05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Þessar umr. hafa orðið víðtækari en mér fannst ég gefa tilefni til. Hins vegar er ekkert óeðlilegt að menn tali í umr. sem þessum um að það sé mörgu ábótavant í skipulagi heilbrigðismála. Við þurfum að endurskipuleggja ýmislegt og við þurfum að gæta þess, að öll fjármálastjórn fari vel úr hendi. Ég get tekið undir þetta allt saman. En ég held að í sambandi við það mál, sem ég hef hreyft hér, verði menn að gera sér grein fyrir að það er alveg sérstakt mál sem hér er um að ræða. Það lýsir sér í því, að þetta tölvustýrða sneiðmyndatæki er talið valda algerri byltingu í læknisfræði og sjúkdómsgreiningu. Þetta verða menn að skilja. Ef menn skilja þetta ekki geta þeir staðið hér upp með vandlætingu, eins og hv. 3. þm. Austurl., og býsnast yfir því, að verið sé að ræða þessi mál í þeim anda sem ég hef rætt þau.

Það kemur ekki til greina að öll sjúkrahús fari að kaupa þessi tæki. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það. Ég held því fram, að það sé engin hætta á að sjúkrahús vítt og breitt um landið fari að kaupa slíkt tæki þó að það séu engin opinber gjöld af þeim til ríkissjóðs. Það þarf enginn að óttast slíkt. Hæstv. ráðh. ætti því að athuga það, og ég óska eftir að hann svari því, hvort hann vilji beita sér fyrir því að greiða til baka þau opinberu gjöld sem Borgarspítalanum hefur verið gert að greiða af þessu tæki.