21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4043 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. fór nokkrum almennum orðum um þýðingu þessa máls og sagði að þetta væri eitt af þýðingarmestu málum, sem við fengjumst við núna, vegna þess misréttis sem væri varðandi kostnað við upphitun húsa. Hann sagði margt rétt í því sambandi: þetta varðandi búsetu manna í landinu, það yrði að vera sæmilegur jöfnuður milli manna í þessum efnum. Hann benti líka á að vandinn hefur minnkað. Hann er minni umfangs en áður vegna þess að það hafa fleiri og fleiri fengið aðstöðu til að njóta ódýrustu upphitunarinnar með hagnýtingu jarðvarmans.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um þetta allt, sem hér er vikið að, og fleira sem hann sagði í sama anda. En ég dreg dálítið aðrar ályktanir af þessu eða kannske réttara sagt: Mín viðbrögð við þessum vanda eru á nokkuð annan veg en hæstv. ráðh. Að vísu segir hæstv. ráðh. að veröldin liti öðruvísi út frá tröppum Stjórnarráðsins en frá hinu háa Alþingi þegar menn séu í stjórnarandstöðu. Ég held að þegar frv. var lagt fram snemma árs 1980 hafi málin staðið þannig, að það hafi ekki verið skörp skil á milli stjórnarandstöðu og stjórnarliðs, vegna þess að þá sat að völdum bráðabirgðastjórn. Ég held að allir hafi þá talið sig standa nokkuð jafnt hvað þetta snertir. Það hefur kannske verið skýringin á því, hve almenn samstaða varð þá um þetta frv.

Hæstv. ráðh. vék að nál. þeirrar nefndar sem hann skipaði í fyrrasumar til að vinna að athugun þessara mála. Hann sagði — ég skildi hann þannig — að nál. ætti að vera grundvöllur fyrir stefnu í málinu. Og hann sagði að nefndin hefði verið sammála um meginstefnu. Þetta þarf örlítillar skýringar við. (Viðskrh.: Ég er ekki búinn að lesa alla skýrsluna.) Já, ég hygg að hæstv. ráðh. hefði þá ekki orðað þetta á þennan veg. Þó er ég ekki með þessum orðum að gefa í skyn að það hafi verið harðvítugar deilur eða ágreiningur um það nál. sem lagt var fram. Það var ágætissamvinna í nefndinni. Við höfðum ágætan formann og ég hef ekki að kvarta undan samvinnu við neinn einstakan mann í nefndinni. Og nefndin gaf út sameiginlegt nál. Enginn hafði fyrirvara um neitt. Við erum allir sammála um markmiðið. Það þurfti ekki að setja nefnd þess vegna. Við erum allir sammála um markmiðið, að það þurfi að koma á jöfnuði. En við höfum verið að ræða um leiðirnar að því. Það, sem nefndin gerði, var að hún lét reikna út ýmsa valkosti og stillir þeim upp í sínu nál., mælir ekki beint með neinni ákveðinni leið. En eins og ég tók fram og hef tekið fram hér áður í þessum umr. er ekkert í nál. andstætt eða mælir gegn frv. sem hér liggur fyrir. Í raun og veru er það áð mínu viti góður stuðningur við frv. og þá alveg, að ég hygg, afdráttarlaus um þá grundvallarstefnu frv. að setja takmörk fyrir því, hvað ójöfnuðurinn má vera mikill í húshitunarkostnaði. Nefndin var líka sammála um annað grundvallaratriði. Það er að nú eigum við ekki einungis að binda aðgerðir til jöfnunar á hitunarkostnaði við niðurgreiðslu á olíu, heldur líka dýru rafmagni.

Ég ætla ekki að rekja þetta frekar. Ég tel að þegar hæstv. ráðh. hefur lesið nál. sannfærist hann um að það mælir ekki gegn frv. þessu, enda höfðu menn í huga það sem gert var ráð fyrir alla tíð, að tekið yrði mið af frv. okkar hæstv. ráðh. og fleiri frá 1980. Þetta frv., sem við nú ræðum, byggist á þeim grunni.

Ég sagði áðan að ég væri alveg sammála hæstv. ráðh. um lýsingu hans á ástandinu og eðli þessara mála, en ég virtist draga aðrar ályktanir en hann, eins og orð hans féllu áðan. Ég vona að það sé ekki hans síðasta orð. Ég spurði hæstv. ráðh. hvort hann vildi beita sér fyrir því, að á þessu Alþingi væri sett ný löggjöf um þetta efni. Hæstv. ráðh. svaraði þessu ekki. Ég undirstrika að það hefur verið grunntónninn í öllum umr. um þetta mál frá því 1980 og þetta ár sérstaklega, að þetta Alþingi, þetta þing, liði ekki svo að það yrði ekki búið að lögfesta þá endurskoðun sem fram færi. Nú benti ég á það áðan, að mér virtist engin leið til þess nema samþykkja þetta frv. óbreytt eða með breytingum sem hæstv. ráðh. teldi að væru eðlilegar. Við getum athugað hvort það getur ekki orðið samstaða um það. Ef hæstv. ráðh. er alvara með að ljúka þessu máli á þessu þingi, eins og ég hef fram að þessu talið, sé ég ekki aðra leið en þessa.

Hæstv. ráðh. sagði að það færi vel á því að vísa þessu frv. til hans eða ríkisstj. Ég hef ekkert á móti því að vísa frumvarpi til ríkisstj. ef það á við og svo stendur á. En það þýðir í þessu tilfelli að það verður ekki gert út um þessi mál og þau afgreidd á þessu þingi.

Þetta vil ég leggja áherslu á og biðja hæstv. ráðh. að hafa í huga. Ég spyr því enn hæstv. ráðh. einfaldrar spurningar, beinnar spurningar: Vill hæstv. ráðh. stuðla að því, að við getum afgreitt þetta mál í formi nýrra laga á þessu þingi? Ég leyfi mér að óska mjög eindregið eftir því, að hæstv. ráðh. svari þessu, gefi yfirlýsingu um þetta atriði í þessum umr. þannig að hv. þm. viti hvar þeir standa í þessum efnum.