21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

262. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Með þessu frv. til laga um heimild til hækkunar á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum er leitað eftir heimild til að auka hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum úr 26.8 millj. dollara í 88 millj. og er þetta í samræmi við samþykktir stjórnar bankans um aukningu hlutafjár.

Hlutafjáraukningin er í tvennu lagi: Annars vegar almenn aukning í hlutfalli við núverandi hlutafjáreign. Hluti Íslands er þar 25.1 millj. dollarar. Af þeirri fjárhæð þarf að yfirfæra strax 3/4% eða um 188 þús. dollara. 63/4 %, jafnvirði 1694 þús. dollara, þarf að greiða inn á reikning Alþjóðabankans í Seðlabankanum á nokkrum árum. Það er miðað við að það gerist á sjö árum og yrði þá árleg greiðsla jafnvirði um 270 þús. dollara á því gengi sem gildir á greiðsludegi. Er fullt samkomulag um það í ríkisstj. milli mín og hæstv. fjmrh. og Seðlabankans að þetta verði gert með þessum hætti. Það mundu sennilega verða tæplega 3 millj. kr. sem þyrftu að koma inn á fjárlagafrv. fyrir næsta ár til að fullnægja þeim skuldbindingum sem þarna er um að tefla.

Við Íslendingar erum taldir vera það efnuð þjóð og hafa það miklar tekjur á mann að við fáum ekki, a.m.k. ekki á næstunni, möguleika á lánum frá Alþjóðabankanum. Hins vegar höfum við notið mikillar fyrirgreiðslu og verðmætrar fyrirgreiðslu frá Alþjóðabankanum eða nutum á meðan við þurftum þess með. Fylgir í aths. við lagafrv. tafla yfir þau lán sem við skuldum hjá bankanum. Er heildarupphæðin um 47 millj. dollara. Eins og sést eru vaxtakjörin ákaflega hagstæð, 6 og upp í 71/4%, þannig að við njótum þar og höfum notið mikillar og góðrar fyrirgreiðslu.

Ef ætti að tengja þetta sérstaklega við hagsmuni okkar nú og í framtíðinni er þess að geta, að Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru í raun og veru stofnanir ef sama meiði, vinna saman í mikilli samvinnu, eins og kunnugt er, en við njótum og höfum notið mikillar og góðrar fyrirgreiðslu.

Ef ætti að tengja þetta sérstaklega við hagsmuni okkar nú og í framtíðinni er þess að geta, að Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru í raun og veru stofnar af sama meiði, vinna saman í mikilli samvinnu, eins og kunnugt er, en við njótum og höfum notið mikillar fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. T.d. fengum við á árunum 1968–1969, þegar mikið verðfall varð á útflutningsafurðum okkar, gífurlega mikla fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem bjargaði okkur að verulegu leyti yfir það erfiðleikatímabil, sem kom í kjölfar áfalla í viðskiptum okkar á árunum eftir 1967–1968. Við vitum aldrei hvenær við þurfum á slíkri fyrirgreiðslu að halda. Það getur orðið aflabrestur hjá okkur í okkar þýðingarmesta atvinnuvegi, sjávarútveginum. Það getur orðið skyndilegar og óvæntar verðlækkanir í markaðslöndum okkar þannig að við verðum ævinlega að búast við því að verða fyrir verulegum sveiflum í sambandi við gjaldeyrisviðskipti. Þá er ákaflega þýðingarmikið fyrir okkur að hafa aðgang að fyrirgreiðslu úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að brúa tímabil í sambandi við slíkar niðursveiflur. Þetta mál tengist því í raun og veru óbeint Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna þess að þessar stofnanir vinna svo mjög saman.

Það fylgir nokkuð glögg grg. þessu frv., sem er aðeins í tveimur greinum. Í fyrsta lagi: „Ríkisstj. er heimilt að semja um hækkun á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum úr 22.2 millj. Bandaríkjadollara í allt að 68 millj. Bandaríkjadollara miðað við gullgengi dollars þann 1. júlí 1944.“ Í öðru lagi: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég hef ekki orðið var við að það væri ágreiningur um þetta mál í þinginu. Ég vil því vinsamlegast beina þeim tilmælum til hv. fjh.- og viðskn., sem eflaust fær þetta mál til meðferðar, að hraða meðferð þess til þess að það geti örugglega orðið afgreitt á yfirstandandi þingi.

Ég legg svo til að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.