20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4019 í B-deild Alþingistíðinda. (3562)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sú deila, sem hér hefur komið upp, snertir ekki meginkjarna þess máls sem um er rætt hér, en hún varpar mjög skýru ljósi á hversu yfirborðskennd er gjarnan sú kunnátta sem hv. 11. þm. Reykv. tileinkar sér og fer með hingað upp í ræðustólinn. Ég sagði það þegar hv. þm. hljóp fram í símann áðan, að ég hefði gert það að reglu, að ef ég hefði tíma til í þinginu þegar hann fer með yfirlýsingar eins og hann fór með hér áðan, þá kannaði ég sannleiksgildi þeirra, því að hv. þm. skákar gjarnan í því skjóli að þm., sem hann ræðir við, hafi ekki tíma eða aðstöðu til að kanna sannleiksgildi slíkra fullyrðinga. Ég hef hvað eftir annað staðið hv. þm. að því að fara ekki rétt með. Er mér það sérstaklega í minni þegar hann bar útvarpsfréttamann fyrir tilteknum upplýsingum til sín um afskipti þm. á vegum Alþfl. af fréttaflutningi útvarpsins, sem sá útvarpsfréttamaður harðneitaði að hafa nokkru sinni sagt og mætti hér fyrir utan þingdyr til þess að staðfesta það, en hv. 11. þm. Reykv. skákaði í því skjóli að hér innan veggja hefur sá starfsmaður útvarpsins ekki málfrelsi.

Með nákvæmlega sama hætti reyndi hv. þm. að skjóta sér á bak við fullyrðingar í trausti þess; að ekki væri hægt að ganga úr skugga um það, hvort þær væru réttar eða rangar. Það gerði ég og það kom að sjálfsögðu í ljós, að fullyrðingar hv. þm. voru rangar. Yfirborðsmennskan er svo mikil í hans málflutningi að hann gefur sér ekki einu sinni tækifæri til þess að kanna það, að þau orð, sem hann hafði eftir mér og hv. þm. Karvel Pálmasyni um störf stjórnárskrárnefndar, sem við mæltum á Alþingi 5. maí 1978, voru um nefnd sem þá var verið að leysa frá störfum og hafði engan afmarkaðan skilafrest. Sú nefnd er ekki lengur til. Formaður þeirrar nefndar var þáv. hv. alþm. Hannibal Valdimarsson, fyrrv. hæstv. félmrh. Við vorum að tala um sakfellingar gagnvart þeirri nefnd og honum. Það var verið að leysa þá nefnd frá störfum vegna þess að hún hafði engan afmarkaðan starfstíma.

Það er vaninn þegar leitað er skýringa á lagasetningum frá Alþingi, ef þær eru ekki ótvíræðar í lagatextanum sjálfum, að leita þeirra annaðhvort í grg. með umræddum lögum eða þáltill. eða í ræðu flm. sem mælir fyrir umræddri till. Skýringin er ekki í neinni grg. með umræddri brtt. við till. til þál. frá allshn., sem ég ræddi um áðan, því að grg. með þeirri brtt. er engin. Hv. þm. Geir Hallgrímsson; þáv. forsrh., var á Alþingi 5. maí ekki að flytja ósköp venjulega ræðu, eins og ætla mætti af málflutningi hv. 11. þm. Reykv., heldur að mæla fyrir brtt. sem hann flutti ásamt hv. þm. Ólafi Jóhannessyni, Lúðvík Jósepssyni, Benedikt Gröndal og Magnúsi Torfa Ólafssyni fyrir hönd allra þingflokka Alþingis, og í þessari ræðu er að finna afdráttarlausa skýringu á hvernig beri að skilja þá raunar afdráttarlausu síðustu mgr., sem margoft hefur verið vitnað í í umræddri samþykkt.

Skýringin er ákaflega ljós hjá frsm. nefndarinnar. Hún er sú, eins og þar segir, áð sett sé að hámarki til tveggja ára starfsemi nefndarinnar. M.ö.o.: starfstími nefndarinnar sem um er að ræða, er liðinn fyrir a.m.k. 11/2 ári og umboð hennar því í meira lagi vafasamt eftir að sá starfstími er liðinn. Það væri hins vegar undarleg lagaskýring, ef nefndir, sem kjörnar væru af Alþingi og settur ákveðinn starfstími, ættu að taka að sér lagaskýringar á því, hversu langan starfstíma Alþingi hafi ætlað þeim til starfa. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er þannig t.d. formaður fjh.- og viðskn., sem kosin er af hv. Ed. Alþingis, og þess er að vænta, að starfstími þeirrar nefndar sé ekki miklu lengri a.m.k. en starfstími hvers þings. Nú kynni svo að fara, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson næði ekki endurkjöri í næstu kosningum. Gæti hann þá samkv. því tekið að sér þá lagaskýringu, að útskýra það að raunverulega hafi til þess verið ætlast, þegar hann var kjörinn í fjh.- og viðskn. Ed. Alþingis og kjörinn til formanns í þeirri nefnd, að hann gegndi því starfi fram yfir þann starfstíma sem Alþingi ætlaðist til að sú nefnd. starfaði? Ég vænti þess varla, að fólki mundi þykja það mjög líkleg lagaskýring. En kjarninn í þessu máli er einfaldlega sá, að það er eins og vant er þegar hv. þm. kemur með fullyrðingar af þessu tagi, að þær þola sjaldnast skoðun.