, sáu fram á að það væri hægt að nota eitt tæki fyrir báða. En ég hefði talið að ráðh. hefði, áður en hann ákvað að færa það Landspítalanum, átt að segja heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar og sérfræðingum beggja spítalanna: Nú standið þið frammi fyrir því að koma ykkur saman um hvar það á að vera. — Við skulum hafa í huga að á Borgarspítalanum í Reykjavík er aðalslysavarðstofa landsins, ekki aðeins Reykjavíkur og nágrennis, heldur alls landsins. Það eru höfuðmeiðslin sem koma þangað fyrst og fremst. Þeir báðu fyrst og fremst um að fá sneiðmyndatæki sem gæti tekið við, þegar slík slys bæri að, og rannsakað höfuðmeiðslin. Sannleikurinn er sá, að þegar við horfum á það fé, sem fer í þann Whole-body scanner sem keyptur er, er það svo mikið fé að aðeins vextir af því hefðu getað séð fyrir flugferðum fyrir þó nokkuð marga sjúklinga til Noregs, eins og áður var gert. Við hefðum kannske getað komist af með eitt höfuðtæki — ég skal fara að ljúka máli mínu — um stundarsakir. Þótt ég taki heils hugar undir, að auðvitað ber okkur að kaupa allt það besta og helsta sem til er á þessum sviðum, tek ég undir með ráðh. að það verður að vera einhver skynsemi í því.