20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4018 í B-deild Alþingistíðinda. (3561)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hér hefur komið til allsnarpra orðaskipta milli formanna þingflokka um erindisbréf og tímamörk þau sem stjórnarskrárnefnd hafa verið sett, þ.e. hvernig túlka beri það sem segir í samþykktri þál. þar sem verkefni nefndarinnar er lýst, að hún skuli skila álitsgerð og tillögum innan tveggja ára. Ég vek athygli á því, að hv. þm. Matthías Bjarnason, sem einnig á sæti í stjórnarskrárnefnd, hreyfði þessu máli fyrst hér í þessum umr. þar sem það kom fram í ræðu hans, að hann liti svo á að starfstíma stjórnarskrárnefndar hefði lokið í desembermánuði 1980 — nefndin hóf störf í desember 1978 — þ.e. innan tveggja ára. Þetta rifjar upp fyrir mér að innan nefndarinnar hefur þetta mál verið á dagskrá þ.e. spurst hefur verið fyrir um og rætt á fundum nefndarinnar hvernig túlka beri erindisbréfið og vár reyndar gert í upphafi. Sú umr. var einnig tekin upp síðar. Það er auðvitað til marks um það, hvílíks álits formaður stjórnarskrárnefndar nýtur í stjórnfræðilegum efnum, að bæði honum og starfsmanni nefndarinnar bar saman um þá lögfræðilegu skýringu, að hér væri um að ræða að skila álitsgerð og tillögum, og það hefði nefndin gert, þá var þeirri lagaskýringu treyst. Þetta vil ég taka fram vegna þess að í ræðu hv. 11. þm. Reykv. kom það fram að allir fulltrúar í stjórnarskrárnefnd, og ég tek undir það með honum, allir hljóta þeir að bera ábyrgð á því að hafa litið svo á að þessi skýring væri rétt, að þeir væru sammála um þetta. Ég vil láta það koma fram, að í slíkum efnum leita menn náttúrlega lagaskýringa hinna færustu manna.

Í annan stað hefur hér mikið verið rætt um hvort sé meiri sök stjórnarskrárnefndar fyrir að túlka umboð sitt með þessum hætti eða þingflokkanna sjálfra, sem hafa a.m.k. fengið tillögur og álitsgerðir stjórnarskrárnefndar í hendur, án þess að fyrir liggi að þeir hafi innan eðlilegra tímamarka tekið afstöðu til þeirra eða keyrt málið áfram með öðrum hætti.

Það fer ekkert á milli mála hvert verkefni stjórnarskrárnefndar er, þrátt fyrir þessar deilur um tímamörkin. Stjórnarskrárnefnd var ætlað, eins og margbúið er að lesa hér upp, að skila tillögum og álitsgerðum til þingflokka og endanlega frv. að nýrri stjórnarskrá. Um leið er það alveg ljóst, að sá hápólitíski þáttur þessa máls, sem lýtur að kjördæmaskipun og kosningalögum, er á valdi þingflokka, og það mál verður ekki útkljáð eða afgreitt nema að frumkvæði og fyrir tilstilli þingflokka. Menn hafa keppst hér við að lýsa því yfir, að þeir væru reiðubúnir til þess að vinna að samkomulagi milli þingflokka um það mál, og um það snýst hin pólitíska lausn. Það liggur alveg ljóst fyrir að mínu mati og ég hygg flestra stjórnarskrárnefndarmanna, að hvað sem líður störfum nefndarinnar sem slíkrar að öðrum þáttum endurskoðunar stjórnarskrár mun það ekki vera á valdi nefndarinnar, þó að hún geti formsins vegna skilað tillögum, að útkljá það mál. Til þess þarf að koma atbeini þingflokkanna og Alþingis. Og það er einmitt með hliðsjón af því sem tillaga þingmanna Alþfl. um tilhögun vinnubragða Alþingis við lausn málsins er flutt.