20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4021 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er til regla, gömul, góð og gild í íslensku réttarfari, að andmæli eða mótmæli séu of seint fram komin þegar tilefni hefur verið til þeirra áður, en ekki verið notað, og verða þá ekki tekin til greina.

Nú gerist það einkennilega í þessum umr., eftir að búið er að sýna fram á hversu vanhugsuð tillaga Alþfl. um aukaþing er, að þá grípur formaður þingflokksins allt í einu til þess að halda því fram, að stjórnarskrárnefndin sé búin fyrir löngu — eða í des. 1980 — að missa sitt umboð og hafi enga heimild til þess að starfa. (Gripið fram í.) Hvers vegna hefur þessi hv. þm. eða þingflokksformaður ekki komið þessum athugasemdum og mótmælum sínum fram fyrr?

Eins og hér hefur verið gerð grein fyrir og sérstaklega af hv. 11. þm. Reykv., segir ekki í ályktun Alþingis sjálfri neitt um það, að nefndin skuli hætta störfum eftir tvö ár. Það liggur fyrir að nefndin skilaði álitsgerð, greinargerð til þingflokkanna, áður en hún hafði starfað í tvö ár. Hins vegar var það auðvitað ljóst, að af mörgum ástæðum, m.a. hversu langan tíma hefur tekið fyrir þingflokkana að fjalla um þessar greinargerðir nefndarinnar og af ýmsum öðrum ástæðum, var útilokað að ljúka störfum og hafa tilbúið frv. til nýrrar stjórnarskrár í des. 1980.

Hér hafa starfað áður stjórnarskrárnefndir undir forustu hinna ágætustu manna. Ein þeirra starfaði undir formennsku Gísla Sveinssonar, formaður annarrar var Sigurður Eggerz, þriðju Bjarni Benediksson, fjórðu Hannibal Valdimarsson. Allir þessir ágætu menn lögðu sig fram um það að reyna að ná árangri. Margvíslegir erfiðleikar komu þar fram, m.a. mikið sundurþykki um kjördæmamál, en margt og margt fleira. Ég fullyrði það og af nokkrum kunnugleika, að þeirri nefnd, sem nú hefur starfað, hefur skilað miklu betur áfram og er komin miklu lengra í áttina til að ná árangri og niðurstöðu heldur en þessum fyrri nefndum. Þegar þessi nefnd var skipuð, hún verður til samkv. ályktun Alþingis, nefndarmenn eru tilnefndir af þingflokkunum, þá hélt ég að það væri fullkomin alvara hv. þm., eftir störf hinna fyrri nefnda, að þessi skyldi freista til hins ýtrasta að ná árangri og niðurstöðum og skila tillögum til nýrrar stjórnarskrár. Þannig hefur verið unnið að þessu máli og það er nú í sjónmáli. Í nefndinni hefur verið, eins og ég tók fram áðan, gott samstarf — mjög gott vil ég segja. Mikilla upplýsinga og gagna hefur verið aflað innanlands og utan og störfum nefndarinnar hefur miðað vel áfram. Við vonumst til þess að geta skilað okkar tillögum, skilað af okkur, eins og það er kallað, jafnvel á næsta hausti, eins og ég hef áður tekið fram.

Ef á að skilja svo ályktun Alþingis frá 1978, að umboð nefndarinnar hafi fallið niður í desembermánuði 1980, hvernig í ósköpunum stendur á því, að aldrei hefur heyrst um það nein rödd frá neinum þingflokkanna, formönnum flokkanna, formönnum þingflokkanna eða forsetum Alþingis? Það er einfaldlega vegna þess að í tillögunni sjálfri er ekkert ákvæði um það, að umboð hennar falli niður tveimur árum eftir að hún var skipuð. Nefndin hefur starfað áfram með samþykki allra nefndarmanna og með beinu eða óbeinu samþykki allra þessara aðila, þingflokka, stjórnmálaflokka og alþingisforseta.

Eftir að sýnt er að tillaga þeirra Alþfl.-manna fær ekki undirtektir, af þeirri einföldu ástæðu að hún er ekki til þess fallin að greiða neitt fyrir málinu, hún er því miður ekki nægilega hugsuð, þá grípur hv. formaður þingflokks Alþfl. til þess ráðs að della á nefndina, sumpart fyrir vanrækslu í störfum, en sumpart fyrir að hún starfi ekki með neinum rétti og hún sé raunar löngu liðin undir lok. Ég vil aðeins undirstrika það sem formaður stjórnarskrárnefndar, að ég tel nefndina hafa starfað og starfa enn með fullum rétti, Hún vinnur áfram að því að fullnægja sínu skylduverki og að ná því marki að skila frv. til nýrrar stjórnarskrár. Ég byggi þetta m.a á því, að það hefur aldrei komið fram nein athugasemd frá neinum þingflokki, neinum þingflokksformanni, forsetum Alþingis eða öðrum, sem hér eiga hlut að máli, við að nefndin héldi áfram störfum. Hún hefur því starfað í fullu umboði réttra aðila.